You are here

Meira um byrjendalæsi

Hugmyndafræði um læsi hefur tekið breytingum í áranna rás. Áður fyrr var lestur skilgreindur sem einhliða umskráningarferli eða bein þýðing rittákna yfir á talmál. Börn voru talin verða lesþroska (reading readiness) um sex ára aldur. (Morrow, 2012; Philips og Lonigan, 2005).  Í kjölfar grósku í málrannsóknum urðu einnig gagngerar breytingar á lestrarrannsóknum sem leiddu til þess að hugmyndafræðin um læsi breyttist. Læsi var skilgreint sem flókin félagsleg virkni sem lærist m.a. í gegnum málræn samskipti. Kenningar um bernskulæsi (emergent literacy) eiga rætur í þessum hugmyndum (Gunn, Simmons og Kameenui, 1995; Warschauer, M, 1997), m.a. hugmyndafræði hugsmíðahyggju (social constructivism). Í samræmi við hugsmíðahyggju byggist nám upp stig af stigi samanber kenningu Piaget á þróunarferli náms í gegnum víxlverkun samlögunar og aðhæfingar og samkvæmt kenningu Vygotsky um svæði mögulegs þroska; að barn byggi við fyrri þekkingu og reynslu í samspili við getumeiri börn og fullorðna (Razfar og Gutiérrez, 2003). Í þriðja lagi má nefna Dewey (2000) en hann leggur megináherslu á að nám byggi á reynslu, að það sem barn tileinkar sér af þekkingu og færni í ákveðnum aðstæðum verði verkfæri til að skilja og fást við viðfangsefni í síðari námsaðstæðum (Dewey, 2000:).

Í samræmi við þessa hugsun skiptir reynsluheimur barna miklu máli; hvað þau sér til fullorðinna nota eða njóta læsis, hvað lesið er fyrir þau, hvort áhugi þeirra er vakinn á læsi og hvort þau fá tækifæri til að rannsaka ritmálið á eigin forsendum og með öðrum. Reynsla og viðhorf barna til læsis er byggt upp bæði á heimili og í leikskóla.

 

 

© Halldóra Haraldsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer