You are here

Læsishvetjandi umhverfi

Það liggur í orðinu að lestrarhvetjandi umhverfi sé hvati fyrir börn til þátttöku eða umhugsunar  um mál eða læsistengd viðfangsefni. Gunn, Simmons og Kameenui (1995) sýndu fram á í rannsókn hve læsisríkt umhverfi er mikilvægur þáttur í læsisvitund og tileinkun barna á læsi. Aðgengi að ritmáli hjálpar börnum til við þróun fjölmargra læsisþátta, m.a. eflir það vitund um prentmál, hljóðkerfisvitund, bókstafi, hlustunarskilning og orðalestur. Schuele, Roberts, Fitzgerald og Moore (1993) skilgreindu hvað felst í slíku umhverfi og er hér tæpt á nokkrum atriðum:

Bækur: Aðgengi að bókum skipar mikilvægan sess í læsishvetjandi umhverfi. Fjölmargir fræðimenn leggja áherslu á mikilvægi bóka við mál og læsisnám. Gunn og félagar segja lestur sögubóka lykilþátt í örvun bernskulæsis. Börn sem lesið er fyrir læra um hlutverk ritaðs máls í bókum, að ritmál er ólíkt töluðu máli og að það er letrið en ekki myndir sem bera söguþráð. Í gegnum lesturinn læra börn um uppbyggingu sögu og um sjónræna uppbyggingu prentaðs máls; m.a. að textinn byrjar efst á síðu og endar neðst og hann  lesinn frá vinstri til hægri. Sumir fræðimenn, m.a. Morrow  (2012) halda því fram að sögulestur sé nauðsynlegur þáttur fyrir síðara lestrarnám. Schuele og félagar leggja áherslu á að annað  prentað efni s.s. tímarit, bæklingar, pöntunarlistar, matseðla, möppur, veggspjöld og minnismiðar sé börnum tiltækt. Af slíku læra börn að ritað mál er fjölbreytilegt og notað til upplýsinga í venjulegum daglegum athöfnum. Æskilegt er að leikskólar séu búnir sérstöku rými innan deildarinnar ætlað til lesturs, ritunar og teiknunar; þ.e. bókahorn með þægilegri aðstöðu, hvetjandi til málörvunar, lestrar og ritunar.

Leikföng: Hvetja skal til þátttöku í leikjum og spilum sem örva lestur og ritun. Efniviður eru t.d. bókstafir af ýmsum gerðum (kubbar, segull, tré, plast), leikir með bókstafi (lottó, bingó, jöfnuspil), púsluspil með orðmyndum,  rímleikir, tölvur og forrit.

Listsköpun: Auk þessa er mikilvægt að fjölbreytileg gögn til ritunar og listsköpunar séu aðgengileg börnum s.s. ritföng, töflur, pappír, eyðublöð, umslög og minnisbækur. Í samstarfi og leik læra börn að talmál er hægt að forma í ritmál og að ritmál hefur í sér fólgnar upplýsingar. Mikilvægt er að huga að sýningarsvæði fyrir verk barnanna; myndverk, veggspjöld og skreytingar með rituðu máli. Þannig sýna skólarnir viðfangsefnum barnanna virðingu en auk þess vekja listaverkin forvitni barna og beina athygli að ritmáli.

Dagskipulag: Schuele og félagar leggja áherslu á skriflegar upplýsingar í tengslum við dagsskipulag á leikskólum s.s. dagatal, nafnalista, skráningar af ýmsum toga, auglýsingar eða veðurkort Jafnframt er æskilegt að starfsfólk bendi börnunum á ritað mál í tengslum við leiðbeiningar ýmissa verkefna t.d. reglur um spil eða uppskriftir. Merkimiðar á hillum, snögum og skúffum er vel þekkt fyrirbæri í leikskólum.

Börn læra í gegnum leik. Það er foreldra og leikskólakennara að skapa aðstæður og örvandi málumhverfi. Þar skiptir máli tími og rými, efniviður og þátttaka. Bernskulæsi og örvun þess byggir á því að nám barna fari fram á eins náttúrulegan hátt og kostur er, litið er á lestrarnámið á svipaðan hátt og þróun talmáls. Lögð er áhersla á að börnin hafi góðar fyrirmyndir, eigi í hvetjandi samskiptum, fái tækifæri til lestrar og umræðu og stuðning til þess að öðlast frekari færni.

 

© Halldóra Haraldsdóttir

 

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer