You are here

Ritmálsþekking

Þekking á ritmálinu

Mikilvægt er að börn kynnist ritmálinu strax á leikskólaaldri og læri grunnhugtök þess og reglur, en slík þekking þróast fyrst og fremst í gegnum reynslu þeirra af bókum og öðru rituðu máli (sjá nánar hér).

Flest börn læra sína fyrstu bókstafi áður en formlegt lestrarnám hefst. Til að byrja með takmarkast kunnátta þeirra gjarnan við stafi í þeirra eigin nafni eða annarra sem þau þekkja, en smátt og smátt bætast fleiri stafir við – einkum þeir sem birtast reglulega í þeirra nánasta umhverfi. Hversu fljót leikskólabörn eru að ná tökum á þessari þekkingu er eins sterkastasta vísbendingin um hvernig þeim muni vegna í lestrarnámi, sérstaklega á fyrstu stigum þess. Ein ástæða sem oft er nefnd fyrir þessu sterka forspárgildi stafaþekkingar fyrir lestrarnám er sú að þekking á heitum og hljóðum stafanna endurspegli fyrst og fremst áhuga barna á ritmálinu og hversu læsishvetjandi umhverfi þau búa við. Nýlegar rannsóknir benda þó til þess að skýringin sé ekki alveg svo einföld og að aðrir þættir, eins og t.d. næmi barna fyrir hljóðkerfi tungumálsins gegni þar veigamiklu hlutverki. Því getur verið varasamt að ganga út frá því að hægt sé að taka stafakennsluna með áhlaupi í eitt skipti fyrir öll – það er undirliggjandi ástæða fyrir að sumum börnum sækist það nám seint.

Fjöldi rannsókna bendir til þess að vinna með stafi og hljóð á leikskólaaldri auðveldi lestrarnámið þegar í skólann er komið. Það á sérstaklega við um börn sem eru í áhættuhópi vegna lestrarerfiðleika (sjá nánar hér) og búa ekki við nægilega læsis- eða námshvetjandi umhverfi. Menn eru þó ekki á einu máli um það hversu mikil bókstafakennsla eigi að fara fram á leikskólastigi og margir telja að markviss innlögn bókstafa tilheyri frekar kennslu á grunnskólastigi og samræmist jafnvel ekki aðferðum og markmiðum leikskólastarfsins (sjá t.d. Gerður G. Óskarsdóttir, 2012). Mikilvægt er þó að undirstrika að hægt er að vinna með bókstafi á mjög skapandi og skemmtilegan hátt í gegnum leik og annað starf sem fram fer á leikskólanum. Börn á leikskólaaldri hafa einnig oft mikinn áhuga á stöfum; þeim finnst skemmtilegt að vita hver á hvaða staf, vilja læra að skrifa sinn eiginn staf og verða svo kannski fær um að skrifa nafnið sitt og merkja verkin sín. Slíkur áhugi er mikilvægt skref í þróun bernskulæsis og er sjálfsagt að virkja.

Áhrif mismunandi aðferða við að auka stafaþekkingu leikskólabarna hafa mikið verið rannsökuð og fjöldi bóka og vefsíðna fjalla um það efni. Aðferðirnar eru margbreytilegar, en í þeim langflestum má þó finna nokkur sameiginleg grunnstef sem felast m.a. í að:

- Hafa bókstafi sýnilega í nánasta umhverfi barnanna

- Vinna með stafi og hljóð á fjölbreyttan og merkingarbæran hátt á forsendum barnanna, t.d. í gegnum leik og í samhengi við annað starf sem fram fer á leikskólanum (eins og þemaverkefni).

- Benda á bókstafi og orð í bókum eða öðrum textum sem verið er að lesa þegar tækifæri gefst

- Tengja hljóð stafa og orða við hluti í umhverfinu

-  Nýta fjölbreyttan efnivið til að búa til stafi og orð

- Vinna markvisst í litlum hópum í stuttan tíma í senn

 

© Freyja Birgisdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer