You are here

Tvítyngi og læsi

Tvítyngi

Þegar börn læra fleiri en eitt tungumál verða þau tvítyngd. Sum börn eiga eitt móðurmál sem þau læra hjá foreldrum í heimaranni og bæta síðan öðru tungumáli við, tungumáli samfélagsins. Önnur tileinka sér tvö tungumál samhliða og eiga því tvö móðurmál, oftast vegna þess að foreldrar eru af sitt hvoru þjóðerni. Svo eru börn sem eiga tvö móðurmál og tungumál samfélagsins sem þriðja mál. En oft eru skil á milli tungumála í lífi barna ekki svo skýr. Að hafa vald á fleiri en einu tungumáli strax á fyrstu árum ævinnar er dýrmætur viskubrunnur. Rannsóknir benda til þess að við bestu aðstæður geti tvítyngi stuðlað að ríkari málþroska, fjölbreyttari greind, aukinni víðsýni og sköpunargáfu, svo fátt eitt sé talið (Peal & Lambert, 1962). Því meiri tungumálakunnátta þeim mun sterkari stoð. Hlutverk foreldra og skóla er því að hlúa að tvítyngi barna og gefa þeim kost á að viðhalda og þróa bæði/öll tungumál sín.

Hér ber að hafa í huga að tungumál eflast með notkun. Því meiri málörvun sem börn fá í móðurmáli þeim mun meiri færni ná þau í móðurmálinu. Að sama skapi eflist færni í öðrum tungumálum í samræmi við það hversu innihaldsrík notkun tungumálanna er. Hjá ungum börnum ríkir í raun samkeppni á milli tungumála þeirra. Eldri börn sem hafa náð góðri færni í móðurmáli eða/og öðrum tungumálum eiga auðveldara með að tileinka sér ný tungumál (Sigríður Ólafsdóttir o.fl., 2016; Uccelli o.fl., 2019).

Tungumál í lífi barna eiga samt sem áður í stöðugri samkeppni. Það tungumál sem er ríkjandi í umhverfi þeirra nær oftast yfirhöndinni, en önnur tungumál geta þó seinna náð forskoti ef aðstæður verða því hliðhollari. Börn gleyma einnig tungumálum fljótt. Þau nota aðeins það tungumál sem þau hafa þörf fyrir til þess að eiga samskipti við annað fólk eða nálgast hugðarefni sín - ef slík þörf er ekki til staðar er tungumálið ekki notað og það gleymist (Grosjean, 2010). Því er mikilvægt að skapa þessar þarfir með því að gefa börnum næg tækifæri til þess að nota tungumálin sín og sjá til þess að þau hafi greiðan aðgang að bókum og öðru afþreyingarefni á tungumálunum.

Við eðlilegar aðstæður - með góðum náms- og kennsluaðferðum og virkri þátttöku í skólastarfi - er samt sem áður eðlilegt að tvítyngd börn þrói færni í tungumáli skólasamfélagsins betur en í öðrum tungumálum. Ástæða þess er einfaldlega sú að tungumál sem tilheyrir náminu er fjölbreyttara og innihaldsríkara en tungumálið sem notað er í samskiptum við fjölskyldu og vini, við yndislestur eða aðra afþreyingu. Mikilvægt er að hafa í huga að færni í tungumáli skólasamfélagsins er lykill að velgengni í námi og starfi.

Fjölmargir fullyrða, bæði leikir og lærðir, að börn búi yfir náttúrulegum hæfileika til máltileinkunar og því þurfi lítið að grípa inn í máltökuferlið. Í raun ná tvítyngd börn oft mjög góðum tökum á framburði og daglegu tali á undraskömmum tíma, sem getur villt sýn og orðið til þess að kunnátta tvítyngdra barna sé ofmetin (Samson & Lesaux, 2009). Kennurum og öðrum sem koma að menntun þessara barna hættir því til að líta fram hjá þörf þeirra fyrir stuðningi. Hættan er í raun sú að tvítyngd börn auki orðaforða sinn og þekkingu í hvoru tungumáli fyrir sig hægar en börn sem aðeins nota eitt tungumál þar sem þau skipta athygli sinni og tíma á milli tungumálanna. Allt of oft nær þessi barnahópur ekki nægilegri kunnáttu í neinu tungumáli (Elín Thordardottir, 2021; Lervag & Aukrust, 2010; Mancilla-Martinez et al., 2011). Stór hluti barna af erlendum uppruna á því erfitt uppdráttar í námi og nær ekki fótfestu í skólakerfinu vegna þess að þau hafa ekki nægilega kunnáttu í skólamálinu (Elín Þöll Þórðardóttir og Anna Guðrún Júlíusdóttir, 2011; August & Shanahan, 2006; Sigríður Ólafsdóttir o.fl., 2016). Hlutverk skólanna er að koma til móts við þarfir tvítyngdra barna. Markvissar og skilvirkar náms- og kennsluaðferðir gegna þar lykilhlutverki og sérstaklega í tungumálinu sem börnin nota í náminu.

Tvítyngi og læsi

Í öllu námi liggur góður lesskilningur til grundvallar. Lesskilningur er lokatakmark lesturs og felur í sér hæfni til þess að skilja margs konar texta sem settur er fram í mismunandi samhengi og tilgangi. Rætur hans liggja að stórum hluta í málþroska, þeirri málörvun sem börn hafa fengið á heimili og í skóla. Reynsla, almenn þekking, ályktunarhæfni, þekking á eigin hugsun og færni í að setja sig í spor annarra eru þó þættir sem allir hafa verulega áhrif á hversu vel nemendur skilja mismunandi tegundir texta (Cain og Oakhill, 2006).

Á fyrstu stigum lestrarnámsins mótast þó lesskilningur mikið af umskráningarfærni barna. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þegar barn þarf að stauta sig í gegnum texta er mikið álag á vinnsluminni og því lítið svigrúm til þess að einbeita sér að innihaldi hans. Athyglin fer þess vegna að miklu leyti í að reyna að bera fram orðin rétt. Af þeim sökum er mjög mikilvægt að börn nái góðum tökum á umskráningu því þannig leggja þau einnig grunn að góðum lesskilningi. Tvítyngd börn virðast almennt ná góðum tökum á umskráningu og standa þeim eintyngdu jafnan ekki að baki á því sviði (Verhoeven, 2000).

Öðru máli virðist þó gegna um lesskilning. Þar sem tvítyngd börn þurfta að deila tíma sínum og athygli á milli tveggja eða fleiri tungumála er hættan sú að þau kunni mun færri orð í hverju tungumáli fyrir sig en eintyngd börn kunna í sínu eina tungumáli. Takmarkaður orðaforði veldur því að erfitt verður fyrir tvítyngd börn að skilja það námsefni sem fyrir þau er lagt. Samkvæmt rannsóknum þurfa nemendur að þekkja 98% orða í textum námsbóka til þess að geta skilið og tileinkað sér innihald þeirra án aðstoðar (Erla Lind Þórisdóttir, 2017). Fari þetta hlutfall niður í 95% þurfa flestir nemendur einhvers konar aðstoð, eins og til dæmis orðabækur eða hjálp frá kennara eða samnemendum (Laufer & Ravenhorst-Kalovski, 2010). Börn með takmarkaðan orðskilning eiga einnig erfitt með að nýta sér samhengi texta til þess að ráða í merkingu óþekktra orða og skilja og nota síður skilgreiningar í orðabókum (Shefelbine, 1990). Ný orð bætast því mun hægar í safnið hjá þeim en börnum sem eru með góðan málskilning fyrir. Lesskilningur tvítyngdra barna þróast því oft mun hægar en lesskilningur eintyngdra jafnaldra þeirra, eða að bilið helst stöðugt á milli þessara nemendahópa (Mancilla-Martinez, et al., 2011; Roessingh, 2008; Sigríður Ólafsdóttir o.fl., 2016). Markvissar náms- og kennsluaðferðir geta hins vegar aukið orðaforða tvítyngdra nemenda sem síðan hefur jákvæð áhrif á lesskilning og námsgengi almennt. Þær felast meðal annars í því að:

  1. Gefa tvítyngdum nemendum tækifæri til að glíma við texta sem inniheldur hæfilegt magn orða sem eru þeim framandi.
  2. Sá texti sem tvítyngdir nemendur takast á við þarf að innihalda þau orð sem mikilvægust eru hvert sinn.
  3. Tvítyngdir nemendur þurfa að lesa margvíslegan texta þar sem viðkomandi orð koma fyrir; best er að þeir rekist á orðin margsinnis og þá bæði í ræðu og riti. Þeir verða jafnframt að vinna með orðin í fjölbreytilegum verkefnum til að þau festist í minni
  4. Brýnt er að nemendur þjálfi námstækni til að geta sér til um merkingu óþekktra orða.
  5. Bestur árangur næst þó með virkri þátttöku í skólastarfi, með umræðum og ritunarverkefnum þar sem viðfangsefni námsins eru krufin til mergjar og tækifæri bjóðast til að nota ný orð

© Sigríður Ólafsdóttir og Freyja Birgisdóttir, júní 2021

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer