You are here

Til barna

 

 

Hægt er að hlusta á textann með því að smella á spilarann neðst á síðunni. Þessi tengill færir þig beint þangað.

Hvað er lestur ?

Lestur er það að geta lesið og skilið orðin sem bókstafirnir mynda.

Þeir sem eru góðir að lesa:

  • kunna alla bókstafina og hljóðin þeirra mjög vel
  • lesa rétt og hratt
  • læra fljótt að þekkja flest orðin
  • skilja vel það sem þeir lesa

Þetta þarf að gerast hratt svo lesturinn verði auðveldur og skemmtilegur. Þess vegna þurfa allir að æfa sig á hæfilega erfiðu lesefni til þess að ná góðri lestrarfærni. Gott er að lesa sama texta oftar en einu sinni.

 

Hvers vegna eiga sumir erfitt með að læra að lesa ?

Sum börn eiga í sérstökum erfiðleikum með að læra að lesa af því að heilinn vinnur ekki nógu auðveldlega með bókstafina og hljóðin þeirra. Þess vegna geta þau átt erfitt með að:

  • læra bókstafina og að muna hvaða hljóð þeir eiga
  • greina mun á hljóðum sumra stafa, eins og d-t, au-ög-k,  f-v og fleiri stafa sem eiga lík hljóð
  • lesa löng orð
  • þekkja orð um leið og þau sjá þau
  • skrifa orðin rétt

Börn með lestrarerfiðleika þurfa oftast lengri tíma en jafnaldrar til að verða læs. Með góðri kennslu og markvissri þjálfun geta þau samt náð að læra að lesa og skrifa rétt.

 

Hvernig get ég orðið betri í lestri ?

  1. Mikilvægt er að vera dugleg/ur að læra og muna alla stafina og hljóðin þeirra.
  2. Best er að læra einn staf í einu, rifja hann upp næstu daga og byrja ekki á nýjum fyrr en þú ert búinn að læra hann örugglega.
  3. Lestu á hverjum degi í lestrarbókinni þinni og ef til vill eitthvað annað.
  4. Reyndu að vera þolinmóð/ur við þá sem eru að hjálpa þér.
  5. Æfðu þig að lesa hvern einasta staf í orðunum, þannig lærir þú að þekkja orðin þegar þú sérð þau.
  6. Mikilvægt er að lesa stuttan texta í einu, tvisvar eða þrisvar yfir. Þannig lærir þú smám saman að þekkja orðin og getur lesið hraðar og betur.
  7. Vertu dugleg/ur að æfa þig að skrifa og hlusta eftir öllum hljóðum orðanna.
  8. Skrifaðu t.d. tölvupóst til foreldra, kennara eða vina þinna.

 

Ef þú ert lengi að muna stafi eða hljóð er gott að:

  • skrifa stafinn á handarbakið
  • skrifa stafinn á blað og hengja upp í herberginu þínu
  • leira stafinn eða mála hann á blað
  • tengja stafinn við mynd  sem passar við hljóð hans
  • nota stafi eða stafaspjöld og búa til orð
  • æfa þig að skrifa stafina og stafsetja orð
  • læra stafrófsvísuna, syngja hana og benda á stafina um leið
  • nota tölvuleiki, t.d. Stafakarlana og Glóa geimveru

 

Fleira sem hjálpar:

Vertu dugleg/ur við að hlusta eftir hljóðum inni í orðum og að taka þátt í alls konar leikjum með hljóð og stafi.

Vertu dugleg/ur að lesa alls konar lesefni í umhverfinu eins og skilti, götunöfn, auglýsingaspjöld, sjónvarpstexta o.fl.

Reyndu að finna bækur sem þú hefur áhuga á og getur lesið sjálf/ur.

 

Hvernig get ég náð meiri hraða í lestri ?

Prófaðu að lesa uppáhalds bókina þína, ljóð eða vísu aftur og aftur með réttum áherslum. Þannig verður þú smám saman leiknari og öruggari að lesa. Það gerist vegna þess að þú:

  • lærir smátt og smátt að þekkja orðin um leið og þú sérð þau og efnið verður kunnuglegra
  • þarft ekki lengur að hljóða þig í gegnum erfið orð

Þeir sem eru góðir í lestri þekkja flest orð um leið og þeir sjá þau og þurfa eingöngu að hljóða sig í gegnum

  • ný orð sem þeir hafa ekki séð áður
  • orð sem þeir ruglast á
  • orð sem þeir skilja ekki

 

Gættu þín að velja ekki of erfitt lesefni þegar þú ert að æfa lesturinn.  Ef þú lest of þungan texta verður erfiðara að þekkja orðin og meiri hætta á að þú gefist upp.

Til að byrja með er gott að bækurnar séu:

  • stuttar
  • með skýru letri
  • myndskreyttar
  • með hæfilega miklu lesmáli á hverri síðu

 

Hvernig get ég lesið erfiðar bækur?

Ef þig langar að lesa erfiðari bækur en þú ræður auðveldlega við er gott ráð að vera með tvær bækur samtímis:

  • aðra létta til að æfa hraða og leikni við lestur
  • hina til að hlusta á af hljóðbók eða með hjálp tölvu

Ef notuð er hljóðbók eða tölva er mikilvægt að reyna að fylgjast með textanum í bókinni eða á skjánum um leið og lesið er.

Annað ráð er að lesa til skiptis stutta kafla með foreldrum eða góðum vini.

 

Leshraði er mikilvægur mælikvarði á lestrarfærni:

  • þú kemst yfir mikið lesefni á stuttum tíma
  • þú einbeitir þér betur að innihaldi lesefnisins
  • úthald þitt eykst með auknum hraða og þú gefst síður upp.

 

Hvað get ég gert til þess að bæta lesskilning?

Góðar leiðir til að bæta lesskilning eru að :

  • lesa nokkrar línur í einu, stoppa og spyrja þig hvort þú hafir skilið efnið
  • lesa aftur það sama
  • reyna að sjá persónur og atburði fyrir þér í huganum
  • spyrja um orð sem þú skilur ekki
  • læra að leita að merkingu orða í tölvum og orðabókum
  • endursegja eða skrifa um það sem þú varst að lesa og nota orð sem þú ert nýbúin/n að læra
  • nota yfirstrikunar-penna til að merkja aðalatriði og/eða skrifa helstu atriði niður til að lesa aftur að lestri loknum
  • lesa með öðrum og ræða um efnið, stoppið þá eftir hálfa eða eina blaðsíðu og skiptist á að spyrja spurninga úr efninu og svara þeim.

Fáðu einhvern (foreldra, kennara, eða vin) til að segja þér í stuttu máli frá bók sem þig langar til að lesa, eða sem þú þarft að lesa fyrir skólann. Það hjálpar þér til að skilja efnið og flýtir fyrir lestrinum.

 

Hvað get ég gert til að bæta stafsetningu ?

Reyndu að skrifa eitthvað á hverjum degi. Eina setningu eða nokkrar línur sem þú semur sjálf/ur, því það gefur bestan árangur.

Leiðréttu ef þú gerir villur og skrifaðu orðið aftur rétt.  Það hjálpar þér líka mjög mikið við lestrarnámið (við að læra orðin).

Það getur verið góð æfing að skrifa tölvupóst og blogga.

 

Hjálpargögn og aðstoð

Fáðu aðstoð við að leiðrétta stafsetningu og lesa yfir texta sem þú þarft að skila í skólann.

Lærðu að nota leiðréttingarforrit í tölvu.

Lærðu að nýta þér orðabækur.

 

Hljóð-bækur

Hljóðbækur eru bækur sem búið er að lesa inn á diska. Að hlusta á hljóðbækur hjálpar þér að:

  • læra efnið og hafa gaman af því
  • læra ný orð og fræðast um nýtt efni
  • læra að vinna með mismunandi texta t.d. sögutexta, bókmenntatexta, fræðitexta, leikrit og ljóð
  • að fá hugmyndir að því hvernig þú gætir samið þinn eiginn texta

© Helga Sigurmundsdóttir og Steinunn Torfadóttir

 

Hljóðupptaka: 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer