You are here

Hljóðkerfisvitund

Hvað er hljóðkerfisvitund ?

Sú hlið málþroska sem ef til vill hefur hlotið hvað mesta athygli innan lestrarrannsókna á síðastliðnum áratugum er málvitund (metalinguistic awareness). Málvitund felst í því að geta hugsað um og leikið sér með mismunandi þætti tungumálsins. Þessi eiginleiki felst ekki í því að geta notað tungumálið til daglegra samskipta, heldur að geta velt mismunandi hliðum þess fyrir sér á meðvitaðan hátt. Málvitund má skipta í nokkra undirþætti sem hver og einn er talinn gegna mikilvægu hlutverki í læsisþróun barna. Hljóðkerfsvitund (phonological awareness) er einn þeirra og vísar til næmi fyrir hljóðum tungumálsins og getu til þess að brjóta orð niður í smærri hljóðeiningar (Gillon, 2007). Hljóðkerfisvitund er talin gegna lykilhlutverki í lestrar- og stafsetningarnámi, einkum á fyrstu stigum þess þegar börn eru að ná tökum á samvörun stafs og hljóðs. Niðurstöður fjölda langtímarannsókna hafa einnig sýnt að hljóðkerfisvitund á leikskólaaldri veitir sterka forspá fyrir lestrarörðugleikum (dyslexiu) (Snowling, 2000; Torgesen, 2001) og því er mat á hljóðkerfisvitund oftast ein aðal uppistaðan á prófum sem skima fyrir slíkum vanda.
 

Að efla hljóðkerfisvitund.

 

Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að þjálfun hljóðkerfisvitundar á leikskólaaldri skilar sér í betri árangri í lestrarnámi. Fyrir börn sem eru í áhættuhópi fyrir lestrarörðugleika getur slík vinna skipt sköpum. Hljóðkerfisvitund er oftast æfð með verkefnum þar sem börn eiga að hugsa um eða leika sér með hljóð orða. Verkefnin eru breytileg eftir því hverskonar hljóðeiningum greiningin byggist á og þeim undirliggjandi kröfum sem þau gera. Almennt séð eiga börn auðveldara með að sundurgreina orð í stórar hljóðeiningar eins og atkvæði, upphafsstuðla og rím, en í staka hljóðunga. Einnig eru verkefni sem byggja á hlustun eða vinnu með hrynjanda orða mun auðveldari fyrir börn á leikskólaaldri en verkefni sem gera kröfur um nákvæmari úrvinnslu og meðhöndlun hljóða, eins og til dæmis að fjarlægja eitthvað tiltekið hljóð eða víxla hljóðum í orðum. Því er mjög mikilvægt að miða val verkefna og áherslur í þjálfun við færni og þroska hvers barns.

Hér má sjá töflu þar sem verkefni hafa verið flokkuð eftir þyngd.

Þau megin atriði sem rannsóknir benda til að mikilvægt sé að hafa í huga þegar unnið er með hljóðkerfisvitund á leikskólaaldri felast m.a. í að:

- Miða val verkefna og áherslur í þjálfun við færni og þroska hvers barns

- Vinna í litlum hópum sem hittast oft og í stuttan tíma í senn (15 mín)

- Byggja leiðsögnina á leik

- Vinna markvisst þar sem skilgreint er fyrirfram hvaða færniþáttum vinnan á að beinast að.- Byrja á stuttum algengum orðum sem hafa einfalda hljóðuppbyggingu (innihalda t.d. ekki samhljóðaklasa) og hljómmikla hljóðunga í upphafs- og    

- Muna að lokatakmarkið með þjálfun hljóðkerfisvitundar er að efla færni í lestri en ekki hljóðkerfisvitund í sjálfu sér.

 

© Freyja Birgisdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer