You are here

Kennarar

Rannsóknir á lestrarferlinu hafa á undanförnum tveimur áratugum aukið þekkingu manna á því hvað þarf til að gera mál- og lestrarnám barna farsælt og árangursríkt. Þær hafa meðal annars opnað augu manna fyrir mikilvægi þess að:

  • fylgjast skipulega með málhæfni og málþróun barna í leikskólum (t.d. með skimunarprófum) og beita markvissri íhlutun og kennslu ef þörf er á
  • beita "snemmtækri íhlutun" í lestrarkennslu út frá niðurstöðum skimunarprófa og annarra athugana (meðal 5 og 6 ára barna) til að sporna við og ná betri árangri í lestrarkennslu barna sem eru í áhættu vegna vanda í umskráningu, lesskilningi eða hvoru tveggja
  • fylgjast markvisst með framförum allra nemenda í lestrarnámi svo hægt sé að aðlaga kennslu að þörfum hvers og eins og grípa inn í um leið og framfarir láta á sér standa

Rannsakendur eru í dag á einu máli um að lestur byggir á tungumálinu, að lestrarfærni byggir á málfærni og að lestrarerfiðleika má rekja til veikleika í málþáttum (Snowling og Hulme, 2005; Hulme og Snowling, 2009; Torppa o.fl. 2006; Carroll  o.fl. 2011; Kamhi og Catts, 2012). Því er lögð rík áhersla á að haldið sé áfram að efla þekkingu og færni  barna í máltjáningu og málskilningi samhliða lestrarkennslu í yngstu bekkjum og upp allan grunnskólann (National Reading Panel, 2000). Þá er jafnframt mælt með því að kenna orðaforða og lesskilning með sérstökum aðferðum, með stigþyngjandi verkefnum. Á meðan börn eru ekki fær um að lesa (umskrá) texta sem hæfir þeirra vitsmunalegu getu ætti að kenna lesskilning með því að lesa stutta, innihaldsríka texta fyrir nemendur og vinna lesskilningsverkefnin út frá hlustunarskilningi. Þegar nemendur hafa náð fullkomnum tökum á lestrartækninni verður lestur eitt öflugasta tækið til að efla orðaforða og málskilning sé hann iðkaður reglulega.

Lesfimi er mikilvæg færni þegar kemur að því að nýta sér lestur til náms og ná tökum á lesskilningi. Lesfimi þarf því að þjálfa með nemendum af mikilli natni, en lesfimi byggir á undirstöðufærni í umskráningu og málskilningi. Slök lesfimi kemur í veg fyrir að fólk geti lesið af góðri sjálfvirkni, fyrirhafnarlaust og án áreynslu. Í stað þess að einbeita sér að lesskilningi þarf fólk með slaka lesfimi stöðugt að huga að lestækninni sem aftur kallar á mikla fyrirhöfn, áreynslu og oft og tíðum á hægan og ónákvæman lestur sem kemur í veg fyrir að fólk fái notið þess að lesa. Rannsakendur leggja áherslu á að til þess að ná góðum lesskilningi þarf fólk að hafa náð gífurlega góðum tökum á lesfimi og hafa gott úthald við lestur.

Styrkleikar í öllum þáttum tungumálsins gefur börnum möguleika á að ná góðum tökum á lestri og standa sig vel í námi (Snow, Burns og Griffin, 1998). Þó veikleikar í málþáttum geti truflað eða hindrað eðlilega framvindu lestrarnáms og skert móttækileika barna og forsendur þeirra til að geta nýtt sér lestrarkennslu til fulls, þá hafa rannsóknir leitt í ljós að hægt er að kenna nánast öllum börnum að lesa ef réttum aðferðum er beitt. Hér þarf að hafa í huga að rangar áherslu í lestrarkennslu orsaka ekki lestrarerfiðleika, en hætta er á að þær komi í veg fyrir að börn sem eiga í lestrarerfiðleikum nái tökum á lestri (Kamhi og Catts, 2012; Hulme og Snowling, 2009; National Reading Panel, 2000).

Í þessu sambandi er vert að benda á að ekki virðist munur á virkni kennsluprógramma í lestrarkennslu svo fremi að þau innihaldi vinnu með tengsl stafs og hljóðs og að umskráning sé kennd með hljóðaaðferð (það er leiðin sem best gagnast börnum með lesblindu). Það er hins vegar færni kennarans sem ræður úrslitum þegar kemur að árangri lestrarkennslu (Torgesen, 2001). Lestrarfærni er undirstaða lífsgæða hvers einstaklings í tæknivæddu samfélagi og því ber skólasamfélagið og lestrarkennarar mikla ábyrgð þegar kemur að lestrarkennslu barna, allt frá leikskóla og upp allan grunnskólann.

Samkvæmt úttekt (NRP, 2000) og seinni rannsóknum á lestrarnámi og lestrarkennslu þarf árangursrík lestrarkennsla að beinast að eftirfarandi þáttum læsis: hljóðkerfis- og hljóðavitund, umskráningu, lesfimi, orðaforða, lesskilningi og ritun. Í skýrslu rannsóknarhópsins er jafnframt lögð áhersla á að hver þáttur krefjist sérstakra kennsluaðferða. Þróun lestrarfærninnar er ólík eftir einstaklingum og því er mikilvægt að  beita einstaklingsmiðaðri lestrarkennslu samkvæmt kennsluskipulagi sem hannað er sérstaklega til þess að koma til móts við alla nemendur í bekk

Ein mesta áskorun lestrarkennslunnar er að fylgja hverju barni eftir í gegnum lestrarnámið miðað við getu þess og færni. Ekki ætti að útfæra lestrarkennslu sem miðar að því að halda öllum nemendum að sömu viðfangsefnum á sama tíma. Börn koma að lestrarnáminu með mjög ólíkar forsendur og sum þurfa mikla, öfluga kennslu á meðan önnur hafa styrkleika sem gera þeim kleift að "kenna sjálfum sér" að lesa (Sjá kenningu um Self Teaching Hypothesis). Því ætti ekki  að útfæra lestrarkennslu sem miðar að því að halda öllum nemendum að sömu viðfangsefnum á sama tíma. Slík kennsla tekur ekki mið af stöðu og getu hvers og eins, heldur er enn meiri hætta á að þau börn sem efla þurfa móttækileika sinn í málþáttum samhliða lestrarnáminu dragist enn meira aftur úr og að bilið milli þeirra og hinna breikki. Í slíkri kennslu missa börn með lestrarerfiðleika mjög fljótt sjálfstraustið og innri áhugi þeirra dofnar og hverfur. Forsenda þess að halda ungum börnum einbeittum og virkum er að tryggja að þau nái árangri við verkefni sín og viðfangsefni, að verkefnin séu krefjandi en aldrei of erfið. Sjá nánari umfjöllun á tenglum þessarar umræðu.

 

© Helga Sigurmundsdóttir og Steinunn Torfadóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer