You are here

Nýleg skilgreining á lesfimi

Lesfimi er færni sem byggir á nákvæmni, sjálfvirkni og hrynrænum þáttum tungumálsins, en allir þessir þættir stuðla að auknum lesskilningi. Hún birtist í sjálfvirkum fyrirhafnarlausum lestri sem lesinn er í viðeigandi hendingum (phrasing) og með réttu hljómfalli (intonation). Lesfimi er mikilvæg við upplestur og hljóðlestur og getur bæði takmarkað og stutt við lesskilning (Kuhn, Schwanenflugel, Meisinger, 2010:240).

Eins og kemur fram í skilgreiningunni hér að ofan samanstendur lesfimi af þremur meginþáttum, nákvæmni (accuracy), sjálfvirkni (automaticity) og hrynrænum þáttum tungumálsins[1] (prosody), stundum nefnt hljóðfall/hljóðfallsfræði, þ.e. hljóðfallsreglur  tungumálsins. Gerð verður nánari grein fyrir hverjum þætti hér á eftir.

Lestrarnákvæmni er hlutfall rétt lesinna orða miðað við heildarfjölda lesinna orða. Hún er því góður mælikvarði í umskráningarfærni nemenda (McKenna og Stahl, 2003, 2009).

Sjálfvirkni (automaticity) er færni eða úrvinnsluferli sem framkvæmd eru hratt, án áreynslu, ósjálfrátt og ómeðvitað (Logan, 1997). Sjálfvirkni lestrar er  náð þegar lestrarfærnin er orðin það hröð og fyrirhafnarlaus að hún krefst ekki meðvitaðar athygli (Walpole og Mckenna, 2007). Góðir lesendur lesa um 99% lesefnis með sjálfvirkum hætti og geta því  einbeitt sér svo til eingögnu að lesskilningnum. Þeir búa jafnframt yfir sjálfsöryggi og þekkingu á því hvernig á að bregðast við þegar eitthvað fer úrskeiðis við lesturinn þannig að truflunin verður í lágmarki (Allington, 2009; Vacca o. fl., 2006).

Hrynrænir þættir tungumálsins snúa að hnigi og  risi raddarinnar (hljómfalli), hrynjandi og áherslum, hléum, lengd og brottfalli innan orða eða setninga sem fyrirfinnast í talmáli (byggt á Hirschberg, 2002 sbr. Kuhn, Schwanenflugel, Meisinger, 2010). Við upplestur þarf að taka tillit til hrynrænna þátta  en þeir hjálpa lesendum til að lesa af innlifun með réttu hljómfalli[2] í viðeigandi hendingum[3], þannig að merkingin komist vel til skila (Miller og Schwanenflugel, 2008). Hrynrænir þættir tungumálsins hafa mikil áhrif á lesskilning og auðvelda  lesendum að ná inntaki þess sem lesið er (Kuhn, Schwanenflugel, Meisinger, 2010).

Nánari útskýringar á skilgreiningunni

Til eru margar mismunandi skilgreiningar á lesfimi. Flestar þeirra innihalda  þá þætti sem skilgreindir eru hér að framan, en áhersluþættir þeirra eru þó mismunandi. Skilgreiningin sem hér er vitnað til á margt sameiginlegt með mörgum eldri skilgreiningum á lesfimi. Þar má þó sjá nokkrar áherslubreytingar sem höfundar hennar vilja koma á framfæri og telja að þurfi að  taka mið af við kennslu og mat á lestri. Helstar þeirra eru:

Að varpa ljósi á tengslin milli lesskilnings og lesfimi með því að tiltaka  hvernig samtengdir þættir lesfiminnar styðja við lesskilning.

Að leggja áherslu á hrynræna þætti lestrar (þ.e. tónhæð, áherslur og atkvæðalengd orða innan tungumála) til jafns við nákvæma og sjálfvirka orðþekkingu. Höfundar telja að oftast sé lögð meiri áhersla á  leshraða en hrynræna þætti lestrarins við mat og kennslu þannig að nemendur séu frekar  hvattir til að lesa hratt í stað þess að leggja áherslu á lestur sem endurspeglar hrynjandi talmálsins.

Að vekja athygli á því að lesfimi er mikilvæg bæði fyrir hljóðlestur og  raddlestur og að hún geti bæði stuðlað að og dregið úr lesskilningi. Þá er átt  við að nemendur sem lesa hægt af lítilli nákvæmni og ná ekki að lesa í        viðeigandi hendingum er hættara við að lesa rangt og misskilja það sem lesið er.  Athygli þeirra er enn of bundin umskráningarfærninni þannig að minna svigrúm er fyrir lesskilning. Nemendur sem hins vegar hafa náð góðri lesfimi  nýta sér alla lærða færni til að auðvelda lesturinn og geta því svo til eingöngu  beint athyglinni að lesskilningi (Kuhn, Schwanenflugel, Meisinger, 2010).

 

© Helga Sigurmundsdóttir

 



[1] Í B.A. ritgerð sinni Hrynkerfi íslensku í bestunarkenningu (2008b) þýðir Anton Karl Ingason enska orðið prosody sem hrynkerfi tungumálsins og vísar til hrynrænna þátta tungumálsins.

[2] Hljómfall (intonation) vísar til tónhæðar, þ.e. hnig og ris raddarinnar í talmáli (Ensk- íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi , 2003).

[3] Lestur í hendingum (phrasing) felst í því að flokka saman hæfilega mörg orð innan setningar eða málsgreinar þannig að lesturinn verði áheyrilegur og merking komist betur til skila (Allington, 2009).

 

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer