You are here

Foreldrar

Lestur er íþrótt 

Hvað á ég að gera, barnið mitt nennir ekki að lesa? Þessari spurningu þurfti Sigga Vigga hin ráðagóða aldrei að svara. Hún gaf ráð við ókurteisi og subbuskap en engin mamma glímdi við lestrarleti krakkanna sinna þegar bókin um Siggu Viggu og börnin í bænum kom út á íslensku fyrir hálfum sjöunda áratug.

En nú er spurt og ekki að ástæðulausu. Mömmur og pabbar hafa áhyggjur – börnin þeirra hafna bókum, jafnvel  þó að þau séu fluglæs. Hvað er eiginlega til ráða? 

Lestrarvenjur barna hafa breyst á undanförnum áratugum, bóklestur hefur minnkað mikið og færri börn segjast hafa áhuga á að lesa bækur. Gleymum því þó ekki að börn lesa heilmikið á hverjum degi, í tölvunni og símanum, á sjónvarpsskjánum, í auglýsingum og á umferðarskiltum... orð eru út um allt. Vandinn er ekki sá að börn lesi ekki neitt heldur hvernig þau lesa; þau gleypa í sig skyndibita; smáskilaboð, vefbúta og textabrot. Fyrir vikið skortir þau bæði þjálfun og þolinmæði til að komast í gegnum heila bók og hafa ekki upplifað lestraránægjuna sem yrði þeim hvatning til bóklestrar.

En hvers vegna skiptir máli að börn öðlist áhuga á að lesa bækur þegar nóg er af öðru lesefni út um allt? Einfalda svarið er að áhugi á bóklestri tengist betri lesskilningi sem er undirstaða alls náms. Í stuttu máli sagt gengur börnum sem hafa gaman af því að lesa bækur betur í skólanum. Langa svarið er að bóklestur eykur víðsýni og umburðarlyndi, kennir börnum að setja sig í spor annarra og átta sig á skráðum og óskráðum reglum samfélagsins, lestur eflir málþroska, sköpunargáfu, ímyndunarafl  og orðaforða. Svo er bóklestur líka svo skemmtilegur, kærkomið athvarf frá amstri dagsins.

Hvað segir maður þá við áhyggjufulla foreldra? Í fyrsta lagi það að börn byrja ekki að lesa bækur vegna þess að við krefjumst þess eða skömmumst í þeim. Þau lesa ef þeim finnst það skemmtilegt. Ykkar verkefni er að sýna þeim hversu gaman er að lesa. Lesið fyrir framan börnin eða hlustið á hljóðbækur. Það er mikilvægt að börnin sjái ykkur njóta bóka. Lesið líka barna- og unglingabækur því að börn vilja ræða við fullorðna um bækurnar sínar. Spyrjið af áhuga og segið hvað ykkur fannst: Var bókin skemmtileg? Hvernig leið þér þegar þú last hana? Fékkstu gæsahúð, kitlaði þig í magann, langaði þig að öskra, rífa hana í tætlur eða lána hana öllum vinum þínum?

Börn hafa áhuga á svo ótal mörgu; fótbolta, fiðrildum, geimverum, glansmyndum, risaeðlum, rokkurum... listinn yrði óendanlega langur. Til eru bækur um allt milli hims og jarðar. Hjálpið börnunum að velja sér bækur, sum börn lesa lítið vegna þess að þau hafa ekki fundið rétta lesefnið. Önnur lesa alltaf sams konar bækur og hefðu gaman af að prófa eitthvað nýtt. Takið börnin með á bókasafnið eða í bókabúðina og skoðið úrvalið. Skoðið kápurnar, lesið aftan á þær, myndið ykkur skoðun og veltið fyrir ykkur innihaldinu. Fylgist saman með bókaútgáfunni og ræðið um spennandi bækur, nýjar eða endurútgefnar eða eldgamlar perlur ofan af háaloftinu hennar ömmu.

Nálgist lesturinn eins og hvert annað tómstundastarf barnanna. Lestur er íþrótt og æfingin skapar meistarann. Í öllu íþrótta- og tómstundastarfi skiptir áhugi  foreldranna meginmáli. Haldið með börnunum. Mætið á hliðarlínuna, þ.e. hvetjið börnin til að lesa reglulega,  hjálpið þeim að finna tíma til lestrar, fylgist með árangrinum og hrósið þeim fyrir ástundun og framfarir. Varist þó að pína þau áfram eða ofreyna við æfingarnar, það má ekki gleyma að teygja og hvíla. Æfingarnar eiga að vera skemmtilegar; þannig eflist áhuginn.

Varist líka að stilla lestrinum upp gegn tölvum eða sjónvarpi. Bókaormar horfa ekkert síður en önnur börn og spila líka tölvuleiki. Prófið að kynna börnin fyrir bókum sem bíómyndir hafa verið gerðar eftir. Horfið saman og lesið saman og spjallið um muninn á bók og mynd. Kennið börnunum að nota tæknina til bóklestrar, sum börn hrífast af rafbókum þótt þau lesi aldrei pappírsbækur.

Áhugi barna á lestri bóka dalar oft í kringum 10 ára aldurinn. Án efa tengist það því að þá eru langflest börn orðin læs og um leið hættir fullorðna fólkið að fylgjast með lestri þeirra. Dregið er úr lestrarkennslu í skólanum á þessum aldri, þó svo að nú sé sérstaklega mikilvægt að börnin nái upp góðum lestrarhraða og öðlist jákvætt viðhorf til bóklestrar.

Það er því einkar mikilvægt að heimilin taki virkan þátt í lestraruppeldinu þegar börnin komast upp á miðstig grunnskólans. Ekki hætta að lesa fyrir börnin þó að þau kunni að lesa. Hver sagði að kósíkvöld ættu að vera sjónvarpskvöld? - Prófið kósíkvöld með góðri bók – lesið upphátt, hlustið á börnin lesa eða hlustið saman á hljóðbók. Það má alveg poppa fyrir bóklestur eins og bíómyndir. Tengið lestur bóka við notalegar fjölskyldustundir, gæðastundir þar sem þið getið spjallað saman, hlegið saman og styrkt böndin.

Síðast en ekki síst: Lestur er fjölskylduverkefni sem bæði mamma og pabbi þurfa að sinna – eða báðar mömmurnar og báðir pabbarnir eða stjúpmömmurnar og stjúppabbarnir, ömmurnar og afarnir, frænkurnar og frændurnir  ...lestur ætti að vera fastur liður hjá öllum fjölskyldum; fjölmennum,  fámennum, fjörugum, þögulum, heimkærum og útilífsóðum. Ekkert barn ætti að fara á mis við fjölskyldulestur – fram eftir öllum aldri.

 

© Brynhildur Þórarinsdóttir

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer