You are here

Grunnskólar

Þjónusta í grunnskólum við börn með lestrarerfiðleika

Í reglugerð um sérfræðiþjónustu skóla nr. 386/1996 með síðari breytingum stendur m.a. 

 

Öllum sveitarfélögum, sem standa að rekstri grunnskóla, er skylt að sjá skólunum fyrir sérfræðiþjónustu, bæði almennri og greinabundinni kennsluráðgjöf, er taki til þeirra námsgreina sem tilgreindar eru í 30. gr. grunnskólalaga og sálfræðiþjónustu (1.gr.).
Á fyrstu árum skólagöngu skulu skólar kanna hvaða nemendur eiga í erfiðleikum með lestrarnám eða lestur, bregðast við því með kerfisbundnum hætti og sjá til þess að öll börn fái nauðsynlega aðstoð til að ná viðunandi lestrarfærni. Fylgst skal reglulega með framförum í lestri og brugðist við vanda sem upp kemur jafnóðum allt til loka grunnskólans. Sérfræðiþjónustan skal aðstoða skóla við greiningu lestrarerfiðleika og veita kennurum ráðgjöf um hvernig brugðist skuli við. Hún skal sjá skólum fyrir viðeigandi skimunar- og greiningarprófum  ( 2. grein).

 

 

Eins og hér kemur fram ber skólum og sveitarfélögum skylda til að bregðast við lestrarvanda nemenda og viðhafa fyrirbyggjandi vinnubrögð sem felast í því að skima fyrir lestrarerfiðleikum við upphaf grunnskólans til að geta aðstoðað nemendur sem fyrst. Starfsmenn skóla og  sveitarfélaga hafa brugðist við þessum laga- og reglugerðarákvæðum með ýmsum hætti og er oftast hægt að finna upplýsingar um vinnubrögð hvers skóla í handbókum skólanna og sérkennsluáætlunum sem skólum er skylt að gera skv. 14. grein Reglugerðar um sérkennslu (nr. 389/1966).

Hægt er að finna upplýsingar um skólaskrifstofur (heimilsföng, símanúmer og netföng starfsmanna) allra sveitafélaga á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga (samband.is) undir tenglinum : http://www.samband.is/template1.asp?ID=943

Algengt vinnuferli við upphaf skóla

  • Fundir með leikskólakennurum barnanna þar sem farið er yfir stöðu þeirra varðandi nám og líðan.  Einnig er farið yfir áhættuþætti er varða lestrarerfiðleika svo sem niðurstöður málþroskaprófa HLÓM-2 sem prófar mál- og hljóðvitund nemenda. En til að mega ræða niðurstöðu prófa eða annarra greininga þarf leyfi foreldra. 
  • Viðtöl við foreldra við upphaf grunnskóla þar sem ýmissa upplýsinga er aflað m.a. varðandi fölskyldusögu um mál- og lestrarerfiðleika. 
  • Lögð eru fyrir ýmis próf við upphaf grunnskóla til að kanna málskilning, hugsanlega áhættu varðandi lestrarerfiðleika og vinnulag nemenda, en þó getur verið misjafnt hvaða próf eru notuð í hverjum skóla.

Þau helstu eru:

  •  Teiknipróf Tove Kroch (finnur ekki vel börn með lestrarerfiðleika) 
  •  Boehm – R sem metur hugtakaskilning, einkum afstöðuhugtök
  •  Læsi - lestrarskimun fyrir 1. bekk

Öll ofangreind próf eru hóp-próf, þ.e. lögð fyrir í bekk.

Í sumum skólum eru einnig lögð fyrir ýmis verkefni til að kanna með nákvæmum hætti hvort fram komi vísbendingar um áhættu varðandi lestrarerfiðleika og til frekari leiðbeiningar fyrir lestrarkennsluna. Prófaðir eru þættir sem rannsóknir sýna að hafa forspárgildi fyrir árangur í lestri eins og hljókerfisvitund, nefnuhraði og stafaþekking við upphaf grunnskóla.  Börn sem sýna slakan árangur í prófunum fá fljótlega sérkennslu eftir því sem hægt er. Sum barnanna fara fljótt af stað í lestrinum og þurfa ekki á frekari sérkennslu að halda þannig að hægt er að beina kröftunum að þeim sem þurfa meiri hjálp. Formleg lestrargreining fer síðan ekki fram fyrr en í 3. bekk eða við upphaf 4. bekkjar ef þörf er á, en oft er miðað við að búið sé að greina nemendur með formlegum hætti áður en þau fara í samræmd próf í 4. bekk.

Þjónusta sem börn fá í kjölfar greiningar, ef þau njóta hennar ekki þegar, er í flestum tilvikum

  • sérkennsla 
  • hljóðbækur með helstu kennslubókum
  • lengdur tími  við próftöku 
  • stækkun á letri þar sem hægt er að koma því við
  • munnleg próf 
  • þau fá að skrifa verkefni í auknum mæli á tölvur og nota tölvur á prófum 

Lestrarnámi er fylgt eftir með reglubundnum hætti í flestum skólum. Algengt er að nota raddlestrarpróf til að meta leshraða og lesskilning. Raddlestrarpróf eru oftast lögð fyrir tvisvar á ári um áramót og við skólalok.  Læsi - lesskimun er yfirleitt lagt fyrir í 2. bekk og sum sveitarfélög kalla inn niðurstöður og vinna nánar úr þeim, sjá t.d. um skimanir í sérkennsluskýrslu Reykjavíkurborgar (http://www.rvk.is/desktopdefault.aspx/tabid-2278). Einnig eru lögð fyrir stafsetningar- og lesskilningspróf auk þess sem lestrarfærni kemur einnig fram í vinnu í mörgum öðrum námsgreinum. Í flestum skólum er lagt fyrir skimunarpróf varðandi lestrarerfiðleika í 9. bekk (GRP-10), en það má einnig nota til að meta framfarir nemenda og skoða hvar þeir standa miðað við jafnaldra. Ef útkoma reynist slök er hægt að grípa í taumana áður en nemandi hefur nám í framhaldsskóla.

Hvað geta foreldrar gert?

Ef grunur leikur á að barn sé með lestrarerfiðleika

  • er best að byrja á að tala við umsjónarkennara sem þá hefur samband við sérkennara sem athugar barnið nánar
  • telji sérkennari ástæðu til að lestrargreina barnið er erindinu vísað til skólastjórnenda (eða nemendaverndarráðs) 
  • foreldrar geta einnig leitað beint til sérkennara og/eða skólastjórnenda
  • ef enginn sérkennari eða annar aðili innan skólans getur séð um greiningu þá er hægt að vísa málinu til Þjónustumiðstöðva eða skólaskrifstofa viðkomandi skólaumdæmisins sem útvega sérfræðing til að annast greininguna.

Greiningarferlið

Áður en greining hefst er yfirleitt talað við foreldra til að afla nánari upplýsinga, t.d. varðandi heilsu,  málþroska, tvítyngi, gengi í öðrum námsgreinum, lestrarvenjur, áhugamál, styrkleika og líðan. Oftast liggja slíkar upplýsingar fyrir,  en mikilvægt er að fá sjónarhorn foreldra og að nýjar upplýsingar komi fram.
Að greiningu lokinni eru foreldrar kallaðir á fund sérkennara ásamt umsjónarkennara þar sem niðurstöður og tillögur að námsfyrirkomulagi í kjölfar greiningarinnar eru kynntar og farið yfir möguleika á samvinnu og  hvernig best sé að styðja við bakið á barninu.

Sérkennsla

Skólar fá úthlutað sérkennslutímum í hlutfalli við nemendafjölda (sjá reglugerð um sérkennslu nr. 389/1966). Deildarstjórar eða umsjónarmenn sérkennslu sjá um að skipta sérkennslutímum niður á nemendur og nemendahópa í samvinnu við skólastjórnendur. Flestir skólar þurfa að forgangsraða nemendum í sérkennslu og er þá miðað við hversu alvarlegir námserfiðleikarnir eru, en algengast er að veita sérkennslu í lestri, stafsetningu og stærðfræði. 

Sérkennslan byggir yfirleitt á mati eða lestrargreiningu. Við upphaf hennar eru gerðar einstaklingsnámskrár/áætlanir fyrir hvern og einn nemanda þar sem kennslan er  rökstudd og skipulögð fram í tímann. Í einstaklingsnámskrá koma fram eftirtalin atriði:

  • fjöldi tíma á viku og tímabil kennslunnar
  • megináherslur
  • helstu markmið
  • kennsluefni/gögn
  • kennsluaðstæður
  • hvernig fyrirhugað er að meta árangur

Sérkennarar og aðrir kennarar sem annast sérkennslu þurfa síðan að skila skýrslu um mat á árangri kennslunnar einu sinni til tvisvar á ári, þ.e. um áramót og við skólalok. Þessi vinnubrögð eru viðhöfð til að auðvelda kennurum, foreldrum og skólastjórnendum að hafa yfirsýn og fylgjast með árangri nemenda auk þess að auðvelda umræður milli áðurnefndra aðila.

Á yngri stigum skólans beinist sérkennslan einkum að :

  • lestri
  • málþroska
  • stafsetningu/ritun
  • stærðfræði
  • talkennslu

En á eldri stigum að:

  • stafsetningu/lestri
  •  málfræði
  •  stærðfræði
  •  (tungumáli), yfirleitt er ekki svigrúm fyrir sérkennslu í tungumálum

Það er misjafnt eftir skólum hvernig fyrirkomulagi sérkennslu er háttað, þ.e

  • sérkennari kemur inn í bekk
  • nemendur teknir úr bekk í sérkennslustofu eða næstu stofur
  • tímabundin námskeið
  • getuskipting
  • sambland af ofangreindum atriðum
  • algengast er að kenna í litlum hópum (markmið geta þó verið ólík), en einnig er um einstaklingskennslu að ræða

© Helga Sigurmundsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer