You are here

Orsakir

Orsakir dyslexíu

Rannsóknir benda til að orsakir dyslexíu megi rekja til taugafræðilegra frávika í málsvæði heilans, einkum í hljóðkerfisþætti tungumálsins.  Frávikin valda erfiðleikum við að læra að lesa, stafsetja og tileinka sér ný tungumál. Niðurstöður rannsókna sýna áreiðanlegan og skýran mun á milli þeirra sem eru með dyslexíu og þeirra sem hafa eðlilega lestrargetu hvað þessa þætti varðar. Munurinn kemur ekki aðeins fram við mat á hljóðkerfislegri umskráningarhæfni við að tengja saman stafi og hljóð heldur einnig í annarri starfsemi tengdri hljóðkerfisþættinum svo sem í :

hljóðkerfisvitund (phonological awareness),

hljóðrænu skammtímaminni (verbal short- term memory),

umritun/táknun (name encoding) og

endurheimt á hljóðrænum upplýsingum úr minni  (phonological retrieval).

Ef tekið er mið af flestum börnum sem greinast með dyslexíu kemur í ljós að veikleikar varðandi merkingar- (semantic) og setningafræði (syntactic) virðast ekki vera aðal orsök hennar. Þegar þessir veikleikar eru einnig til staðar eru miklar líkur á að um sé að ræða afleiðingar langvarandi lestrarerfiðleika. Þeir geta einnig verið tilkomnir vegna meðfylgjandi (comorbid) málörðugleika (oral language disorders). Merkingarfræðilegir (semantic) og setningafræðilegir (syntactic) þættir geta samt sem áður verið aðal orsök lestrarerfiðleika hjá sumum börnum, sérstaklega hjá þeim sem standa illa að vígi náms- og félagslega (disadvantaged) eða hafa fleira en eitt móðurmál (þ.e. eru tvítyngd) (Vellutíno & Fletcher, 2005).

   

 

Mannsheilinn er flókið líffæri sem sinnir margháttaðri og mismunandi starfsemi. Hann stjórnar líkamanum, tekur á móti, greinir og geymir upplýsingar. Heilinn skiptist í hægra og vinstra heilahvel. Heilasvæði sem bera ábyrgð á tali, málúrvinnslu og lestri eru flest staðsett í vinstra heilahveli. Þau helstu eru:

Ennisblað (The frontal lobe)  er stærst heilasvæða og stjórnar tali, ályktunarhæfni, skipulagningu, tilfinningum og meðvitund.

Broca-svæðið er staðsett í ennisblaði, en það er mikilvægt fyrir skipulag, málúrvinnslu og talmál (Joseph, Nobel & Eden, 2001). Svæði innan  ennisblaðsins eru einnig mikilvæg fyrir hljóðlestur (Shaywitz , 2002).

Hvirfilblað (The parietal lobe)  er staðsett aftar í heilanum og stjórnar taugaboðum, tilfinningalegri skynjun ásamt því að tengja talmál og  ritmál við minnið svo hægt sé að skilja það sem heyrt er og lesið.

Hnakkablað (The occipitial lobe) er staðsett aftast í heilanum þar sem sjónbörkurinn (pimary visual cortex) er staðsettur. Hann er mikilvægur fyrir sjónræna skynjun og þar á meðal við að bera kennsl á bókstafi.

Gagnaugablað (The temporal lobe) er staðsett í neðri hluta heilans, samhliða eyrunum og hefur áhrif á starfsemi málræna minnisins.

Wernicks – svæðið er mikilvægt fyrir málskilning (Joseph o. fl., 2001) og hefur mikil áhrif á málúrvinnslu og lestur.

Talið er að tvö önnur svæði, sem staðsett eru innan og á milli blaðanna séu mikilvæg fyrir lestur.

Svæðið sem liggur á  milli hvirfilblaðs og gagnaugablaðs (Left parietotemporal system) virðist hafa áhrif á greiningu orða - hina meðvituðu, fyrirhafnarsömu umskráningu orða (Shaywitz o. fl., 2002). Þetta svæði hefur mikil áhrif á ferlið við að tengja saman hljóð og stafi, hljóð stafanna og talmál (Heim & Keil, 2004). Það er er einnig mikilvægt til að skilja tal- og ritmál (Joshep o.fl., 2001).

Svæðið sem liggur á milli hnakkablaðs og gagnaugablaðs (Left occipitotemporal)  virðist hafa áhrif á sjálfvirkni, hraðan aðgang að orðum í heildum og er mjög mikilvægt fyrir góða lesfimi (Shaywitz o. fl., 2002, 2004).

 

 

© Helga Sigurmundsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer