,,Raunverulegt læsi felst ekki aðeins í hæfni við að geta lesið og skrifað, heldur að geta nota tungumálið til þrautalausna” (Robert Calfee).
Góðir lesarar beita öllu jöfnu mörgum ólíkum aðferðum við lestur. Þeir spá fyrir um efnið áður en þeir lesa, þeir tengja við eigin persónulega reynslu og þekkingu, fylgjast með skilningi sínum og bregðast við með áhrifaríkum aðferðum ef skilningur dettur niður. Þessar og aðrar gagnlegar aðferðir geta kennarar nýtt sér við að kenna og þjálfa lesskilning og hjálpa nemendum sínum að ná betri árangri í lesskilningi.
Lesskilningur reynir á æðri hugsun og góðir lesendur beita fjölmörgum, flóknum hugrænum aðferðum við að ná tökum á lesskilningi. Þá þarf að hafa í huga að merkingin sem lesendur leita eftir er bæði í textanum en einnig í hugarheimi lesandans sjálfs sem leggur sína reynslu, sína þekkingu, sinn tilgang og sitt sjónarhorn í orð höfundar og þann boðskap sem textinn hefur fram að færa. Rannsóknir benda til þess að kennsla í lesskilningi hafi mikið að segja fyrir árangur barna við að ná tökum og skilningi og vinnameð erfiða texta.
Ennfremur er mikilvægt að kennarar átti sig á að færnin við að lesa orðin (textann) þarf að vera nánast algjörlega sjálfvirk svo nemandinn geti beint óskiptri athygli sinni að efnisinnihaldi lestextans hverju sinni.
Kennsla í lesskilningi ætti að grundvallast á þremur meginuppsprettum:
Aðferðir við forspár
Að spá fyrir um atburði eða hegðun er mannlegur eiginleiki sem segja má að sé nauðsynlegur til að bjarga sér í lífinu. Forspá byggir á því sem við vitum nú þegar, en út frá fyrri þekkingu og reynsu má spá fyrir um og undirbúa sig undir það sem í vændum er eða koma skal. Þannig beitum við forspá við akstur, eldamennsku og margt annað í daglegu lífi. Forspá gerir lesturinn skilvirkari og áreiðanlegri og góðir lesendur eru stöðugt að geta sér til um merkingu lesefnisins og þess sem koma skal. Lesandinn nýtir ekki aðeins sína eigin bakgrunnsþekkingu, reynslu og hæfni til að „upplifa“ og „setja sig í spor“ sögupersónanna heldur jafnframt allt sem hann aflar sér um þeirra hugarheim, umgjörð og sögusvið til að spá fyrir um framvindu sögunnar og atburðarrás hennar.
Það er nánast ekki í mannlegu valdi að standa frammi fyrir fyrirbærum eða viðburðum án þess að spá í þá. Hér eru nokkrar tegundir af algengum forspám sem lesendur beita:
Lesandinn er stöðugt að byggja upp væntingar út frá efni textans, höfundi, myndum eða heiti kaflans. Hann notar þekkingu sína á uppbyggingu setninga til að nálgast merkingu textans á sem nákvæmastan hátt og gefur gaum að öllum smáatriðum ritmálsins.
Að mynda tengsl
Við lestur aflar lesandinn sér ekki aðeins upplýsinga beint úr textanum heldur styðst hann við alla þá þekkingu sem hann hefur um efni textans. Þar má nefna:
Persónuleg þekking tengist minningum um reynslu okkar úr daglegu lífi. Oft er sú reynsla tengd tilfinningum sem við endurupplifum við lestur texta. Um getur verið að ræða minningar um fólk, atburði eða staði. Slíkar minningar geta einnig vakið upp skynhrif svo sem ilminn af laufum trjánna, súrsæta stækjuna af mjúkri ull sauðkindanna við rúninginn á vorin, súrt bragð rifsberjanna í garði nágrannans, trega og sorg yfir missi eða óréttlæti eða ást og kærleika yfir einlægri vináttu og trúfestu. Textar sem vekja upp margvíslega, persónulega þekkingu geta verið mjög áhugaverðir og grípandi fyrir lesandann. Og jafnvel þó lesefnið fjalli um hluti sem eru utan okkar reynsluheims getum við samt nýtt reynslu okkar til að fylla upp í þá hugrænu mynd sem við búum okkur til af því sem við lesum hverju sinni.
Þekkingu á heiminum öðlumst við með því að taka eftir því sem gerist í umhverfi okkar, af frásögnum annarra, því sem við lesum um í bókum og blöðum og því sem við heyrum og sjáum í sjónvarpi og á veraldarvefnum. Þegar við lesum fræðitexta um hvali kemur allt það sem við vitum um þá upp í hugann og styður við þá hugrænu mynd sem smám saman byggist upp í huga okkar og mótast stöðug nákvæmar eftir því sem þekking okkar eykst.
Þekking á texta er afar mikilvæg til að skilja dýpt og stílbrögð ritmálsins. Því meiri þekkingu og þjálfun sem höfum aflað okkur um ólíka texta og efni þeirra þvi betur erum við undirbúin til að takast á við lestur nýrra texta. Því minni undirbúning sem við höfum því erfiðara verður að takast á við lesturinn og skilja það sem lesið er. Þessu má í raun líkja við hljóðfæraleik, þar sem fágaður vel æfður hljóðfæraleikur nær mun betur að miðla tónverki tónskáldsins en hinn óæfði. Að tengja saman reynslu af ólíkum textum gefur okkur ómælda ánægu af lestri. Það sem við lesum hjálpar okkur að rifja upp og skilja okkar eigin reynslu og tilfinningar og mynda tengsl við aðrar manneskjur og skilja tilfinningar þeirra.
Ályktunarhæfni
Raunverulegur skilningur á texta byggist á því að fara út fyrir það sem höfundurinn segir berum orðum í textanum. Þjálfaðir lesarar byggja upp hárfínan skilning á þeirri merkingu sem höfundurinn gefur til kynna í orðum eða á myndum. Góðir lesarar byggja upp svo nákvæma hugræna mynd af atburðum og söguþræði að þeir geta jafnvel kallað hana fram í hugann mánuðum eða árum síðar. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að við verðum fyrir vonbrigðum með kvikmynd sem byggð er á sögu sem við þekkjum vel. Útkoman er þá gjarnan allt önnur en sú mynd sem við gerðum okkur af sögunni. Ályktanir okkar um tilfinningar sögupersónanna, markmið þeirra og fyrirætlanir byggjast á því tungumáli sem höfundurinn beitir. Stundum eru sögupersónurnar ekki látnar tala beinum orðum heldur verður lesandinn að ráða í þær hugsanir sem brjótast um í huga þeirra. Þannig er oft áhrifameira að gefa tilfinningar til kynna með sjónrænum vísbendingum en láta persónuna segja hvernig henni líður. Í stað þess að segja að einhver hafi orðið skelkaður, væri áhrifameira að segja: Hann náfölnaði og greip um höfuðið. Og jafnvel þó að höfundurinn segi okkur ekki hvað sögupersónan segir eða hugsar getur frásögnin verðið með þeim hætti að viðkomandi sögupersóna birtist ljóslifandi gegnum ályktanir okkar á innihald textans. Þannig lærum við að skyggnast inn í hugaheim persónanna með því að lesa um það sem höfundur segir um þær, hvað þær segja, hugsa eða gera ásamt því sem aðrir hafa að segja um þær. Út frá slíkum upplýsingum myndum við okkur hugmyndir og kenningar um sögupersónurnar. Okkur verður í nöp við sumar þeirra en um aðrar fer okkur að þykkja vænt um eða förum að halda með þeim.
Nánast hver einasti texti krefst þess að lesandinn dragi ályktanir um hvað sögupersónur hugsa eða segja og hvers vegna. Læsi krefst þannig flókinnar úrvinnslu og skilnings sem verður að vera hluti af lestrarkennslunni alveg frá byrjun. Krafan um hæfni til að draga ályktanir verður enn meira áríðandi eftir því sem textinn verður flóknari. Ekki ætti að bíða með að þjálfa slíka færni í 3. – 4. bekk heldur byggja hana upp gegnum hlustunarskilning frá blautu barnsbeini í gegnum leik í og málræn verkefni leikskóla og síðan út frá einföldum texta eftir því sem lestrargeta nemenda þróast og gefur tilefni til.
Að tengja saman og mynda nýja sýn - Nýmyndun
Lestur er nátengdur námi og því gerum við ráð fyrir að við fáum eitthvað út úr því sem við lesum. Þannig er lesturinn drifinn áfram af þörf okkar fyrir að vita stöðugt meira og janfnvel að nýjar upplýsingar breyti einhverju fyrir okkur. Við höfum þær væntingar að lesturinn veiti okkur ánægju, sé skemmtilegur, að við fræðumst um eitthvað sem við vissum ekki eða að við fáum nýjar hugmyndir, öðlumst nýtt sjónarhorn og dýpkum innsæi okkar. Oftast bæta nýjar upplýsingar ekki stórkostlega miklu við þekkingarbrunn okkar hverju sinni, en inn á milli gerist það svo sannarlega. Að taka saman upplýsingar úr texta er nátengt því að ákveða mikilvægi efnisþátta. Þegar lesandinn hefur gefið gaum að því mikilvægasta í textanum þarf hann að skipuleggja efnið og mynda samhangandi heild, rifja upp og endurraða upplýsingum og fella þær saman við það sem hann vissi áður.
Nýmyndun (að mynda nýja heild) er ferli sem byggir á að skipuleggja, endurvekja, endursegja og endurskapa samhangandi heild (Zimmermann and Hutchins, 2003, bls. 130).
Nýmyndun (synthesizing) felur í sér:
Að segja frá því sem hæst ber í sögu eða kafla.
Að útskýra hvaða þýðingu saga eða grein hefur fyrir mann.
Að átta sig á hvernig saga eða texti tengist eigin lífi.
Hvernig saga eða texti tengist öðru sem lesið hefur verið.
Að átta sig á á hvern hátt saga eða texti endurspeglar heiminn.
Nýmyndun er skapandi ferli sem felur í sér að binda saman lykilatriði lesskilnings í skýra hugmynd sem hefur persónulega merkingu fyrir lesandann. Nýmyndun (synthesis) er er ekki það sama og útdráttur, hún meira en útdráttur og heldur ekki það sama og samantekt.
Greining
Að þekkja uppbyggingu ritsmíðar hjálpar lesandanum að setja sig inn í framvindu frásagnar og atburðarrásar. Flest erum við svo meðvituð um uppbyggingu texta í sögum og skáldverkum að við hugsum ekki einu sinni um hana þegar við lesum.
Lesendur
Frásagnarform bóka eða texta er háð innihaldi textans og markmiðum höfundarins. Því flóknara sem frásagnarformið er því meira krefjandi verður lesefnið fyrir lesandann. Til dæmis eru ævintýri (fantasíur) venjulega skáldsögur en slíkt form gerir miklar kröfur til lesandans um að setja sig inn í/lifa sig inn í sögusvið frásagnarinnar.
Textar sem byggja á sannsögulegum atburðum eða eru gerðir til að fræða fólk (fræðitextar) hafa annars konar byggingaform þar sem lesendur læra að bera kennsl á og gefa gaum að:
Að greina texta felur í sér að fara til baka og rýna í textann á hlutlægan hátt samkvæmt nákvæmri aðferðafræði. Önnur leið til að greina texta er að bera kennsl á leikni eða stílbrögð höfundarins:
Með því að meta texta með þessum hætti nær lesandinn ekki aðeins að skilja textann betur, heldur öðlast hann dýpra innsæi í stílbrögð höfundarins sem aftur nýtist honum í sínum eigin skrifum.
Gagnrýni – Ritdómur
Í ritfrjálsu samfélagi er mikilvægt að lesa með gagnrýnum huga. Ekki er öruggt að allt sem fer á prent sé nákvæmt eða rétt með farið og því þarf að vega og meta með tilliti til heimilda. Stundum er aðeins miðlað einu sjónarhorni og þá er mikilvægt að leita víðara sjónarhorns. Við mat á texta eru eftirfarandi stefnumótandi aðferðir mikilvægar:
Lesandinn:
Nemendur sem eiga erfitt með lesskilning þurfa að læra hvernig á að ná tökum á réttum og árangursríkum námsaðferðum við lestur og lesskilning. Þeir þurfa að geta nýtt sér sömu námsaðferðir við að ná lesskilningi og aðrir nemendur, en það þarf oft að kenna þeim þessar aðferðir með markvissum hætti. Kennsla í lesskilningi ætti alls ekki bíða þar til nemendur hafa náð tökum á fyrirhafnarlausum, sjálfvirkum lestri (lestækni). Kennsla í lesskilningi ætti að fara fram samhliða lestrarkennslunni, alveg frá byrjun, en þó ekki endilega með þeim lestextum sem barnið er að æfa sig að lesa hverju sinni.
Textar í byrjendalestri miðast oft við það að auðvelt sé að beita umskráningu (hljóðaaðferð) við lestur þeirra. Textar til að kenna lesskilning þurfa að vera áhugaverðir, vel skrifaðir og höfða til vitsmunalegrar getu nemandans fremur en færni við umskráningu. Þetta á ekki síst við um nemendur með lesblindu en það tekur þá oftast lengri tíma að byggja upp færni í umskráningu. Hins vegar hafa þeir gjarnan góðar forsendur til að ná tökum á lesskilningi, einkum í upphafi lestrarnámsins. Hættan er sú að þeir nái ekki nægilega snemma að lesa aldurssvarandi lesefni sem aftur skerðir forsendur þeirra til að byggja upp orðaforða og þekkingu til jafns við jafnaldra. Það kemur niður á möguleikum þeirra við að ná lesskilningi síðar meir. Því er afar mikilvægt að beita snemmtækri íhlutun við lestrarkennslu nemenda með lesblindu.
Munurinn á því að kenna nemendum sem eiga í erfiðleikum með lesskilning og hinum snýst ekki um það sem kennt er heldur hvernig það er kennt. Kenna þarf lesskilning skref fyrir skref, frá hinu einfalda til hins flókna Hverja aðferð þarf síðan að kenna aðskilda, eina í senn og þjálfa hana með viðeigandi, alvöru texta. Hafa þarf í huga að nemendur sem eiga í erfiðleikum með lesskilning þurfa oft sérstaka áherslu á örvun og uppbyggingu orðaforða.
Til að byrja með eru aðferðir við lesskilning kenndar út frá:
1. einni setningu
2. málsgrein eða efnisgrein
3. stuttum, völdum kafla úr texta
Óhlutbundin hugtök eru kennd eru út frá áþreifanlegum dæmum sem höfða til áhuga og hugsanagangs nemenda sem auðveldar þeim skilning og gerir námið áhugaverðara.
Tungumálið lærist af umhverfinu. Aðferðir kennara við að móta og þjálfa lesskilning felast m.a. í því að beita svokölluðum”hugsa upphátt lestraraðferðum”, sem fylgt er eftir með markvissri þjálfun. Markmiðið er að hjálpa nemendum að þróa hugsanaferli á hærri stigum.
Fjögur þrep við að byggja upp færni í lesskilningi
1. Skipulag og tímasetningar
Áætlið tíma á hverjum degi til að lesa fyrir nemendur. Munið að þetta ætti að vera hluti af lestrarkennslunni fremur en stök kennslustund um lesskilning. Textinn ætti að innihalda orðaforða og setningaskipan sem hæfir vitsmunalegri færni nemandans. Textinn ætti ekki að miðast við lestrargetu nemandans, nema að hann geti lesið aldurssvarandi texta. Til að byrja með felst kennslan meira í að þjálfa hlustun fremur en að spyrja spurninga og krefjast svara frá nemandanum. Með því að hlusta á innihaldsríkan texta vex bæði þekking og orðaforði nemenda.
2. Aðferðir við lestur og lesskilning
Kennari leggur sérstaka áhersla á að kenna mismunandi lestraraðferðir.
Slík kennsla ætti að fara fram með því að kennarinn les innihaldsríkan texta upphátt, stuttan, áhugaverðan, valinn kafla eða efnisgrein og útskýrir hvaða aðferð má beita við að ná innihaldi textans. Kennarinn mótar þannig aðferðina í byrjun með því að tala um það hugsanaferli sem beitt er við að ná lesskilningi.
Næsta skerf er að kennarinn leiðir nemendur gegnum úrvinnsluferlið sem hóp. Síðan heldur kennarinn áfram að lesa valda, stutta kafla eða efnisgreinar og þjálfar nemendur enn frekar í að beita markvissum lesskilningsaðferðum og röksemdafærslu.
3. Nemendur vinna í minni hópum eða einstaklingslega.
Eftir því sem nemendur öðlast meiri hæfni og ábyrgð gegnum þjálfun í hóp geta þeir smám saman byrjað að vinna sjálfstætt í litlum hópum. Þegar kennarinn hefur lesið textann æfa nemendur sig í litlum hópum við að beita þeim aðferðum sem kennarinn hefur verið að kenna. Kennarinn veitir frekari leiðsögn ef með þarf.
4. Svör við spurningum og umræður um svörin.
Að taka sér tíma og ræða svörin við spurningum úr textanum er mikilvægasti þáttur kennslunnar. Segja má að umræður um textann eiga sér stað gegnunm allt kennsluferlið, en ekki bara á vissum tímapunkti í kennslunni.
Í staðinn fyrir að spyrja spurninga sem krefjast eingöngu réttra svara ætti kennarinn að gefa nemendum tækifæri til að útskýra og ræða svör sín við samnemendur og kennara. Að fá tækifæri til að þróa æðri hugsanaferli byggist ekki aðeins á því sem nemendur vita heldur ekki síður á því að útskýra hvernig þeir vita það.
Nemendur sem eiga erfitt með lesskilning verða að læra sams konar færni og aðrir lesarar.
Allir lesarar þurfa að læra að:
• Nýta sér bakgrunnsþekkingu
• Beita ályktunum
• Sundurgreina aðalatriði og aukaatriði
• Endurtaka/umorða
• Spyrja sig spurninga
• Stjórna eigin námsferli með því að spyrja: Skil ég textann?
• Ákveða orsök og afleiðingu
• Greina efnið
• Meta efnið
• Draga saman niðurstöður
• Gera greinarmun á staðreyndum og hugmyndum.
• Bera kennsl á áróður.
Margir nemendur eiga erfitt með:
• Myndmál, líkingar; samlíkingar/myndhvörf;
• Orðatiltæki
• Að aðgreina aðalatriði frá aukaatriðum
• Að skynja tengsl milli hluta og heildar
• Að nota og skilja orð og orðatiltæki sem tákna tíma
• Glíma við upplýsingar sem ekki eru sagðar berum orðum. “Lesa milli línanna.”
Þetta síðasttalda er talin ein megin orsök þess að nemendur lenda í vandræðum með lesskilning.
Minnisþættir: Slakt skammtímaminni er einn veikleikaþáttur nemenda með dyslexíu. Því skiptir miklu að gefa nemendum möguleika á upprifjun og endurtekningu meðan ný atriði og færni er að festast í minni.
Skammtímaminni: hefur takmarkaða geymd:
• varðandi fjölda þeirra atriða sem viðkomandi getur munað
• þann tíma sem geymslan getur varað
• atriðin þafnast stöðugrar upprifjunar svo þau geti færst yfir í vinnsluminnið.
Vinnsluminni þarf:
enn meiri upprifjun og öfluga viðeigandi þjálfun svo upplýsingar geti færst yfir í langtímaminnið
Lykilatriði: Auðveldara er að muna:
• Skipulagðar upplýsingar. Gagnlegt er að flokka upplýsingar og raða þeim eftir áherslum og númera þær.
• Myndrænt skipulag. Hugarkort, myndasögur, tímalínur o.fl.
Nokkur atriði til að bæta lesskilning
Atriði sem gagnlegt er að hafa í huga áður en lestur hefst
1. Því meiri þekkingu sem þú hefur á viðfangsefninu/lesefninu, því betri lesskilningi nærðu úr því sem þú lest. Þess vegna er gagnlegt að rifja upp, jafnvel punkta hjá sér fyrirfram, eitthvað sem þú þegar veist um það sem þú ert að fara að lesa. Það gæti kallað fram úr undirmeðvitundinni þekkingu úr langtímaminni, jafnvel eitthvað sem þú hélst að þú vissir ekki.
2. Gagnlegt getur verið að skima textann áður en eiginlegur lestur hefst. Skoða fyrirsagnir og undirfyrirsagnir, myndir, töflur, kort og gröf og reyna svo út frá því að geta sér til um innihald lesefnisins. Bera þessar ágiskanir saman við lesefnið sjálft, meðan verið er að lesa. Þetta er mjög góð aðferð til að ná að einbeita sér vel að efni textans.
3. Skrifa fyrirfram niður spurningar sem þú vilt fá svör við í textanum. Sumir sérfræðingar telja að slíkar spurningar örvi lesskilning einna mest. Lesandinn er þá markvisst að einbeita sér að efninu á meðan hann les.
Mikilvæg atriði sem gott er að hafa í huga á meðan verið er að lesa
1. Strika undir/merkja með áherslupenna lykilatriði og mikilvægar hugmyndir.
2. Reyndu að setja þér fyrir hugskotssjónir (sjá fyrir þér í huganum) það sem þú ert að lesa. Reyndu að ímynda þér það sem þú gætir heyrt, séð, snert, bragðað, lyktað af o.s.frv.
3. Staldraðu við eftir 10 – 15 mín lestur og farðu í huganum yfir það sem þú varst að lesa. Reyndu að tengja það, flokka, vega og meta í tengslum við það sem á undan er komið. Ef eitthvað er ójóst er gagnlegt að fara til baka í textanum og reyna að komast til botns í því. Skráðu hjá þér og flettu upp orðum sem þú ert ekki viss um hvað þýða. Ræddu efnið við aðra, ef þú ert ekki viss um merkingu og/eða boðskap lesefnisins.
4. Að tala við sjálfan sig er mjög mikilvægur þáttur. Spyrja sjálfan sig spurninga um leið og lesið er. Skil ég þetta? Kemur þetta heim og saman við það sem ég hef lært áður? Hvernig tengist það öðru sem ég hef lært? Er þetta nýtt sjónarhorn eða beint áframhald af öðru sem ég hef lesið? Er þetta andstætt því sem ég hef lært áður? Er ég sammála því sem fram kemur í lesefninu?
Gagnleg atriði sem hafa skal í huga þegar lestri lýkur
1. Rifjaðu upp það sem þú varst að lesa. Athugaðu hvort einhverjar af ágiskunum þínum um innihald textans voru réttar og hverjar voru rangar.
2. Fékkstu svör við spurningum þínum? Mundu að þú færð ekki endilega svör við öllum þínum spurningum hér og nú. Þú gætir þurft að leita víðar og lesa fleira. Slíkar vangaveltur auðvelda þér að muna það sem verið var að fjalla um í textanum.
3. Reyndu að flokka og draga saman lykilatriðin. Gagnlegt er að koma því yfir í eins einfalt form og hægt er, svo auðvelt sé að muna það, t.d. fyrir próf.
Gagnlegt er að:
- Flokka efnið, setja upp í atriðaskrá og númera efnisatriði. Þannig verður auðveldara fyrir þig að leggja á minnið og rifja upp, einkum þegar efnið er flókið og tíminn naumur.
- Teikna myndir til skýringa eða setja upp í einhvers konar myndrænt form og raða eftir atburðarás. Það auðveldar þér að muna það sem þú hefur lesið.
4. Reyndu að sjá fyrir þér heildarmynd af því sem þú hefur lært, jafnvel rissa eða teikna upp eina skýringamynd af því. Veltu fyrir þér hvernig þú getur nýtt þér efnið í verkefnavinnu ásamt gagnsemi og/eða mikilvægi þess fyrir þekkingaröflun þína. Reyndu að setja fram nýjar spurningar sem þig langar að fá svör við í framhaldinu.
5. Athugaðu hvort þú getur yfirfært þessa þekkingu eða færni yfir á aðrar aðstæður, eða í annað samhengi.
(Byggt á LaVonne S. Lee, (1995) í Journal of Reading)
© Steinunn Torfadóttir
Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer