You are here

Orðaspjall

Orðaspjall

Að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri

Orðaspjall er leið til að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri. Aðferðin var þróuð í leikskólanum Tjarnarseli í Reykjanesbæ undir stjórn Árdísar H. Jóndóttur M.Ed.,leikskólakennara.   Stuðst var við orðakennsluaðferð (e. Text talk) sem Isabel L. Beck, Margaret G. McKeown og Linda Kucan þróuðu og kynntu í bók sinni Bringing words to life (Beck, McKeown og Kucan, 2002).

Aðferðin var þróuð á grundvelli rannsókna sem sýndu að markviss orðakennsla hafði jákvæð áhrif á lesskilning og skilning á merkingu orða. Hún felst í því að kennarinn les bók með börnunum og velur orð úr bókinni til að kenna samkvæmt ákveðnu ferli. Samhliða orðakennslunni er lögð áhersla á að efla málskilning og máltjáningu barnanna með samræðum um sögurnar sem lesnar eru. Kennarinn spyr opinna spurninga sem krefjast þess að börnin ígrundi söguþráðinn vel og hvetur börnin til að leggja orð í belg (Beck o.fl.,2002).

Orðaspjall
Í Tjarnarseli var aðferðin löguð að íslenskum leikskólabörnum frá tveggja ára aldri og kölluð Orðaspjall.  Aðferðin felst í að kenna orð úr barnabókum í gegnum samræður og leiki. Þrátt fyrir að orðin komi að mestu leyti úr barnabókum er hægt að flétta Orðaspjalli inn í allt leikskólastarf,  til að mynda í vettvangsferðir, þemastarf, matmálstíma og í samverustundir þegar lesið er fyrir börnin, þeim sagðar sögur og kenndar vísur og þulur. Samhliða Orðaspjallinu gefst gullið tækifæri til samræðna um sögurnar þar sem heimspeki barna, fjörugt ímyndunarafl og meðfædd forvitni fær notið sín (Árdís H. Jónsdóttir, 2013).

Lýsing á Orðaspjallsaðferðinni

Leikskólabörn læra í gegnum leik og því er mikil áhersla lögð á orðaleiki og leikræna tjáningu í íslenska Orðaspjallinu. Kennarinn velur bók til að lesa með börnunum og orð úr svokölluðu millilagi orðaforðans úr bókinni til að kenna, ræða um og leika með. Hann staldrar lítillega við orðið þegar að því kemur í sögunni og útskýrir merkingu þess í stuttu máli. Þegar kennarinn hefur lokið lestrinum útskýrir hann orðið rækilega, ræðir merkingu þess og leitast við að nota það í öðru samhengi en gert er í sögunni sjálfri. Jafnframt er afar mikilvægt að hann hvetji börnin til að segja orðið, setja það í setningar og nota í frásögnum (Árdís H. Jónsdóttir, 2013).
Að þessari fyrstu kynningu orðsins lokinni er tilvalið að fara í leiki, til að mynda spurningaleiki um orðið sem og önnur orð sem þegar hafa verið lögð inn. Börnin hafa gaman af að leika orðin hvert fyrir annað, segja orðin upphátt og klappa í takt eða hvað eina sem frjóum kennurum og börnum kemur til hugar (Árdís H. Jónsdóttir, 2013).

Hvaða orð á að velja?
Orðaforðanum er skipt niður í þrjú lög sem eru grunnorðaforði, millilag orðaforðans og þriðja eða efsta lagið (Beck, McKeown og Kucan, 2002, 2008). Þegar orð eru kennd samkvæmt Orðaspjalls-aðferðinni er megináhersla lögð á millilag orðaforðans en orðin þar eru ekki eins algeng í talmáli og orð úr grunnorðaforðanum og  þess vegna eru minni líkur á að börn rekist á þau í daglegum samræðum. Mörg þessara orða eru hins vegar algeng í ritmáli og tækifæri til að læra þau koma aðallega úr bókum eða öðru rituðu máli (Beck,  McKeown og Kucan, 2008).

Handbók um Orðaspjallsaðferðina

Út er komin handbók um aðferðina sem heitir Orðaspjall. Að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri. Bókin var unnin í samvinnu við Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.  Í bókinni er ítarlega sagt frá aðferðinni, gefin dæmi úr starfinu í Tjarnarseli og Hrafnhildur Ragnarsdóttir fjallar um málþroska á leikskólaárunum og mikilvægi hans fyrir alhliða þroska barna og velgengni í skóla.

Hægt er að nálgast bókina og eða fræðast um aðferðina  með því að hafa sambandi við Ingu Maríu Ingvarsdóttur leikskólastjóra í Tjarnarseli, inga.maria.ingvarsdottir@tjarnarsel.is eða Árdísi Hrönn Jónsdóttur verkefnastjóra, ardis.h.jonsdottir@tjarnarsel.is. Einnig er hægt að hafa samband í síma 420-3100.

 

© Árdís Hrönn Jónsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer