You are here

Einstaklingsmiðuð kennsla

Einstaklingsmiðuð lestrarkennsla (RTI)

Það hefur lengi verið vitað að nám og ekki síst lestrarnám byggir að stórum hluta á færni kennara og innihaldi og gæðum kennslunnar (Scanlon, Gelzheiser, Vellutino, Schatschneider og Sweeney, 2008; Torgesen, 2001). Rannsakendur eru nú stöðugt meðvitaðri um hvernig koma má í veg fyrir að börn lendi í námsvanda með því að miða kennsluna við þarfir hvers nemanda (Denton og Mathes, 2003; Lyon, Fletcher, Fuchs og Chhabra, 2006). Eitt þekktasta kennsluskipulag (instructional process) og það sem helst er horft til í dag í þessu tilliti kallast Response to Intervention (RTI) ( Fuchs og Fuchs, 2006a; 2006b; Walpole og McKenna, 2007; Buffum, Mattos og Weber, 2009). Hér er hugtakið RTI þýtt sem Viðbrögð við kennslu, en mætti allt eins kalla Svörun við inngripi.

Viðbrögð við kennslu  byggir á stigskiptri kennslu (sjá mynd héer að neðan), sem upphaflega hafði það að markmiði að tryggja að nemandi hefði örugglega fengið vandaða, raunprófaða  lestrarkennslu í bekk áður en því væri vísað í  sérkennslu (Heller, Holtzman og Messick,1982). Markmiðið með stigskiptu kennslunni var jafnframt að útiloka að vandi barna í námi stafaði af óvandaðri kennslu (Fuchs, Fuchs og Compton, 2004).  Þetta skipulag gefur kennurum tækni til að leita lausna með því að fikra sig áfram, skref fyrir skref og finna kennsluaðferðir og kennsluúrræði sem henta hverjum og einum nemanda, bæði þeim sem gengur vel og hinum sem eru lengur að fóta sig í lestrarnáminu.

© Steinunn Torfadóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer