You are here

Að lesa fyrir börn - leiðbeiningar

Leiðbeiningar fyrir foreldra

 

  • Talið við ungbarnið frá fyrstu tíð og ýtið undir hjal þess og babl, það er leið ungbarnsins til samskipta og barnið þarf að æfa málhljóðin.
  • Talið við barnið á meðan þið eruð að sinna því og um það sem verið er að gera hverju sinni og hvað á að fara að gera. Með því að hlusta lærir barnið smám saman orð og öðlast skilning á því hvernig málið virkar.
  • Syngið og raulið fyrir barnið frá fyrstu tíð, gjarnan sömu vísurnar aftur og aftur svo barnið læri að þekkja þær.
  • Veljið fjölbreyttari söngtexta og rímaðar frásagnir eftir því sem barnið eldist. Smám saman fer barnið að taka undir sönginn og þá er hægt að fara að leika sér með rímið. Látið börnin ljúka hendingunum og prófið að setja inn vitlaust rímorð og láta þau leiðrétta, það eflir hljóðkerfisvitundina.
  • Lesið fyrir barnið á hverjum degi. Lestur fyrir svefninn í ró og næði skapar rútínu sem veitir barninu öryggi. Reynið ennfremur að bregðast vel við þegar barnið biður um að lesið sé fyrir það á öðrum tímum dagsins. Ræðið við barnið um það sem lesið er en gætið þess að þær umræður séu á forsendum barnsins.
  • Gætið þess að lestrarstundirnar séu ánægjulegar. Lesið frekar stutt í einu og oftar, sérstaklega fyrir allra yngstu börnin. Lestrarþol eykst með aldrinum ef lesið er reglulega fyrir barnið frá fyrstu tíð og því geta lestrarstundir fyrir fimm til sex ára börn verið talsvert lengri en fyrir tveggja til þriggja ára börn.
  • Hafið barnið í kjöltunni þegar lesið er fyrir það svo lengi sem það vill vera þar. Lestrarstundir veita barninu öryggi og hlýju og skapa jákvætt viðhorf til bóka og lesturs.
  • Ef barnið er órólegt og sýnir lítinn áhuga reynið þá að velja aðra bók eða finnið annan tíma þegar barnið er betur upplagt fyrir lestur. Lítil börn eiga erfitt með að sitja kyrr og það er allt í lagi þótt þau séu svolítið á iði undir lestrinum.
  • Segið börnunum hversu mikið gaman þið hafið af lestrarstundunum og látið þau finna að þið hafið ánægju af lestrinum. Gerið lesturinn skemmtilegri með því til dæmis að breyta tónhæð og styrk raddarinnar eftir persónum og til að auka spennu.
  • Ræðið við barnið um það sem er að gerast í sögunni, hvað er að gerast á myndunum og leyfið barninu að geta upp á því sem gæti gerst næst. Gætið þess samt að slíkt virki ekki truflandi á upplifun barnsins af sögunni og þetta þarf ekki að gera í hvert sinn sem lesið er. 
  • Eftir því sem barnið eldist geta samræður um efni barnabókanna orðið innihaldsríkari og hægt er þá að spjalla um valin orð til að auka orðaforðann. Sjá nánar Orðaspjall
  • Myndaalbúm fjölskyldunnar getur verið uppspretta fjörugra samræðna við barn og hægt að skiptast á stuttum sögum, leyfa barninu að „lesa“ og segja frá því sem ber fyrir augu.
  • Vekið athygli barnsins á prentmálinu, einstökum orðum í textanum og hvernig þau eru aðskilin með bili hvert frá öðru. Spjallið einnig við barnið um lestraráttina frá vinstri til hægri og hvernig við lesum niður hverja blaðsíðu og yfir á þá næstu. Það hjálpar barninu í lestrarnáminu.
  • Vekið athygli á bókstöfunum, fyrst bókstaf barnsins og hjálpið barninu að finna bókstaf sinn í texta þegar lesið er og barnið hefur áhuga. Vekið ennfremur athygli á hljóði bókstafsins.
  • Lesið bækur um fjölbreytt efni, bæði sögur og ljóð. Mikið er til af góðum barnabókum fyrir börn á leikskólaaldri. Hér er listi sem hægt er styðjast við en leikskólakennarar og starfsfólk barnadeilda á bókasöfnunum geta einnig verið til aðstoðar við val á bókum.
  • Lesið uppáhaldsbækur barnsins aftur og aftur ef barnið krefst þess!
  • Hvetjið börnin til að teikna og skrifa og skrifið líka niður eftir barninu. Gefið barninu forskrift en hvetjið það ennfremur til að skrifa sjálft „eftir eyranu“. Hrósið barninu fyrir tilraunir sínar í ritun og hvetjið það áfram en leiðréttið ekki.
  • Tölvur, spjaldtölvur og lesbretti er sjálfsagt að nýta eins og bækur til málörvunar og ánægju.

 

© Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer