You are here

Bókasöfn

Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafn

Safnið var opnað 1. desember 1994 eftir sameiningu tveggja safna, Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns. Þar eru nú geymd um 900 þúsund bindi bóka, tímarita og annarra gagna. Í Þjóðarbókhlöðu er aðgangur að fjölda rafrænna gagna og góð lestrar- og vinnuaðstaða á fjórum hæðum.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn gegnir því tvíþætta hlutverki að vera þjóðbókasafn Íslands og jafnframt bókasafn Háskóla Íslands. Safnið safnar öllum íslenskum gögnum, varðveitir þau, skráir og flokkar. Safnið sinnir þjónustu við kennslu og rannsóknarstarfsemi Háskóla Íslands og heldur uppi bókasafns- og upplýsingaþjónustu í þágu atvinnuvega, stjórnsýslu og rannsókna á Íslandi.

Hlutverk þess er að veita aðstoð við rannsóknir á sviði bókfræði og bókasafns- og upplýsingafræði. Safnið veitir öðrum bókasöfnum á Íslandi faglega ráðgjöf og sinnir auk þess ýmsum verkefnum er varða bókasöfnin öll, eins og gerð efnisorðaskrár fyrir samskrá bókasafna, Gegni, og sér um Íslenska útgáfuskrá.

Millisafnalán - landsmiðstöð

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn er landsmiðstöð fyrir millisafnalán. Í því felst að safnið er leiðbeinandi fyrir millisafnalán innlendra safna og eins það safn sem erlend bókasöfn leita til fyrir millisafnalán frá Íslandi.

Gegnir - gæðastjórnun

Safnið ber ábyrgð á gæðastjórnun fyrir færslur í landskerfi bókasafna - Gegni. Safnið rekur Handbók skrásetjara Gegnis (HASK) á vefnum og hefur umsjón með efnisorðagjöf og nafnmyndum í Gegni.

Hvar.is - gagnasöfn í landsaðgangi

Safnið hefur umsjón með landsaðgangi að gagnasöfnum (hvar.is) fyrir stjórnarnefnd landsaðgangs og menntamálaráðuneytið. Landsbókavörður ber ábyrgð á landssamningunum fyrir hönd verktaka.

Orðasafn í upplýsingafræði

Orðasafn í upplýsingafræði var unnið á vegum safnsins frá 1996. Frá 2003 hefur það verið hluti af Orðabanka Íslenskrar málstöðvar.

Tekið af vefslóð safnsins sjá nánar http://landsbokasafn.is

 

Borgarbókasafn Reykjavíkur

Borgarbókasafn er almenningsbókasafn Reykvíkinga og öllum opið. Það starfar samkvæmt lögum um almenningsbókasöfn nr. 36 frá 1997, yfirlýsingu Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Unesco) um almenningsbókasöfn frá 1994 (PDF 14KB) menningarstefnu Reykjavíkurborgar og samþykkt fyrir Borgarbókasafn frá 2002. Það heyrir undir Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar.

Safnið var stofnað 1919 en hóf starfsemi 19. apríl 1923. Í safninu eru nú um 500.000 bækur og tímarit auk geisladiska, myndbanda og margmiðlunarefnis svo eitthvað sé nefnt. Í öllum söfnunum eru svokallaðir heitir reitir fyrir þá sem vilja koma með eigin tölvur og vinna á Netinu. Safnkosturinn er allur skráður í tölvukerfi safnsins, leitir.is

Söfn Borgarbókasafns eru sex og auk þess rekur safnið bókabílinn Höfðingja og sögubílinn Æringja sem heimsækir leikskóla. Markmið safnsins er að aldrei sé lengra en einn kílómetri fyrir borgarbúa í næsta safn eða viðkomustað bókabíls.

Ársafn

Foldasafn

Gerðubergssafn

Kringlusafn

Sólheimasafn

Bókabílinn Höfðingi

Sögubíllinn Æringi

Borgarbókasafn er í samstarfi við Bókasafn Mosfellsbæjar og Bókasafn Seltjarnarness. Í þessu söfnum gildir sama skírteini og í söfnum Borgarbókasafns. Eins er hægt að taka efni í einu safnanna og skila því í öðru.

Önnur bókasöfn landsins

Sjá má lista yfir öll bókasöfn landsins á vef Menntamálaráðuneytisins

http://www.menntamalaraduneyti.is/stofnanir/

 

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer