You are here

Kennsluaðferðir - Stafsetning

Stafsetning er samspil hljóðkerfis og ritháttar

Nemendur þurfa að geta sundurgreint öll hljóð orðanna til að stafsetja rétt. Það getur verið miserfitt og fer gjarnan eftir því hversu gegnsætt (góð samsvörun milli hljóða og stafa) tungumál þeirra er. Þeir verða að læra bókstafina, hljóð þeirra og gera sér grein fyrir ákveðnu ósamræmi milli framburðar og ritháttar, en ósamræmið er mismikið eftir tungumálum. Ekkert ritmál á tákn yfir alla þætti talmálsins en þá er t.d. átt við

  • mismun á hljóðlengd
  • tón og tónhæð
  • áherslur
  • hljómfall

Ofantaldir þættir geta valdið nemendum  vandræðum við að stafsetja rétt (Treiman & Kessler, 2005). Hljóð stafa, eins og þau eru kennd ein og sér haldast ekki alltaf óbreytt inni í orðum þar sem þau verða fyrir áhrifum af nálægum hljóðum/stöfum orðsins.  Stafsetning getur einnig endurspeglað ónákvæman framburð og framburðarerfiðleika hjá nemendum. Það er því ljóst að stafsetning er bæði erfið og krefjandi fyrir barn með hljóðræna veikleika (Jamieson & Simpson, 2006).

 

Málþættir sem stafsetning byggir á

Rannsóknir sýna að góð stafsetningarhæfni byggir á mörgum mál- og málfræðilegum þáttum eins og þekkingu og meðvitund á

  • hljóðkerfi málsins
  • rithætti
  • merkingu og
  • morfemum (minnsta merkingarbæra eining máls) sem fela í sér þekkingu á málfræðilegri uppbyggingu orða (morphology) ásamt
  • ritháttarmyndum og ritháttareiningum sem viðkomandi einstaklingur hefur fest í minni sínu gegnum tíðina (mental orthographic image MOI)

Ofantaldir þættir sem eru forsendur góðrar stafsetningar eru einnig forsendur góðrar lestrarfærni (Ehri 2000, 2005). Af því leiðir að stafsetning og lestur eru mjög samtvinnuð ferli sem þróast samhliða. Rannsóknir á kennslu hafa líka leitt í ljós að stafsetningarnám stuðlar að framförum í lestri og öfugt (Apel, Masterson, Niessen 2004).
Sjá útskýringu á hverjum ofantöldum þætti hér fyrir neðan.

Hljóðkerfisvitund

Hljóðkerfisvitund vísar til þeirrar hæfni að þekkja með nákvæmum hætti, geta ígrundað og unnið með málkerfi tungumálsins. Hún felur í sér hæfnina til að sundurgreina, tengja saman og vinna með atkvæði og hljóð innan orða.
Hljóðavitund sem er undirþáttur hljóðkerfisvitundarinnar snýr að vinnu með hvert einstakt hljóð orða. Hún hefur sterkt forspárgildi varðandi stafsetningarhæfni við upphaf skólagöngu. Það hafa rannsóknir sýnt með endurteknum hætti (Ehri 2000, 2005; Nation & Hulme 1997). Góð hljóðavitund gerir þá sem stafsetja meðvitaða um fjölda stafa í orði, tengsl þeirra við hljóðin og hvernig stafsetja má orð sem þeir þekkja ekki eða hafa aldrei séð áður (Apel, Masterson, Niessen 2004:645).

Ritháttarþekking

Ritháttarþekking vísar til skilnings á því hvernig breyta á talmáli í ritmál. Að þekkja nákvæm tengsl stafa og hljóða, t.d. að vita

  • að hljóðið /k/ getur staðið fyrir bæði g og k og jafnvel c,
  • að ákveðin stafaröð fyrirfinnst ekki í íslensku ritmáli t.d. aa, dt eða dk,
  • um staðsetningu stafa inni í orði t.d. að orð í íslensku enda ekki á h og tveir sérhljóðar eru aldrei í upphafi eða enda orða
  • að ritháttarþekking felur í sér skilning og þekkingu á stafamynstrum og reglum þar að lútandi t.d. að á eftir stuttu sérhljóði koma gjarnan tveir samhljóðar, sbr. krummi (Apel, Masterson, Niessen 2004).

Merking

Merking vísar til þess hvernig hægt er að nota orðskilning (orðaforða) til að stafsetja á réttan hátt, t.d. þegar orð hljóma líkt eða eru borin eins fram (homophones) en hafa ólíka merkingu og rithátt. Þá þarf merkingin að vera fyrir hendi til að hægt sé að stafsetja rétt, t.d. kyrkja og kirkja (Wasowitcz o.fl. 2003 sbr. Apel, Masterson, Niessen 2004).

Morfem

Meðvitund um morfem og málfræðilega uppbygginu orða (morphological awareness) vísar til þekkingar og skilnings á minnstu merkingarbæru einingum (morfemum (einnig nefnt myndan í et. og myndön í ft.) ) svo sem forskeyti, endingar, rót og stofn orða. Þekking á morfem-einingum tungumálsins hjálpar fólki til að vera meðvitaðra um

  • þegar eitt morfem bætist við, t.d. fleirtöluendingar og greinir
  • stöðuguleika í stafsetningu þess óháð framburði (á e.t.v. frekar við um ensku)
  • hvernig orð getur breyst við að eitt morfem bætist við, t.d. fer og fór.

Þekking og meðvitund um morfem tungumálsins getur einnig hjálpað fólki til að skilja betur tengsl milli orða og hvernig mismunandi forskeyti og endingar geta bæst við stofn þeirra, t.d. kenna, kennsla, kennari, kenning, forkennsla og þannig stuðlað að auknum orðaforða og skilningi á málinu (Apel, Masterson, Niessen 2004).

Ritháttarmyndir í minni

Ritháttarmyndir í minni (mental orthographic image (MOI)) eru myndir af orðum, atkvæðum og morfemum sem þeir sem stafsetja hafa safnað og fest í minni sínu gegnum tíðina. Venjulega nær fólk að festa ritháttarmyndir (einnig er vísað til þessa sem sjónræns orðaforða (visual orthograpichs image) eða forms ritháttareininga í minni (mental graphemic representations)) með endurteknum tilraunum við að umskrá orð eða orðhluta (Glenn & Hurley 1993; Treimann og Bourassa 2000). Eftir því sem orðið kemur oftar fyrir í lesmáli barnsins og umskráningarleikni þess eykst fjölgar skýrum ritháttarmyndum í minninu þannig að stafsetning verður góð og sjálfvirk (Ehri og Wilce 1982). Þrátt fyrir að aðrir málfræðilegir þættir stafsetningarinnar (svo sem hljóð - og morfemvitund, ritháttar- og merkingarþekking) hjálpi fólki mikið til að stafsetja rétt nægja þeir ekki til þess að stafsetning verði fullkomin. Til þess þarf fólk að treysta á ritháttarmyndirnar sem það hefur fest í minni sínu (Apel, Masterson, Niessen 2004).

© Helga Sigurmundsdóttir

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer