You are here

Hvað er dyslexia?

Skilgreining á dyslexíu

Eftirfarandi skilgreining var samþykkt af nefnd á vegum Alþjóðlegu dyslexíusamtakanna (International Dyslexia Association/ IDA) 12. nóvember 2002, en IDA eru samtök fræðimanna og áhugafólks um dyslexíu (http://www.interdys.org/). Bandaríska barnaheilbrigðisstofnunin (The National Institute of Child Health and Human Development/ NICHD/ www.nimh.nih.gov) byggir meðal annars á þessari skilgreiningu
 
Dyslexía er sértækur námsörðugleiki af taugalíffræðilegum uppruna. Einkennin birtast í erfiðleikum með nákvæman, sjálfvirkan lestur og slakri færni í stafsetningu og umskráningu. Erfiðleikana má í flestum tilfellum rekja til vanda við úrvinnslu málhljóða sem er ekki í samræmi við aðra vitsmunalega hæfni einstaklingsins og koma fram þrátt fyrir vandaða lestrarkennslu. Dyslexía getur leitt til erfiðleika með lesskilning og ónógrar lestrarreynslu, sem aftur getur komið niður á þróun orðaforða og öflun þekkingar í gegnum lestur.(http://www.interdys.org/, Lyon, Shaywitz & Shaywitz, 2003)
 

 

Eins og kemur fram í skilgreiningunni þá eiga börn með dyslexíu í sérstökum erfiðleikum með að umskrá bókstafi ritmálsins í hljóð og orð en það veldur erfiðleikum við að lesa og stafsetja  ný orð og byggja upp sjónrænan orðaforða. Nánari útskýringar og túlkun á skilgreiningunni má sjá hér.

Dyslexía birtist óháð greind (Siegel, 1992; Stanovich, 1994) kynþætti og þjóðfélagsstöðu (Vellutino o.fl., 2005; Snowling, 2006). Dyslexía getur verið misalvarleg og stundum eru til staðar aðrir taugafræðilegir veikleikar samhliða henni sem auka á námserfiðleikana (Höien & Lundberg, 2000; Snowling, 2006; Deponio, 2004).

Með góðri kennslu og þjálfun geta flestir einstaklingar með dyslexíu náð  viðunandi tökum á lestri, en oft verða stafsetningarerfiðleikar viðvarandi (Torgesen, 2001, 2004).

 

 

© Helga Sigurmundsdóttir og Steinunn Torfadóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer