You are here

Algengar spurningar

Svör við nokkrum algengum spurningum og staðhæfingum sem oft valda misskilningi í lestrarkennslu og óöryggi hjá kennurum og foreldrum.

 

Ef nemandi hefur sjónræna styrkleika ætti að kenna lestur út frá sjónrænni en ekki hljóðrænni (heyrnrænni) lestrarkennslu?
Nei. Í dag vita sérfræðingar að það er nauðsynlegt fyrir alla að vinna gegnum tengsl stafs og hljóðs til þess að ná góðum tökum á tækninni við að lesa og skrifa. Það er ekki hægt að ná tökum á lestri með því að reyna að muna orðin sjónrænt án tengsla við hljóð og merkingu. Kenning Ehri (1992) um þróun á sjónrænum orðaforða í lestri leggur áherslu á að til þess að muna orð sjónrænt þarf lesandinn að vita nákvæmlega hvaða stafir eru í orðinu. Orð raðast og festast í sjónrænu langtímaminni með því að lesandinn segir/les orðin staf fyrir staf  (tengsl stafs og hljóðs/framburður), og tengir hljóm orðanna við merkingu þeirra og stöðu í setningu. Smám saman festist hljómur orðanna og merking í langtímaminni og þegar lesandinn sér orðin aftur opnast fyrir þessa geymslu í minninu og hann þekkir orðin um leið og hann sér þau. Rannsóknir sýna að nemendur með lestrarerfiðleika þurfa fleiri tilraunir við að lesa og festa orð í langtímaminni en þeir sem ekki eiga í erfiðleikum (lágmark 14 tilraunir á móti 4). Þetta skýrir meðal annars það sem rannsóknir hafa endurtekið sýnt fam á, þ.e. að lestur þjálfast best með því að nemandinn lesi og skrifi markvisst. Stafir orðsins vekja upp hljómmynd þess og merkingu í orðasafni hugans og ekki nóg með það, heldur gerist þetta ósjálfrátt þegar góðri lestrarþjálfun er náð og án þess að lesandinn gefi gaum að því að hann  sé að lesa orðin. Þannig getur þjálfaður lesari sökkt sér niður í efnisinnihald textans.

Ef nemandi hefur ekki náð tökum á hljóðaaðferðinni við lok 1. bekkjar ætti þá að beita annarri aðferð?

Nei. Það er mjög mikilvægt að vinna með tengsl stafs og hljóðs með börnum sem eiga í erfiðleikum með hljóðaaðferðina, því þau þurfa einmitt á því að halda. Þessi börn hafa oft veikleika í hljóðkerfisvitund og e.t.v. í fleiri þáttum málsins. Því er nauðsynlegt að kanna vel hvar barnið er statt í málþróuninni og vinna út frá málrænum grunni barnsins. Ef hann er slakur þarf að færa sig markvisst í átt að jafnvægum kennsluaðferðum (balanced instruction) til að efla málhæfni barnsins með því að vinna út frá sögum og myndum og enda í stöfum og hljóðum, bæði gegnum lestur og ritun í nánum tengslum við merkingu orða.  Ritun og lestur eru gagnvirkar aðferðir sem báðar byggja á tengslum stafs og hljóðs (hljóðaaðferð) og það er mjög mikilvægt að vinna með báðar aðgerðir samhliða, með börnum sem eiga erfitt með að ná tökum á lestri. Börn með lestrarerfiðleika eru lengur að byggja upp sjálfvirkni í undirþáttum lestrarferlisins og því þarf að fara hægt, endurtaka og þjálfa markvisst, fram og til baka í lestrar- og ritunarferlinu. Börn með lestrarerfiðleika yfirfæra oft mjög illa þá færni sem þjálfuð er stök, án tenginga við heildarferlið. Þess vegna er árangursríkast að vinna gegnum lestur á merkingarbærum textum og ritun stuttra setninga sem barnið upphugsar sjálft.

Börn sem eiga erfitt með hljóðkerfisvitund, orðaforða eða bókstafi (umskráningu) í fyrstu bekkjum grunnskóla munu ná jafnöldrum ef við bíðum þar til þau eru tilbúin að læra að lesa.

Nei. Í dag vita sérfræðingar að þetta er ekki rétt. Þvert á móti sýna rannsóknir að ef við bíðum með inngrip verður sífellt erfiðara að brúa það bil sem myndast milli þessara barna og hinna sem eru þegar tilbúin að takast á við lestrarnámið. Þetta eru börnin sem lenda líka í áhættuhópi við skimun í leikskóla eða í 1. bekk grunnskóla og þeim gagnast sama kennsla og hinum sem eru með veikleika í úrvinnsluþáttum. Lögð er áhersla á að skima í áhættuhópa fyrst og fremst til þess að finna hvar barnið er statt og veita kennslu sem hæfir þörfum þess, strax í byrjun. Þannig stefnum við að því að brúa bilið milli þeirra sem eiga í erfiðleikum og hinna. Ef við bíðum of lengi er hætta á að bilið vaxi og verði svo stórt að við náum ekki að brúa það.  Börn sem ekki fá kennslu við hæfi upplifa sig fljótt tapara, það brýtur niður sjálfstraust þeirra og kemur í veg fyrir að þau vinni sigur í skólanum. Ung börn takast ekki á við nám af skyldurækni, þau takast á við námið  þegar þau ná árangri og fá hæfilega krefjandi verkefni til að glíma við, uppörvun og hvatningu.  Það er kveikjan að innri áhugahvöt barnsins og henni má kennarinn ekki glata,  þá er hætta á að  hann missi næmi barnsins og innri virkni við námið.

Er nægilegt að taka mið af "fjölgreindarkenningunni"  eða kenningum um "learning styles" til að ná tökum á lestrarerfiðleikum?

Nei, það er af og frá. Fjölgreindarkenningin býður upp á nokkurs konar "hlaðborð" af nálgunum sem við "vonum" að komi til móts við þarfir allra nemenda. Sjaldnast hafa styrkleikar og veikleikar nemenda verið kannaðir né metnir til hlítar, svo oft vitum við minna en við þyrftum að vita til þess að geta virkilega mætt þörfum allra. Fjölgreindarkenningin er hins vegar mikilvægt leiðarljós að þessu markmiði. Með nákvæmri, sérfræðilegri athugun á stöðu barnsins í lestri vitum við nákvæmlega hvar barnið er statt, hvar þarf að byrja að þjálfa og með hvaða aðferðum við náum árangri.                             

Hugtakið "learning style" eða námsstíll, vísar til þeirra "vinnuaðferða/námsvenja" sem nemendur velja sér að viðhafa við námið. Vilja þeir liggja við lestur eða sitja, vilja þeir hafa tónlist í bakgrunni,  hvernig eða hvort þeir glósa hjá sér o.s.frv. Learning style vísar þannig til yfirborðsþátta. Hugtakið "learning strategies" eða "námsaðferðir"  vísa hins vegar til þeirra hugrænnu aðferða sem nemendur beita við þrautalausnir og sem þeir þurfa að hafa tök á til að leysa úr verkefnum og vandamálum sem mæta þeim í náminu. Talið er að grunnur að námsaðferðum (learning strategies) sé lagður tiltölulega snemma á ævinni og að um 11 ára aldur hafi barnið þegar mótað mikilvægan grunn. Heilarannsóknir sýna að það er tiltölulega auðvelt að móta nýjar taugabrautir hjá börnum og út frá slíkum rannsóknum má sjá hvernig tekst með markvissum lestrarkennsluaðferðum að virkja ný svæði til starfa.

Að nægilegur tími með þolinmóðum stuðningskennara geti leyst flest lestrarvandamál.

Nei, síður en svo. Rannsóknir á kennsluaðferðum hafa leitt í ljós að það er hægt að kenna nánast öllum börnum með dyslexíu/lesblindu að lesa ef við beitum réttum aðferðum og ef gripið er inn í nógu snemma. Það vekur athygli að ekki virðist munur á árangri eftir því hvaða kennsluprógrömm eru notuð, svo framarlega sem þau innihalda vinnu með tengsl stafs og hljóðs og markvissa þjálfun hljóðkerfisvitundar. Rannsóknir sýna hins vegar að munur á árangri kennslu felst í færni kennarans. Þetta segir okkur að það sé afar  mikilvægt að kennarar afli sér góðrar menntunar og þekkingar ætli þeir að ná góðum árangri í kennslu.

© Steinunn Torfadóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer