You are here

Lestrarörðugleikar

Börn með lestrarerfiðleika geta auðveldlega lært að lesa, ef þau fá öfluga markvissa kennslu við hæfi. Í dag er lögð mikil áhersla á snemmtæka íhlutun og raunprófaðar kennsluaðferðir í lestrarkennslu allra nemenda, ekki síst þeirra sem eiga í erfiðleikum með að ná tökum á lestri. Við upphaf lestrarkennslu í 1. bekk er mælt með því að leggja fyrir skimunarpróf til að kanna undirbúning barnanna að lestrarnáminu og kortleggja styrkleika og veikleika þeirra út frá tveimur meginþáttum lestrar: málskilningi og umskráningu (hljóðkerfisvitund og stafaþekking).  Markmiðið með skimunarprófi er að gera kennurum kleift að mæta hverju barni þar sem það er statt í læsisþróuninni strax við upphaf lestrarkennslunnar.  Meðfram skimunarprófinu er með stuttum gátlista aflað upplýsinga frá foreldrum um ýmsa þætti er tengjast lestrarnámi ungra barna.  Mikilvægt er að fylgjast jafnt og þétt með framvindu lestrarnámsins hjá hverju og einu barni og meta árangur með jöfnu millibili og skipuleggja framhald kennslunnar í samræmi við það.

© Helga Sigurmundsdóttir og Steinunn Torfadóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer