Mikilvægt er að bregðast fljótt við lestrarerfiðleikum þar sem vitað er:
- Að skjótur árangur í lestri getur gefið börnum forskot í námi og verið ávísun á velgengni í öðrum námsgreinum.
- Sjálfstraust og mat á eigin getu bíður auðveldlega hnekki ef illa gengur og getur haft áhrif á líðan og nám barnanna.
- Börn geta vanist ófullnægjandi lestraraðferðum/venjum sem er erfitt að leiðrétta seinna.
- Snemmtæk íhlutun getur komið í veg fyrir lestrarerfiðleika og fjárfreka sérkennslu seinna á skólagöngunni (Riley, 2006:239).
Þess vegna er gagnlegt að athuga börn við upphaf grunnskóla t.d. með því að leggja fyrir skimunarpróf sem kanna ákveðna þætti sem sýnt hefur verið fram á að geti gefið vísbendingar um áhættu varðandi erfiðleika við lestrarnám. Helstu forspárþættir sem hægt er að meta við upphaf skólagöngu eru hljóðkerfisvitund og stafaþekking (Muter, 2006).
Forspárþættir
Flestar rannsóknir á forspárþáttum varðandi lestur byggja á fylgnirannsóknum sem meta tengsl milli forspárþáttarins og lestrargetu. Yfirleitt er um langtímarannsóknir að ræða þar sem börn eru prófuð á vissum tímapunkti (t.d. við upphaf skólagöngu) í þeirri færni sem talin er hafa forspárgildi fyrir lestur í framtíðinni.
Barnið er síðan prófað í lestri á ákveðnum tímum (t.d. við lok fyrsta bekkjar og næstu ár) og reiknuð fylgni milli lestrargetu og færniþáttarins (t.d. hljóðkerfisvitundar) til að ákvarða hversu góður forspárþáttur viðkomandi færni er (Muter, 2006).
Frá tölfræðilegu sjónarhorni felst besta forspáin í þeim þáttum sem sýna mesta fylgni við lestrargetu, en sem minnsta (helst enga) við aðra undirþætti lestursins.
Forspárþættir ættu því allir að hafa mikla fylgni við lestrargetu, en litla sem enga hver við annan svo hægt sé að meta þá og áhrif þeirra á lestur sérstaklega. Ef og þegar slík tengsl eru staðfest mynda þau gjarnan grunn að skimunar-prófum sem lögð eru fyrir nemendur við lok leikskóla eða við upphaf grunnskóla.
Einnig er hægt að nota forspárþætti til að athuga frekar nemendur sem geta verið í áhættu með að lenda í lestrarerfiðleikum, t.d. vegna fjölskyldusögu um lestrarerfiðleika og ef vitað er um seinkun í málþroska (Gallagher, Frith & Snowling, 2000; Snowling, Gallagher & Frith, 2003).
Ef koma fram marktækir erfiðleikar í forspárþætti varðandi lestrarerfiðleika eru það mikilvægar upplýsingar um hvernig standa á að kennslu viðkomandi barns.
n© Helga Sigurmundsdóttir