You are here

Nálganir í kennslu


Um lestrarkennsluaðferðir

Rannsóknir á lestrarferlinu hafa á undanförnum tveimur áratugum aukið til muna þekkingu manna á því hvaða aðferðir eru árangursríkastar við að ná góðum tökum á lestri. Samkvæmt úttekt National Reading Panel (2000) og seinni rannsóknum á lestrarnámi og lestrarkennslu þarf lestrarkennsla að beinast að eftirfarandi þáttum læsis: hljóðkerfis- og hljóðavitund, umskráningu, lesfimi, orðaforða, lesskilningi og ritun. Í skýrslu NRP (2000) er jafnframt lögð áhersla á að hver framangreindur kennsluþáttur krefjist sérstakra kennsluaðferða. Mikilvægt er að hafa í huga að börn eru misjafnlega í stakk búin til að takast á við lestrarnám við upphaf grunnskólagöngu. Þannig tekur það nemendur mislangan tíma að ná tökum á lestri og klífa upp öll þrep læsisþróunarinnar. Þekking kennara á þróunarferli lestrar gerir þeim kleift að mæta hverjum nemanda þar sem hann er staddur og útfæra einstaklingsmiðaða lestrarkennslu sem er hæfilega krefjandi fyrir hvern og einn en aldrei of erfið né of auðveld.  Þannig er börnum sem gætu átt á hættu að lenda í lestrarerfiðleikum mætt með viðeigandi verkefnum strax í upphafi lestrarnámsins.

Einu sinni héldu menn að besta leiðin til að læra að lesa væri sú að gefa sem minnstan gaum að bókstöfunum, heldur renna augum yfir textann og reyna að finna út orðin eftir samhengi og myndum og öðrum vísbendingum sem lesefnið gæfi til kynna. Nú vita menn að góðir lesarar gefa gaum að hverjum einasta bókstaf orðanna af fullkominni nákvæmni, án þess að þurfa að beina athyglinni að því. Þetta er færni sem börn þróa og þjálfa gegnum hljóðkerfisfærni, umskráningu, lesfimi og orðaforða þar til hún verður fullkomlega sjálfvirk og ómeðvituð. Þannig geta góðir lesarar beint óskiptri athygli sinni að innihaldi textans og sökkt sér niður í efnið. En hvernig les þjálfaður lesari? Menn vita að það tekur styttri tíma að lesa heil orð en að fikra sig í gegnum orðin staf fyrir staf. Þess vegna þarf lestrarkennslan að beinast að því að nemandinn læri orðin smátt og smátt, því oftar sem hann les þau og skrifar eða þar til að hann getur sagt þau fyrirhafnarlaust um leið og hann sér þau.

Kenning L.C. Ehri ( 1992; 1997; 2002; 2004; 2005; ) fjallar um það hvernig þjálfaðir lesarar fara að því að lesa algjörlega fyrirhafnarlaust, en geta um leið einbeitt sér af fullkominni nákvæmni að innihaldi lesefnisins.  Ehri hefur rannsakað hvernig börn fara að því að læra að þekkja orð sjónrænt og hafa rannsóknir hennar meðal annars gefið til kynna að hljóðaaðferðin sé árangursríkasta leiðin til að festa orðin í sjónrænu langtímaminni. Ehri segir að það sé hægt að beita fjórum aðferðum við að lesa orð.  Þá á hún við aðferðir við að lesa úr bókstöfunum.

1. Með því að beita hljóðrænni umskráningu, að segja hljóð hvers bókstafs í orðinu og tengja hljóðin um leið saman svo þau myndi orð (b-ó-k-i-n). Með aukinni færni og eftir því sem orðin verða lengri og flóknari fara börn að læra  hljóð / framburð atkvæða /orðhluta og lesa í stærri heildum. Þá er sagt að þau lesi í lesbútum, það er stærri einingum með hljóðrænni umskráningu (sunn-u-dag-ur).

2. Með því að kalla fram sjónræna mynd orðanna úr langtímaminni. Það er  að lesa eða þekkja orðin beint sjónrænt.

3. Með því að bera stafamynstrið saman við önnur lík orð sem nemandinn þekkir sjónrænt (sbr. afi -safi - kafi). Goswami (1986 og 1990) sýndi fram á að rím nýtist vel við þessa aðferð.  Ehri (1992) telur að til að geta beitt þessari aðferð þurfi börn að hafa einhverja vitneskju um tengsl bókstafa og hljóða og því má segja að þessi leið flokkist einnig undir hljóðaaðferðina.

4. Með því að giska á orðin út frá samhenginu. Þessi leið er talin mjög ónákvæm því aðeins er hægt að giska rétt á 25 - 30% orða og þar af aðeins með 10% árangri á helstu lykilorð í textanum (Gough & Walsh, 1991).

Allar ofantaldar aðferðir krefjast einbeitingar og athygli, nema aðferð nr. 2, það er sjónræna leiðin. Ehri (2002) segir að þegar nemandi er fær um að kalla sjónræna mynd orðsins beint og án fyrirhafnar úr minninu (sjónrænu orðasafni) geti lesandinn borið fram orðið og fundið merkingu þess sjálfvirkt (automatically) án þess að þurfa að beina athyglinni sérstaklega að því. Þetta gerist ómeðvitað og ósjálfrátt. Sjónræna leiðin er því skilvirkasta og fyrirhafnarminnsta leiðin til að lesa orð í texta. Þetta bendir til að nemendur verði að ná tökum á sjónrænu leiðinni til að vera færir um að lesa orð fyrirhafnarlaust og með góðri sjálfvirkni. Sjónræna leiðin gefur lesandanum möguleika á að einbeita sér að innihaldi textans. Þetta þýðir samt ekki að lesandinn beiti ekki öðrum leiðum líka því sjónræna leiðin fær stuðning hinna aðferðanna jafnframt og ef á þarf að halda. Sjónræna leiðin er hins vegar sú fyrirhafnarminnsta, hraðasta og nákvæmasta.

En hvernig fer þetta sjónræna ferli fram?

Þekking á tengslum stafs og hljóðs staðfestir að framburður orðsins passi við stafsetninguna á orðinu. Þekking á setningafræði staðfestir að orðið passi rétt inn í setninguna. Orðskilningur og minni á texta staðfestir að orðið passi inn í samhengi textans. Að hafa aðgang að þessum margvíslegu upplýsingum hjálpar lesandanum að lesa af mjög mikilli nákvæmni og vera stöðugt vakandi og meðvitaður um hvort hann gerir villur í lestrinum og það gerir honum jafnframt kleift að leiðrétta þær jafnóðum og hann les.

Rannsakendur og kennismiðir eru sammála um að hljóðaaðferðin sé fjótlegasta og árangursríkasta leiðin til að ná tökum á lestækni. Með lestækni er átt við færni sem felst í því að umbreyta eða umskrá bókstafina yfir í hljóð tungumálsins og tengja hljóð stafanna saman í orð.  Kenning Ehri (sbr. hér að framan) gefur til kynna að heppilegast sé að byggja á hljóðaaðferðinni við byrjedakennslu í lestri. Með þeirri kennsluaðferð læra nemendur á markvissan hátt að vinna með tengsl stafs og hljóðs. &rdquoen;Slík nálgun er úrslitaatriði fyrir nemendur með dyslexíu....... og algjörlega skaðlaus fyrir aðra nemendur” (Snow & Juel, 2005). Kenning Ehri vísar einnig til þess að mikilvægt sé að höfða til lesskilnings samhliða hljóðrænni umskráningu þar sem orðin festast í sjónrænu langtímaminni út frá framburði orðsins í tengslum við merkingu og mál- og setningafræðlegt hlutverk þess.

Lestrarkennsluaðferðir má setja upp á línu út frá áherslum á vinnu með tengsl stafa og hljóða:

 

Hljóðaaðferð

Jafnvæg nálgun

Heildaraðferð
Mikil áhersla á stafi og hljóðJöfn áhersla á stafi, hljóð og málLítil áhersla á stafi og hljóð

 

En lestur er annað og meira en að umskrá bókstafi í hljóð og orð og læra að þekkja orðin. Skilvirkur lestur byggir líka á því að lesandinn skilji það sem hann les. Forsenda þess er að nemandinn nái að lesa fyrirhafnarlaust, hratt og sjálfvirkt.

Í dag er því lögð áhersla á að lestrarkennslan beinist að þeim þáttum sem rannsóknir sýna að spái best fyrir um árangur barna í lestri síðar á ævinni.

Sýnt hefur verið fram á að leggja þarf áherslu á eftirfarandi þætti í lestrarkennslunni.

Hljóðkerfisvitund, umskráningu (bæði í lestri og stafsetningu), lesfimi (leshraða), orðaforða, lesskilning.

Lestrarkennslan þarf því að byggjast á fjölbreyttum aðferðum sem hver um sig miðar að því að efla ofantalda færniþætti.

Huga þarf að þjálfun hljóðkerfisvitundar samhliða byrjendakennslu í lestri til að efla næmi og móttækileika barnsins fyrir hljóðum bókstafanna. Hér þarf þó að hafa í huga að ekki þurfa öll börn þjálfun í þessum þætti.

Beita þarf markvissri kennslu við að kenna börnum að umskrá orð og byggja um leikni í tæknilegri hlið lestursins. Skilvirkasta aðferðin til að kenna umskráningu er með hljóðaaðferðinni.

Markmiðið með umskráningunni er þó ekki bara að kenna börnum að "hljóða sig" gegnum orðin. Markmiðið er að þau nái smám saman að byggja upp sem mestan sjónrænan orðaforða og geti þekkt orðin um leið og þau ber fyrir augun, hratt og fyrirhafnarlaust. Þannig og ekki fyrr en þá öðlast barnið bestu forsendur til að ná lesskilningi. Því þarf kennslan að beinast að því að þjálfa lesfimi og leshraða.

En það þarf hins vegar fleira til að ná lesskilningi.  Sýnt hefur verið fram á með ótal rannsóknum að það eru bein tengsl á milli orðaforða og lesskilnings og milli lesskilnings og málskilnings. Þess vegna þarf lestrarkennslan að beinast að því að efla orðaforða og málskilning. Þar kemur beiting málsins, eða málnotkun barnsins einnig við sögu því barn sem ekki nær að tjá orðaforða sinn og málskilning á skilmerkilegan hátt getur lent í vanda með lesskilning. Slakur lesskilningur er meðal annars ein orsök þess að nemendur ná ekki árangri á prófum. Því þarf lestrarkennslan að beinast markvisst að því að efla orðaforða barnsins og undirbúa það undir að skilja flókna, fræðilega texta og að njóta þess að lesa fagurbókmenntir.

Loks þarf lestrarkennslan að beinast að því að kenna barninu "metacognitivar" aðferðir til að ná lesskilningi.

© Steinunn Torfadóttir

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer