You are here

Barnabókmenntir

Gildi barna- og unglingabóka fyrir mál og læsi

Barnabækur hafa margvíslegt gildi í uppeldi og menntun barna. Þær hafa fyrst og fremst skemmtigildi, en einnig menningarlegt, listrænt, menntunar- og uppeldislegt gildi. Þessi gildi barnabókarinnar fléttast saman og styrkja hvert annað. Umfram allt er barnabókin þó sjálfstæður heimur sem lýtur eigin lögmálum. 
Barnabækur gegna mjög mikilvægu hlutverki fyrir málrækt og þróun læsis. Ritmál er miklu ítarlegra, formlegra og fjölbreyttara en það mál sem við tölum dags daglega hvert við annað, ekki síst það mál sem talað er við börn. 
Foreldrar barna sem verða snemma læs hafa jafnan lesið mikið fyrir þau og gefið sér tíma til að ræða við börnin og svara spurningum þeirra um efni bókanna. Þeir hafa enn fremur sinnt áhuga barna sinna á ritmálinu. 

Orðaforði, málskilningur og lesskilningur

Orðaforði er grundvallarþáttur í málskilningi, og lesskilningur byggist á góðum málskilningi. Grundvöllur málskilnings er lagður hjá börnum á meðan þau eru enn mjög ung. Málskilningur byggist ekki síst á orðaforða, og áhrifaríkasta leiðin til að efla orðaforðann er að lesa fyrir börnin og ræða við þau um efnið eftir því sem við á. 
Eftir því sem börnin eldast geta þau notið fjölbreyttara lesefnis sem bætir þá enn frekar við orðaforðann. Ef vel tekst til hafa börn og ungmenni bæði gagn og gaman af yndislestri. 
Í ritmáli er notaður fjölbreyttari orðaforði en talmál í dagsins önn gefur tilefni til og orðin koma fyrir í samhengi sem auðveldar skilning á þeim. Orðaforði barna- og unglingabóka er einnig ítarlegri en sá orðaforði sem kemur fyrir í sjónvarpsefni fyrir börn og ungmenni. 
Börn sem lesið er fyrir og börn sem lesa mikið tileinka sér meiri orðaforða en börn sem lesa lítið. Mikill lestur stuðlar að betri málskilningi og ekki síst meiri lesskilningi, sem er grundvallartriði fyrir læsi.

Setningar, málsgreinar og málsnið

Tilfinningin fyrir uppbyggingu setninga, málsgreina og hljómfalli málsins þroskast þegar lesið er. Það er nauðsynlegt að hafa góða tilfinningu fyrir því hvað er setning og hvernig orðum er raðað í setningar og setningum í málsgreinar, ekki síst þegar fengist er við ritun. Lestur eykur einnig tilfinningu barna fyrir fjölbreytni í máli og ólíkum blæbrigðum sem þau kynnast síður í daglegu tali. Frásagnarhæfni og sögubyggingÞegar börn hlusta á sögur kynnast þau viðeigandi orðaforða og málnotkun og fá mikilvægar málfyrirmyndir til að byggja sínar eigin frásagnir á. Börn fá mikilvægar fyrirmyndir að byggingu frásagna (kynningu aðstæðna, atburðarás og sögulokum) þegar fullorðnir lesa fyrir þau, segja þeim sögur og ævintýri eða segja frá hversdagslegum atburðum. Slíkar fyrirmyndir að sögubyggingu, ásamt viðeigandi málnotkun, skipta einnig miklu máli fyrir lestrarnám barna, ekki síst lesskilning og ritfærni. 

Hlustun

Hlustun og einbeiting eru mikilvægir þættir í lestrarnámi og raunar í öllu námi og undirstaða góðrar hljóðavitundar, það er næmi fyrir flóknu samspili bókstafs og málhljóðs. Lestur fyrir börn er góð leið til að efla hlustun og þjálfa einbeitingu, því enginn nýtur lesturs nema sá sem hlustar og einbeitir sér að því sem lesið er.

Lestur og ritun

Ritmálsþróunin samanstendur bæði af ritun og lestri. Þetta eru náskyldir þættir þótt um ólík ferli sé að ræða. Oftast er það þannig að framför í öðrum þættinum leiðir til framfara í hinum. Lestur barnabóka fyrir börn eflir skilning þeirra á eðli og tilgangi ritmáls, það er að ritmál hafi merkingu.  
Mikilvægt er að lesa mikið fyrir börn þangað til þau eru búin að ná góðum tökum á lestri og ritun. Sá texti sem börn fást við í lestrarnámi sínu er jafnan mjög einfaldur, bæði að efni og formi. Þess vegna á ekki að hætta að lesa fyrir börn þótt þau séu að verða læs. Þá þarf einmitt að lesa mikið fyrir þau af skemmtilegum bókum um efni sem hæfir aldri þeirra og þroska.

Lestrarþjálfun

Það er margra ára ferli að verða læs og það krefst mikillar þjálfunar. Sú þjálfun þarf að fara fram bæði á heimilum og í skólum. Lestri barna þarf að sinna vel langt fram eftir öllum aldri með fjölbreyttu lestrarefni sem hæfir þroska og áhugamálum barna og unglinga.  
Það eru til skemmtilegar barna- og unglingabækur, íslenskar og þýddar, sem  þjóna vel tilgangi lestrarþjálfunar og ekki síður til yndislestrar. Foreldrar og kennarar bera ábyrgð á að halda slíku efni að börnum á öllum aldri.


© Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer