Hægt er að hlusta á textann með því að smella á spilarann neðst á síðunni.
Með markvissum aðferðum og góðum stuðningi í skóla og heima læra börn með lestrarerfiðleika yfirleitt að lesa þótt leshraði sé oft hægari og stafsetning verri en hjá þeim sem ekki eiga í neinum erfiðleikum.
Lestrarnámið tekur mikinn tíma og það reynir mikið á börnin og foreldra þeirra.
Lestrarnámið er stöðug vinna og reynslan sýnir að ef nemendur hætta að æfa sig þá fer þeim aftur.
Þegar námsefni þyngist og lesgreinar koma til sögunnar er mikilvægt að nýta sér þau hjálpartæki sem bjóðast og stuðla að því að nemendur geti orðið sjálfstæðir námsmenn.
Helstu hjálpargögn eru tölvur og forrit þeim tengd.
Heimanám eykst og þyngist eftir því sem lengra líður á grunnskólann og því er mikilvægt að stuðla að góðum námsvenjum í gegnum það.
Ef heimanám reynist of íþyngjandi fyrir barnið og heimilið er nauðsynlegt að tala við kennara barnsins og komast að samkomulagi um hvernig best sé að haga því. Kennarinn veit að börn þurfa einnig að hafa tíma til að þroska sig á öðrum sviðum og vinna sigra. Því er yfirleitt auðsótt að minnka kröfur og velja það mikilvægasta til að vinna að heima.
Gott er að hafa eitthvert samskiptaform á milli heimilis og skóla eftir samkomulagi, t.d. samskiptabók eða tölvupóst, til að koma mikilvægum skilaboðum á milli varðandi heimanám og annað.
Einnig er gott að minna á fundi og fylgjast með að barnið fái þau úrræði sem eru fyrir hendi í skólanum, t.d. varðandi próftöku því kennarar hafa í mörg horn að líta.
Framhaldsnám
Þegar kemur að framhaldsnámi nemenda er mikilvægt að hvetja þá til að fara í það nám sem hugur þeirra stendur til og hjálpa þeim að leita leiða til þess.
Gott er að byrja í tíma að kynna sér nám framhaldsskóla, athuga námsframboð þeirra, hvaða þjónustu þeir veita og hvernig hægt er að nálgast hana.
© Helga Sigurmundsdóttir
Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer