Foreldrar og bernskulæsi
Foreldrar barna á leikskóalaldri geta gert ýmislegt til að auka líkurnar á því að lestrarnám þeirra verði farsælt. Rík málleg samskipti á heimilinu og lestur fyrir börn vega þar þyngst.
Foreldrar barna sem verða snemma læs hafa jafnan lesið mikið fyrir þau og gefið sér tíma til að ræða við börnin um efni bókanna. Þeir hafa enn fremur sinnt áhuga barna sinna á bókstöfum og ritmáli. Á heimilum þeirra er góður aðgangur að bókum og prentmáli og börnin sjá foreldra sína nota ritmálið í margvíslegum tilgangi og njóta þess að lesa.
Bernskulæsi
Bernskulæsi vísar til lestrarhegðunar barns á leikskólaaldri áður en formleg lestrarkennsla hefst í grunnskóla. Ung börn byggja upp þekkingu sína í gegnum uppgötvanir um ritmálið í umhverfi sínu og ekki síst í gegnum bóklestur og málhvetjandi samskipti við fullorðna og önnur börn. Á þessum tíma í lífi barns eru ekki gerðar kröfur um læsisnám. Þar sem námsaðstæður eru á forsendum barnsins, afslappaðar og lausar við gagnrýni, opnast heimur læsis smátt og smátt.
Fjölskyldulæsi
Hugtakið fjölskyldulæsi er notað í víðu samhengi um allar athafnir daglegs lífs sem fram fara á heimilinu eða á vegum fjölskyldunnar og tengjast læsi með einum eða öðrum hætti.
Í fjölskyldulæsi felst meðal annars lestur bóka og hvers kyns texta á heimilum en einnig ritun, til dæmis að skrifa minnismiða, að fylgja uppskriftum og leiðbeiningum. Það á auk þess við um sögur sem heimilisfólk segir hvert öðru hvort sem það er í samræðum, með lestri eða ritun. Bókasafnsferðir fjölskyldunnar eru líka dæmi um athafnir sem tilheyra fjölskyldulæsi.
Börn alast upp við mismikla læsismenningu á heimilum sínum og það hefur áhrif á læsisvitund þeirra.
Barnabækur og bernskulæsi
Barnabækur gegna grundvallarhlutverki fyrir málþroska og bernskulæsi og þess vegna er mjög mikilvægt að foreldrar lesi mikið fyrir börnin sín frá fyrstu tíð. Börn læra mikið, mest ómeðvitað, um mál og ritmál þegar lesið er fyrir þau og sú vitneskja sem þannig síast inn er nauðsynleg forsenda læsis.
Bækur fyrir börn á leikskólaaldri eru yfirleitt myndabækur. Fyrstu bækur barna eru oftast bendibækur. Þær eru lesnar fyrir börnin á þann hátt að sá sem les bendir á myndirnar og segir orðið yfir það sem er á myndinni og ræðir gjarnan um það við barnið. Smám saman fer barnið svo að benda sjálft og myndast við að segja orðið sem við á. Þarna fara fram mikilvægar samræður foreldris og barns á fyrsta og öðru ári og í þessu er fólgin mikil málörvun. Orðaforði barnsins og málskilningur eykst og það lærir heilmikið um samtöl og málleg samskipti. Og ekki má gleyma því að þetta er mikil skemmtun.
Þegar barnið eldist og þroskast verða myndabækurnar flóknari og meira krefjandi. Það á bæði við um textann og myndirnar og samspil mynda og texta verður meira og nánara. Táknkerfi textans og myndanna síast inn í barnið þegar lesið er fyrir það og myndirnar skoðaðar um leið. Hér eru því tekin mikilvæg skref í þróun læsis, bæði á texta og myndir.
Eftir því sem texti barnabókanna verður lengri og ítarlegri eykur hann orðaforða barnanna enn frekar. Ástæðan er fyrst og fremst sú að í ritmáli er notaður miklu stærri orðaforði en talmál gefur tilefni til og í barnabókum koma orðin fyrir í samhengi sem auðveldar skilning á þeim.
Foreldrar og fjölskyldulæsi
Foreldrar eru fyrirmyndir og móta þann heimilisbrag sem börn þeirra alast upp við:
- Lesið ykkur til ánægju sjálf þannig að barnið sjái til, bækur, tímarit, dagblöð og texta á skjámiðlum
- Hafið bækur og annað lestrarefni sýnilegt á heimilinu
- Hafið barnabækur aðgengilegar fyrir barnið
- Farið reglulega með barnið á bókasafn og leyfið því að velja bækur til að taka með heim
- Gefið ykkur tíma til að ræða við börnin ykkar í dagsins önn. Hlustið vel á hvað þau hafa til málanna að leggja og hvetjið þau til að segja frá.
- Leikið við barnið og ræðið við það um leikefnið og nefnið það.
- Hafið ritföng aðgengileg fyrir barnið og leyfið barninu að skrifa, líka á tölvuna
© Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir