You are here

Forsendur lestrarnáms

Í eina tíð var gjarnan talað um að þróun læsis hæfist um leið og börn byrjuðu í formlegu lestrarnámi og lyki þegar þau gátu lesið texta nokkuð fyrirhafnarlaust. Það viðhorf hefur hins vegar mikið breyst og flestir líta nú á læsisþróun sem langtímaferli sem hefst talsvert löngu áður en börn byrja grunnskólanám og varir jafnvel langt fram á fullorðinsár.

Lestur byggist í grófum dráttum á tvennskonar færni. Umskráning er í brennidepli á fyrstu stigum lestrarþróunarinnar og vísar til hæfni barna til þess að umbreyta stöfum í hljóð og tengja þau saman í orð. Miklu máli skiptir að börn nái góðum tökum á þessum hluta lestrarnámsins þar sem nákvæmur, liðlegur og fyrirhafnarlaus lestur er ein meginforsenda þess að hægt sé að beina athyglinni að innihaldi og merkingu textans (Hoover og Gough, 1990). En þótt færni í umskráningu sé mikilvægur áfangi í lestrarnámi barna tryggir hún ekki ein og sér að börn skilji það sem lesið er. Lesskilningur er lokatakmark lesturs og felur í sér hæfni til þess að skilja margs konar texta sem settur er fram í mismunandi samhengi og tilgangi. Börn þurfa því að ná tökum á báðum þáttum til að teljast læs og mikilvægt er að þessi tvö ferli vinni saman. Nákvæmur, liðlegur og fyrirhafnarlaus lestur leiðir til betri lesskilnings og góður skilningur á merkingu textans hjálpar við umskráningu ókunnra orða (sjá einnig einfalda lestrarlíkanið).

Þessir tveir grunnþættir lestrar eiga báðir upptök sín í þekkingu og færni sem byrjar að þroskast á leikskólaárunum. Umskráning nær yfir tiltölulega afmarkaðan tíma og byggist að miklu leyti á þekkingu á heitum og hljóðum bókstafanna og næmi barna fyrir hljóðkerfi tungumálsins. Lesskilningur er aftur á móti í þróun langt fram eftir aldri og liggja rætur hans að stórum hluta í málþroska, og þá einkum þeim þáttum sem lúta að málskilningi og orðræðufærni (Cain og Oakhill, 2006; Perfetti, Landi og Oakhill, 2005). Börn á leikskólaaldri sem eru næm fyrir og geta leikið sér með hljóð tungumálsins og eru fljót að læra stafina ná því mun fyrr tökum á umskráningu en þau sem eiga erfitt með að greina hljóð orða og eru lengi óörugg á heitum og hljóðum stafanna. Börn sem aftur á móti hafa góðan orðaforða, skilja vel framvindu í sögum, geta dregið viðeigandi ályktanir og segja skýrt og skilmerkilega frá eru líkleg til þess að ganga vel í lesskilningi. Oft er um sama hópinn að ræða, en ekki alltaf! Mikilvægur liður í því að efla færni barna bæði í umskráningu og lesskilningi felst í því að styðja við þroska þeirra á ofangreindum sviðum.

 

© Freyja Birgisdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer