You are here

Algengar spurningar

Undir þessum lið er að finna skýringar og svör við algengum spurningum um lestrarerfiðleika. Hægt er að hlusta á textann með því að smella á spilarann neðst á síðunni.


Hvað eru lestrarerfiðleikar?

Hvað eru sértækir lesskilningserfiðleikar?

Hvað er lesblinda (dyslexía)?

Hvað veldur lesblindu?

Hversu algeng er lesblinda?

Hvernig get ég aðstoðað barnið mitt best?

Er hægt að ,,lækna” dyslexíu?

Eru fleiri drengir en stúlkur með lestrarerfiðleika?

Hver eru helstu einkenni lesblindu (dyslexíu)?

Hver eru áhrif lesblindu (dyslexíu)?

Hvernig er dyslexía greind?

Hvert leita ég ef grunur leikur á að barnið mitt sé með lestrarerfiðleika?

Hvað eru lestrarerfiðleikar?

Lestrarerfiðleikar er yfirhugtak sem vísar til vandamála í lestri, hverjar sem orsakirnar eru. Lestur byggist aðallega á tveimur meginþáttum, umskráningu (að breyta stöfum í hljóð og tengja saman í orð) og lesskilningi. Vandamál nemenda við lestur geta ýmist greinst í ferlinu við að umskrá stafi í hljóð, í lesskilningi eða í báðum þáttum.

 • Dyslexía, oftast nefnd lesblinda (stundum leshömlun) á íslensku, er  lestrarerfiðleikar sem birtast í vandkvæðum með að skynja hljóðræna uppbyggingu tungumálsins og koma fram í lestri og stafsetningu.
 • Sértækir lesskilningserfiðleikar, þá má rekja til málrænna þátta, einkum orðaforða og málskilnings, en talið er að 10 – 15 % nemenda í 7-11 ára bekkjum glími við lesskilningserfiðleika (Nation, 2006).

Lesblinda (dyslexía) og sértækir lesskilningserfiðleikar teljast til innri veikleika, þ.e. eiga sér rætur innan taugakerfisins, en ytri veikleika má rekja til umhverfisins, þ.e. málumhverfis, þjóðfélagsaðstæðna og kennslu (Catts & Kamhi, 2005).

Talið er að allt að 85 % þeirra sem glíma við námserfiðleika eigi í erfiðleikum með lestur (Vaughn, Bos & Schumm, 2007; Snow, Burns & Griffin, 1998).

Hvað eru sértækir lesskilningserfiðleikar ?

Það er vandi sem tengist einkum erfiðleikum við að vinna úr og draga ályktanir út frá efni textans (Cain & Oakhill, 1999; Cain o.fl. 2001; Oakhill, 1982, 1984). Þessi vandi kemur bæði fram í hlustunarskilningi (að skilja texta sem lesinn er fyrir nemendur) og  í lesskilningi. Börnum með sértæka lesskilningserfiðleika gengur yfirleitt verr
- að ná heildarsamhengi lestexta,
- að tengja upplýsingar fyrri reynslu,
- að ráða í merkingu sérhæfðra orða með fljótvirkum hætti,
- að skilja hlutverk tengiorða/smáorða við uppbyggingu setninga og málsgreina,
- að fylgjast með og hafa meðvitaða stjórn á lesskilningsferlinu á meðan lesið er (Nation & Snowling, 1998; Stothard & Hulme, 1992; Nation, 2006).

Góður lesskilningur byggist á því að börn hafi ríkulegan orðaforða og víðtæka þekkingu og reynslu af að vinna með ritmál.

Hvað er lesblinda (dyslexía) ?

 • Dyslexía er erfiðleikar við að ná tökum á lestri, stafsetningu og ritun. Tungumálanám  getur reynst fyrirhafnarsamt, einkum ritunarþátturinn.
 • Dyslexía er flokkuð meðal námserfiðleika þar sem hún getur valdið nemendum erfiðleikum við að ná góðum námsárangri í bóklegum greinum við hefðbundnar námsaðstæður.
 • Þegar um mikla/alvarlega dyslexíu er að ræða þurfa nemendur sérhæfða aðstoð svo sem sérkennslu, aðlagað námsefni og/eða aðra stuðningsþjónustu.

Hvað veldur lesblindu (dyslexíu) ?

Innri orsakir

 • Orsakir dyslexíu eru ekki fyllilega þekktar, en talið er að þær megi rekja til taugafræðilegra frávika sem komi fram í hljóðkerfi tungumálsins.
 • Rannsóknir á heilastarfsemi sýna mismun á virkni í málstöð heilans við lestur hjá fólki með og án dyslexíu. Taugafræðileg frávik í heilastarfsemi koma einkum fram í hljóðkerfi tungumála.
 • Rannsóknir sýna að hljóðkerfisveikleiki erfist milli kynslóða, frá föður til sonar í  50% tilvika,  en frá móður til dóttur í 40 % tilvika (Snowling 2006).

Ytri orsakir

Ytri orsakir má rekja til umhverfisins, þ.e. málumhverfis, þjóðfélagsaðstæðna og  ófullnægjandi kennslu (Catts & Kamhi 2005).

Mikilvægt er að hafa í huga að

 • Dyslexía birtist óháð greind (Siegel 1992; Stanovich 1994), kynþætti og þjóðfélagsstöðu (Vellutino o.fl. 2005; Snowling 2006).
 • Börn með dyslexíu geta lært fái þau góða kennslu, hvatningu, stuðning og sjái árangur af vinnu sinni.

Hversu algeng er lesblinda (dyslexía) ?

 • Tíðni dyslexíu (lesblindu) fer eftir þeim viðmiðunum sem sett eru við tíðnirannsóknir hverju sinni.
 • Á vef Alþjóðlegu dyslexíusamtakanna (International Dyslexia Association) er talið að tíðni lestrarerfiðleika sé á bilinu 15 - 20% og þar af séu 85% þeirra vegna dyslexíu.
 • Á Norðurlöndunum er yfirleitt talað um að tíðni lestrarerfiðleika sé í kringum  10 %  (Höien & Lundberg, 2000)  og ekki ólíklegt að svipuð hlutföll gildi um Ísland.

Eru fleiri drengir en stúlkur með lestrarerfiðleika ?

 • Eldri rannsóknir gefa til kynna að fleiri drengir séu með lestrarerfiðleika en stúlkur. Langtímarannsóknir benda hins vegar til að jafnmargar stúlkur og drengir greinist með lestrarerfiðleika.
 • Rannsakendur hafa bent á að drengir séu yfirleitt fyrirferðarmeiri, hafi minna úthald og trufli kennslustundir oftar en stúlkur. Þess vegna er talið að fleiri drengir en stúlkur séu sendir í lestrargreiningu.

Hver eru helstu einkenni lesblindu (dyslexíu) ?

Einkenni í tungumálinu

 • Veikleikar sem koma fram í hljóðkerfi tungumálsins (hljóðkerfisvitund).
 • Helstu einkenni lesblindu (dyslexíu) eru erfiðleikar við að sundurgreina hljóð bókstafa í orðum.
 • Fólk með dyslexíu getur átt í erfiðleikum með að tjá sig jafnvel þótt það hafi búið við gott málumhverfi og öðlast góðan orðaforða, þ.e. að málskilningur er oft betri en máltjáning.
 • Veikleikar í málþáttum (sbr. börn með sértæka málþroskaröskun) geta komið niður á orðaforða og hugtakaskilningi og valdið erfiðleikum við að skilja flóknar útskýringar og að tjá sig við aðra.
 • Oft geta verið erfiðleikar við að skipuleggja frásögn (bæði í ræðu og riti)
  og nota sérhæfð hugtök.
 • Hæg endurheimt á hljóðrænum upplýsingum (hljóð, hljóðeiningar og orð) úr minni (hægur nefnuhraði).
 • Börn með sértæka málþroskaröskun eiga á hættu að lenda í  lestrarerfiðleikum bæði lesskilningserfiðleikum og umskráningarerfiðleikum  (dyslexíu).

Einkenni í lestri

 • Að vera lengi að læra bókstafi, hljóð þeirra og hljóðtengingu.
 • Ónákvæmur/hikandi lestur (erfiðleikar í umskráningu).
 • Hægur leshraði (lesfimi).
 • Að vera lengi að byggja upp sjónrænan orðaforða (þ.e. að þekkja orð sjónrænt).

Erfiðleikar við umskráningu koma sterkt fram í stafsetningu og eru erfiðari viðureignar og lengur að hverfa en lestrarvandinn. Sumir kalla þetta skrifblindu en í raun eiga vandamál í lestri og stafsetningu rætur að rekja til sömu grunnveikleika í hljóðkerfi tungumálsins. Með aldri, aukinni kennslu og þjálfun breytast einkennin og oft verður erfiðara að greina þau. Ef nemendur ná ekki nægilega góðum tökum á umskráningu (að lesa úr bókstöfunum) og þurfa að hafa mikið fyrir lestrinum getur það einnig haft í för með sér erfiðleika með lesskilning.

Einkenni í stafsetningu

 • Erfiðleikar með að sundurgreina hljóð orða.
 • Brottfall stafa (skrjóður verður t.d. skjóður eða skróður).
 • Stafavíxl (gagna í stað ganga).
 • Skrifa eftir framburði (t.d. jeg í stað ég; sgoða í stað skoða).
 • Erfiðleikar með að greina mun á stuttu og löngu sérhljóði (þ. e. að vita hvenær  á að skrifa einfaldan/tvöfaldan samhljóða, t.d. baka eða bakka).
 • Erfiðleikar með að greina mun á hörðum og linum samhljóðum (t.d. g/k, b/p,  d/t sbr. gada og gata).
 • Erfiðleikar með að gera greinarmun á hljómlíkum stöfum (grannir og breiðir  sérhljóðar t.d. u/ú, o/ó, i/í eða b/d, f/v, n/m o. fl.).

Einkenni í tungumálanámi

 • Að vera lengur en jafnaldrar að tileinka sér hljóðkerfi nýrra tungumála.
 • Erfiðleikar með framburð, t.d. að lesa/segja hljóðfræðilega flókin orð.
 • Hægur, fyrirhafnarsamur lestur eða hraður og ónákvæmur lestur.
 • Að vera lengi að byggja upp sjónrænan orðaforða (þ.e. að þekkja orð sjónrænt).
 • Erfiðleikar við stafsetningu og ritun.

Eru umsnúningar á stöfum og að skrifa aftur á bak eitt af einkennum dyslexíu ?

 • Nei, þessi einkenni koma oft fram hjá ungum börnum sem eru að byrja að feta sig áfram í lestrarnáminu, en þau virðast jafn algeng hjá nemendum með og án dyslexíu  (Rayner o.fl., 2001).
 • Börn með dyslexíu eru yfirleitt lengur að ná tökum á lestrarfærninni og þess vegna geta þessi einkenni verið lengur að hverfa hjá þeim (Catts & Kamhi, 2005).

Hver eru áhrif lesblindu (dyslexíu) ?

Námið

 • Það er mjög misjafnt eftir einstaklingum og fer eftir því hversu alvarlegir lestrarerfiðleikarnir eru og hversu árangursríka kennslu viðkomandi einstaklingur fær, einkum í upphafi lestrarnámsins.
 • Mestu erfiðleikarnir koma fram í lestækni (umskráningu) og við að ná góðum leshraða sem er undirstaða lesfimi. Lesfimi felst í því að lesa hratt með réttum áherslum og að skilja það sem lesið er.
 • Áhrif dyslexíu vara alla ævi, en með góðri þjálfun og kennslu ná flestir tökum á lestri. Oftast er erfiðara að ná tökum á stafsetningu.
 • Þegar námskröfur aukast og nemendur þurfa að komast yfir stöðugt flóknara og meira lesefni og skrifa ritgerðir upplifa flestir erfiðleika og fyrirhöfn.

Sjálfsmyndin

 • Námserfiðleikar geta haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd nemenda sem glíma við þá.
 • Grunnur að sjálfstrausti fullorðinsáranna er lagður í barnæsku og því er mikilvægt að gera umhverfi barnsins þannig úr garði að það upplifi jákvæða afstöðu til sjálfs síns.
 • Nemendur með lestrarerfiðleika enda oft með því að upplifa sig ,,heimskari” og getuminni en þeir raunverulega eru.
 • Neikvæð upplifun af bóklegu námi getur leitt til þess að nemendur treysta sér ekki í framhaldsnám.
 • Seigla er góður eiginleiki hjá börnum með lestrarerfiðleika, en hún felst m.a. í því að
  -  geta talað við sjálfan sig á styðjandi og jákvæðan hátt
  -  eiga jákvæð samskipti við aðra
  -  líða vel með sjálfan sig og hafa trú á hæfileikum sínum
  -  takast á við  erfiðleika á árangursríkan hátt (Grotberg, 1997; Cooper, 2000).
 • Eitt einkenni seiglu er jákvætt sjálfstal sem er í raun hugsanir einstaklingsins um sjálfan sig og nánasta umhverfi.  Sjálfstal barna getur verið bergmál af hvatningu foreldra, kennara og annarra og því er mikilvægt að kenna börnum jákvæðar og uppbyggilegar hugsanir.
 • Sjálfstal barna getur einnig verið bergmál af neikvæðum upplifunum og vanmætti. Verði foreldrar varir við neikvætt sjálfstal er mikilvægt að reyna að rjúfa þann vítahring hugsana með jákvæðum upplifunum. Best er þó ef hægt er að koma í veg fyrir niðurbrot og neikvæðar hugsanir (Brooks 1994; Nash, 2002 ; Nash, 2006).

Hvernig er dyslexía greind ?

Fyrirbyggjandi vinnubrögð

 • Í íslenskum skólum er í vaxandi mæli unnið með fyrirbyggjandi hætti í samræmi við lög um grunnskóla.
 • Oftast er byrjað að skima fyrir lestrarerfiðleikum í leikskóla og síðan er staðan metin aftur á fyrstu mánuðum grunnskólans með sérstökum skimunarprófum (sjá undir tenglunum Greining og mat - skimunarpróf) til að finna nemendur sem kunna að vera í áhættu varðandi lestrarerfiðleika.
 • Skimunarpróf eru ekki greiningarpróf og gefa aðeins vísbendingar um hugsanleg vandamál sem síðan er brugðist við með markvissri kennslu eftir því sem hægt er. Markmiðið er að veita viðeigandi kennslu strax til að fyrirbyggja að barnið bíði skipbrot í lestrarnáminu.
 • Þessi nálgun er í samræmi við það sem rannsóknir sýna að gagnist best nemendum með lestrarerfiðleika, en útfærsla skólanna er mismunandi eftir aðstæðum.

Greining

 • Formleg greining á lesblindu fer fram þegar reynt hefur á lestrarnámið og ljóst er hvort um byrjunarerfiðleika er að ræða eða ekki.
 • Þegar unnið er út frá snemmtækri íhlutun er lögð áhersla á eins góða og markvissa kennslu og hægt er að veita hverju einstöku barni. Hvert barn fær þannig möguleika á að þróa færni sína áður en formleg greining fer fram.  Í dag er oftast miðað við að bíða með formlega greiningu þar til í 3. – 4. bekk.
 • Greiningu annast sérfræðingar sem hafa til þess menntun og réttindi. Á Íslandi eru það sérkennarar skóla og sérfræðingar þjónustu- og svæðaskrifstofa sem annast lestrargreiningar (sjá nánar undir Þjónusta-grunnskólar). Einnig er hægt að leita til sjálfstætt starfandi sérfræðinga ( sjá undir Þjónusta – Greining - ráðgjöf).
 • Greinist nemandi með dyslexíu á hann kost á  
  - lengri tíma í prófum
  - aðgangi að hljóðbókum/talgervlum (í sumum skólum)
  - öðrum einstaklingsbundnum sérúrræðum (sérkennslu, tölvunotkun o.fl.)

Hvert leita ég ef grunur leikur á að barnið mitt sé með lestrarerfiðleika ?

Grunnskóli

 • Ef barnið er í grunnskóla er best er að snúa sér til umsjónarkennara barnsins, sem þekkir leiðir innan skólans.
 • Næsta skref er síðan að ræða við sérkennara sem athugar barnið nánar og tekur ákvörðun um greiningu í samráði við skólastjórn og/eða nemendaverndarráð.
 • Einnig er hægt að snúa sér beint til sérkennara og leita ráða.
 • Að lokinni greiningu er haldinn fundur með foreldrum, sérkennara og umsjónarkennara þar sem niðurstöður og tillögur um námsfyrirkomulag og samvinnu eru ræddar. Stundum er barnið með á fundinum, en það þarf að meta hverju sinni og fer mikið eftir aldri barns og vilja foreldra.

Framhaldsskóli

 • Ef nemandi er í framhaldsskóla er best að snúa sér til náms- og starfsráðgjafa eða þeirra aðila sem hafa það hlutverk að sinna nemendum með lestrarerfiðleika innan skólanna. Þeir þekkja bestu leiðirnar og aðstoða nemendur í framhaldi greiningar.
 • Sjá nánar heimasíður framhaldsskólanna og undir Þjónusta – greiningar hér á vefnum, en þar má einnig finna upplýsingar um þjónustu Háskóla Íslands.

Er hægt að ,,lækna” dyslexíu ?

 • Nei, dyslexía eldist ekki af fólki, en þjálfun og vinna með ritmálið (lestur, stafsetningu/ritun og tungumálanám) dregur úr áhrifum hennar. Því meir eftir því sem skólagangan er lengri.
 • Miklar rannsóknir hafa farið fram á því hvaða kennsluaðferðir eru árangursríkar en rannsóknirnar gefa til kynna að því fyrr sem byrjað er að vinna með markvissum hætti því meiri líkur eru á að góður árangur náist (Torgesen, 2001).
 • Sjá nánar um snemmtæka íhlutun og kennsluaðferðir hér á vefnum.

Hvernig get ég aðstoðað barnið mitt best ?

 • Með því að veita því stuðning, uppörvun og hrós, en horfa jafnfram raunsæjum augum á getu þess.
 • Stuðla að daglegum heimalestri við rólegar aðstæður, ekki of langan tíma í einu.
 • Vera vakandi fyrir því að lestrarbækur séu af hæfilegri þyngd.
 • Aðstoða barnið við heimanám og reyna jafnframt að stuðla að skipulögðum og sjálfstæðum vinnubrögðum.
 • Tala við umsjónarkennara ef heimanám tekur óhóflega langan tíma og skapar mikla togstreitu heima fyrir.
 • Vera í góðu sambandi við umsjónarkennara og aðra starfsmenn skólans sem annast barnið.
 • Vera vakandi fyrir breytingum á líðan og getu barnsins og hafa samband við skólann ef ástæða er til.
 • Ýta undir sterkar hliðar barnsins til að stuðla að jákvæðri sjálfsmynd þess.
 • Sjá einnig leiðbeiningar til foreldra hér á vefnum.

© Helga Sigurmundsdóttir og Steinunn Torfadóttir

Hljóðupptaka: 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer