You are here

Lestrarþjálfun

Lestrarnám felst í því að læra tæknina við að lesa (umskráning) og  að skilja það sem lesið er (lesskilningur). Lestæknin byggist á hljóðkerfisvitund og lesskilningurinn byggist að miklu leyti á orðaforða. Þessar tvær megin hliðar lestrarins þurfa að fara saman í lestrarnáminu þannig að um leið og börnin verða tæknilega læs eflist orðaforði þeirra og aðrir þættir lesskilnings og þekkingar. Einnig þarf að leggja áherslu á þjálfun í ritun og stafsetningu samhliða lestrinum.

Veikleiki í hljóðkerfisvitund getur verið merki um dyslexíu/lesblindu, en veikleikar í málskilningi og málnotkun geta leitt til lesskilningserfiðleika.

Hljóðaaðferð

  • Hljóðaaðferð er talin ein árangursríkasta leiðin til að kenna börnum að lesa (Snow & Juel, 2005).
  • Með henni geta börn fljótlega orðið sjálfstæð við lesturinn svo framarlega sem þau þekkja alla stafi og hljóð þeirra.
  • Börn geta jafnvel umskráð orð sem þau skilja ekki, en skilningurinn þarf einnig að vera fyrir hendi svo hægt sé að tala um virkan lestur.
  • Lesefni þarf því að vera á hæfilegu þyngdarstigi, hvorki of erfitt né of auðvelt svo að börnin sjái tilgang með lestrinum og hafi áhuga á að lesa.

Hvernig er hægt að efla stafaþekkingu og styrkja tengsl stafa og hljóða ?

Mikilvægt er að aðstoða börn við að

  • skilja betur tengsl ritmáls og lestrar við talmálið
  • skilja að stafirnir standi fyrir hljóð tungumálsins
  • festa stafi og hljóð þeirra í sessi með því að rifja þá upp og endurtaka um leið og nýir stafir bætast við

Hægt er að hjálpa börnunum með ýmsu móti við að muna stafina, t.d. með því að

  • tengja þá við nöfn á fólki sem þau þekkja
  • tengja bókstafi við ákveðnar myndir
  • skrifa stafi, leira og föndra með þá
  • nota tölvuforrit, t.d. Stafakarlarnir, Glói geimfari,  Frá A-Ö, Veröldin mín og Stafaleikir Búa, http://www.nams.is/bui/index.htm og Bínu, http://www.nams.is/bina/index.htm sem eru gagnvirk forrit á vef  Námsgagnastofnunar
  • sjá einnig Kristín Arnardóttir. (2007). Ég get lesið. Handbók um fyrstu skrefin í lestrarnámi ungra barna fyrir leikskóla, grunnskóla og heimili. Reykjavík: www. steinn.is.

Að tengja hljóð saman í orð

Um leið og barnið er búið að læra nokkra stafi fer það að tengja saman hljóð þeirra og mynda orð. Mikilvægt er að aðstoða barnið við þetta ferli og reyna að gera efnið jákvætt og spennandi. Hægt er að bregða á leik t.d. að

  • láta stafina heilsast eða rekast hver á annan og sjá hvaða orð eða orðleysa myndast
  • hafa stafrófið sýnilegt, gott er að hafa lausa stafi eða stafaspjöld til að geta tengt stafina saman á allan mögulegan hátt
  • prófa að taka stafi burt úr orðum eða bæta stöfum við orð og sjá hvernig þau breytast
  • nota tölvuforrit t.d. Glói geimfari,  Frá A-Ö, Glói geimfari á lestrareyju

Einnig er hægt að flétta þjálfun hljóðkerfisvitundar saman við, t.d. með því að biðja börn um að

  • finna rímorð
  • finna orð sem byrja á sama staf
  • tengja saman hljóð orða eftir heyrn

Flestum börnum finnst þessi glíma við stafina og hljóðin skemmtileg svo framarlega sem þau sjá árangur af vinnunni. Þess vegna þarf að hafa slík verkefni í hæfilegum skömmtum í samræmi við getu barnanna.

Ef árangur er lítill og barnið þreytist fljótt er betra að hafa stuttar, hnitmiðaðar æfingar og reyna síðan að lengja þær smám saman eftir því sem geta og úthald barnsins eykst.

Stafsetning/ritun

Stafsetning/ritun og lestur eru gagnkvæm ferli sem styðja hvort annað. Fljótlega eftir að börn eru farin að geta tengt saman einföld orð og geta skrifað hluta stafrófsins er gott að byrja á að láta þau glíma við að stafsetja eitt og eitt orð. Sú vinna er mjög árangursrík fyrir lesturinn, eflir hljóðkerfisvitund og styrkir meðvitund um tengsl stafa og hljóða (Moats, 2005; Tyner, 2004; Morris, 2005; Ehri,  2005).

Hvernig  er hægt að efla stafsetningu  og ritun ?

  • Hægt er að láta barnið skrifa orð frá eigin brjósti eða að foreldri lesi upp orð, t.d. úr lesefni dagsins.
  • Þegar barn skrifar frá eigin brjósti, t.d. út frá mynd, er það oft að reyna að stafsetja flókin orð sem það hefur ekki ennþá tök á að skrifa rétt. Mikilvægt er að hrósa barninu fyrir allar tilraunir, jafnvel þó að það geti aðeins skrifað fyrsta hljóð og/eða síðasta. Aðstoðið barnið við að greina viðeigandi bókstafi, en farið varlega í að leiðrétta, það getur brotið niður sjálfstraust og ánægju barnsins af  skrifunum.
  • Hins vegar þegar foreldri les upp létt orð úr lesefni dagsins er hægt að gera meiri kröfur, fara yfir orðin í sameiningu og láta barnið skrifa þau upp á nýtt.
  • Seinna, þegar barnið er orðið leiknara í lestri, má auka kröfurnar og biðja barnið um að skrifa fleiri orð og setningar, t.d. ljóð, litlar sögur, innkaupa-, gesta- eða óskalista.

Einnig er hægt að nota forritin:

  • Lestur og stafsetning (Hildigunnur Halldórsdóttir og Bryndís Skúladóttir 1999, 2001) en markmið þess er að þjálfa nemendur í að lesa og stafsetja léttan, merkingarbæran texta.
  • Að skrifa rétt (Kristín Steinsdóttir, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Rebekka Rán Samper, 2004, 2005) er gagnvirkt forrit á vef Námsgagnastofnunar til að þjálfa nemendur í að lesa og stafsetja texta með samhljóðasamböndum. Verkefnin skiptast í þrjá hluta: Horfa og sjá (afskrift), Muna og skrifa (sóknarskrift) og Hlusta og skrifa (stafsetja eftir upplestri), sjá nánar http://www.nams.is/ad_skrifa/index.htm
  • Ritum rétt (Ólöf H. Pétursdóttir, 2004) er gagnvirkt forrit á vef Námsgagnastofnunar. Það er einkum ætlað 9 - 12 ára nemendum sem eiga við stafsetningarörðugleika að etja en hægt er að nota það með góðum árangri fyrir aðra aldursflokka og til almennrar þjálfunar í stafsetningu, sjá http://www.nams.is/ritumrett/index.htm

Lestrarþjálfun

Til að byrja með eru börn með mjög einfaldan lestexta og þurfa að lesa hann oftar en einu sinni. Sumum finnst þessi endurtekning óþörf en hún er mikilvæg til þess að börn nái leikni og hraða í lestri. Endurtekinn lestur er ein besta leiðin til þess að auka sjálfvirkni og hraða lesturs sem er nauðsynleg undirstaða þess að börn geti náð fullnægjandi lestrarleikni (Stahl, 2004; Santa, 1999; Santa & Höien, 1999).

  • Við endurtekninguna og í gegnum tengsl stafa og hljóða festast orðmyndir í minni barna og smám saman fara þau að þekkja þær eftir því sem þau lesa sama orðið oftar. Þau þurfa ekki lengur að hljóða sig í gegnum hvern staf orðsins og geta lesið það um leið og þau sjá það.
  • Eftir því sem börn þekkja fleiri orð með þessum hætti verða þau fljótari að lesa og geta í staðinn gefið innihaldi lesefnisins meiri gaum (Ehri, 2002; Phillips & Torgesen, 2006).
  • Börn með lestrarerfiðleika þurfa mun meiri tíma og æfingu til að komast á þetta stig í lestrinum og mikilvægt er að þau æfi sig á hæfilega krefjandi lesefni á meðan þau eru að ná því.

Þyngd lesefnis

Ein helstu mistök varðandi lestrarnám barna eru að þyngja lesefni of hratt. Börn eiga þá á hættu að missa móðinn, halda að þau geti ekki lesið og gefast frekar upp.

Algeng viðmið á þyngd lesefnis til þjálfunar er að barn geri ekki fleiri villur en 5-7 í 100 orða texta (Tankersley, 2003).

Ef foreldrar verða varir við að lesefni er að þyngjast um of og kröfur reynast of miklar er gott að hafa samband við kennara barnsins og reyna í sameiningu að laga kröfurnar að getu þess og þörfum.

Þegar lestrarnámið gengur hægt er hætta á því að lesefnið verði of einhæft og höfði ekki nægilega vel til barnanna. Því er mikilvægt að foreldrar lesi fyrir börnin bækur sem höfða til aldurs og þroska. Lestur góðra bóka er besta leiðin til að efla orðaforða barna og undirbúa þau fyrir áframhaldandi skólagöngu, en góður orðaforði er ein megin forsenda fyrir góðum lesskilningi.  Börn sem eru lengi að ná tökum á lestri missa af þessu tækifæri til að efla orðaforða sinn ef ekki er lesið fyrir þau. Stundum geta börn og foreldrar lesið saman erfiðar bækur með eftirfarandi aðferð:

Foreldri  les stuttan texta, eina efnisgrein eða hluta af blaðsíðu og barnið hlustar og fylgist með í bókinni

  • Barnið æfir sig að lesa sama texta og reynir að líkja eftir lestri foreldris, gjarnan oftar en einu sinni til að ná betri árangri.
  • Nemandi les fyrir foreldri sem leiðbeinir, hvetur og hrósar nemandanum.
  • Æskilegt er að lesa stutta kafla eða smásögur, ljóð, leikrit eða stuttar efnisgreinar  sem eiga við getu og þekkingu viðkomandi nemanda.
  • Endurtekningin gefur nemandanum öryggi, hraða og góðan skilning á því sem hann les.
  • Það hjálpar einnig nemandanum að fá strax endurgjöf, þ.e. leiðbeiningar um hvað má fara betur og hvatningu til að halda áfram.
  • Einnig geta foreldrar og barn lesið upphátt saman. Foreldri les hægt til að byrja með, en reynir síðan að auka hraðann smám saman og láta nemanda elta sig.
  • Nemandi getur með sama hætti reynt að fylgja upplestri á snældu/diski (Tankersley, 2003; Stahl, 2004).

Lesskilningur

Lesskilningur er stöðugt ferli sem þróar hugsun og er undirstaða alls náms. Við lesturinn á lesandi í eins konar samræðum við lesefnið (innra tal) sem hjálpar honum til að fylgjast með því sem hann les, viðhalda áhuga og skilja það.

Gott er að útskýra þetta ferli fyrir barninu svo það geti smám saman nýtt sér þetta innra tal á meðvitaðan hátt í náminu (Harvey & Goudvis, 2007).

Hvernig er hægt að efla lesskilning ?

Foreldrar geta með ýmsum hætti aðstoðað barnið við að efla lesskilning t.d.með því að

  • aðstoða barnið við að fylgjast með innihaldi textans um leið og það les með því að spyrja sig spurninga úr efninu eftir að hafa lesið stuttan kafla í einu, t.d. eina efnisgrein
  • ræða um innihald lesefnis, spyrja spurninga sem vekja barnið til nánari umhugsunar t.d. hvernig gæti staðið á að......
  • aðstoða barnið við að tengja lesefni við fyrri þekkingu
  • hjálpa barninu að fara til baka í lesefnið til að leita svara við spurningum
  • ræða og útskýra nánar erfið og illskiljanleg hugtök
  • aðstoða barnið við að leita skýringa, t.d. í orðabókum eða á netinu

 

© Helga Sigurmundsdóttir

Hljóðupptaka: 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer