You are here

Kennsluaðferðir - Lesfimi

                                                                                                                                                                     


Lesfimi: Brúin á milli umskráningar og lesskilnings (sjá einnig skilgreiningu á lesfimi)

Sjálfvirkni tengir umskráningu við orðþekkingu, en hún felst í nákvæmri og fyrirhafnarlausri umskráningu (sjálfvirkum lestri) þannig að lesandinn geti beint athyglinni svo til eingöngu að lesskilningi.

Hrynrænir þættir tungumálsins  tengja lesfimi við lesskilning og vísa til þess hvernig lesandi beitir röddinni við upplestur. Ekki er talið mögulegt að beita blæbriðgðum talmálsins ( þ.e. áherslum, hnigi og risi raddarinnar og flokka orðin saman í viðeigandi hendingar) öðru vísi en að hafa skilning á lesefninu (Rasinski og Samuels, 2011:95). Mikilvægi þess að lesa í samræmi vð hrynræna þætti tungumálsisn er augljóst við upplestur og gerir lesturinn áheyrilegri. Rannsóknir sýna jafnframt að þeir sem hafa þessa kunnáttu á valdi sínu sýna mun betri lesskilning en þeir sem lesa eintóna án tilþrifa,  hvort sem lesið er upphátt eða í hljóði (Rasinski, Rikli og Johnston, 2009).  

Hvers vegna er mikilvægt að efla og þjálfa lesfimi?

Nemendur með góða lesfimi hafa yrifleitt góðan lesskilning sem auðveldar annað nám og eykur sjálfstraust þeirra. Þeim finnst lestur skemmtilegur og árangursríkur og kjósa því oft að lesa umfram annað sem er í boði sem eflir lesfimi þeirra enn frekar (Daly, Chafouleas og Skinner, 2005).                                                                                                                                                      

Hvað þurfa kennarar að vita um lesfimi?

Börn öðlast ekki lesfimi nema með mikilli þjálfun ekki ólík þeirri sem þarf að fara í gegnum til þess að vera fær um að hjóla, aka bíl, leika á píanó eða skrifa á lyklaborð án fyrirhafnar, með vel samhæfðum hreyfingum, oft ómeðvitað og hratt. Hraðinn fer þó eftir aðstæðum, en góð færni felst einnig í því að geta brugðist við óvæntum uppákomum og mismunandi aðstæðum. Öll undantalin færni lærist smám saman, farið er afar hægt til að byrja með en síðan eykst færnin með æfingunni. Takmarkið er að ná eins góðri leikni og hægt er á sem styttstum tíma til þess að geta notið þess að beita henni (Fountas og Pinnell, 2006). Þegar því marki er náð er færnin oftast orðin sjálfvirk og krefst ekki lengur meðvitaðrar athylgi (LaBerge og Samuels, 1974; Logan, 1988). Það gefur auga leið að barn sem þekkir illa bókstafi og hljóð og á erfitt með að beita umskráningarferlinu  hefur lítið svigrúm til að gefa lesskilningi gaum. Þess vegna er mikilvægt að þjálfa alla undirstöðuþætti lestrarins vel (Wolf og Katzir-Cohen, 2001). Í framhaldi þess hefst hin eiginlega lesfimiþjálfun sem felst í að barnið læri að lesa samfelldan texta óhindrað, án fyrirhafnar, með réttu hljóðfalli og skilningi  (Kuhn, Schwanenflugel, Meisinger, 2010).

Hvernig er hægt að stuðla að góðri lesfimi strax við upphaf lestrarnámsins?

Segja má að lesfimiþjálfun sé stigskipt og til að tryggja góðan árangur með lestrarnáminu er gott að hafa hana í huga strax við upphaf lestrarnámsins. Barn byrjar á því að læra að stafir standa fyrir hljóð bókstafanna og að hægt er að tengja þá saman með mismunandi hætti til að mynda orð, bæði með og án merkingar. Það er hins vegar ekki nóg að barn læri bókstafi og hljóð utan að. Það þarf líka að geta kallað þá hratt og örugglega fram úr minninu ásamt hljóðunum sem þeir standa fyrir til að auðvelda samtengingu og sundurgreingu þeirra við lestur (Adams, 1990; Hudson, 2011).

Eftirfarandi þjálfunaræfingar má nota til þess að festa stafi og hljóð betur í sessi sem og að stuðla að hraðari endurheimt þeirra úr minninu:

  1. Stöðug upprifjun á stöfum og hljóðum sem nemendur kunna þegar.
  2. Fletta stafaspjöldum með stöfum sem nemendur kunna og láta nemendur segja þá eins hratt og þeir geta. Hægt er að láta tvo og tvo nemendur vinna saman og jafnvel að taka tímann.
  3. Para saman stóra og litla bókstafi sem eiga saman.
  4. Stafabingó með stöfum sem búið er að kenna.
  5. Lesa stafi, samstöfur og stutt orð sem nemendur eru búnir að þjálfa eins hratt og nemendur geta.
  6. Skrifa hratt eða innan ákveðinna tímamarka stafi og samstöfur sem nemendur eru búnir að þjálfa.
  7. Syngja sérhljóðavísuna og stafrófsvísurnar.
  8. Endurtaka alla ofangreinda þætti nokkrum sinnum þannig að nemendur upplifi sífellt meiri leikni við að leysa verkefnin (Byggt á The Florida Center for Reading Research, 2007; Scanlon o.fl., 2010; Tankersley, 2003)

Eftir því sem stafaþekking eykst geta börn lesið fleiri og flóknari orð og setningar. Þá er kominn tími til að þjálfa nemendur í að lesa stök orð, stuttar setningar og afar stutta og afmarkaða lestexta til að stuðla að auknum sjónrænum orðaforða og meiri lesfimi. Mikilvægt er að hafa orðin, setningarnar og litlu lestextana á nákvæmlega réttu þyngdarstigi miðað við getu hvers og eins nemanda. Ef texti er of þungur er hætta á að nemendur fari að giska, þróa með sér rangar lestraraðferðir og missi trú á getu sinni. Mikilvægt er að sjá til þess að nemendur vinni stöðuga sigra til að efla áhuga þeirra og sjálfstraust við lestrarþjálfunina. Hér fyrir neðan má sjá dæmi um verkefni sem geta stuðlað að aukinni lesfimi:

Búa til orðaspjöld úr lestrarbókum og textum sem börnin eru farin að ráða við. Láta þau lesa spjöldin eins hratt og þau geta og endurtaka lesturinn tvisvar til þrisvar sinnum. Hægt er að láta tvo og tvo vinna saman og jafnvel að mæla tímann og setja upp línurit til að sýna nemendum fram á aukinn árangur með hverri endurtekningu.

  1. Láta nemendur lesa orðalista, stuttar setningar og stutta lestexta og nota sama fyrirkomulag og lýst er í fyrsta lið.
  2. Kennari les fyrst eina setningu til að sýna góða fyrirmynd. Hann lætur síðan nemendur lesa sömu setningu með sama hætti. Kennari les næstu setningu og síðan koll af kolli. Hægt er að vinna með þessum hætti með öllum nemendum bekkjarins í einu, en yfirleitt er betra að nota aðferðina í litlum hópum þar sem betur er hægt að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda. Einnig er hægt að láta tvo og tvo nemendur vinna saman.
  3. Nota sama fyrirkomulag og lýst er í lið 3 til að lesa stutta afmakraða lestexta.
  4. Láta nemendur æfa bæði í hljóði og upphátt afmarkaðan lestexta, t.d. stutta vísu til að lesa upp. Leiðbeina þeim, helst einum og einum, með upplesturinn. Nemendur lesa síðan upp fyrir nemendur bekkjarins þegar þeir eru orðnir öruggir og geta lesið textann/vísuna upp án hnökra. Mikilvægt er að uppörva nemendur og vera ekki spar á hrósið (Byggt á The Florida Center for Reading Research, 2007; Bear o.fl., 2004; Tyner, 2004; Walpole og McKenna, 2007).

Lestrarfærnin eykst síðan smám saman, oftast í réttu hlutfalli við þjálfun, og nemendur fara að ráða við sífellt þyngri lestexta (Guthrie, 2004). Nota má áfram svipaðar þjálfunaraðferðir en með stigþyngjandi lesefni. Ávallt ber að velja lesefni í samræmi við lestrarfærni nemenda.

Lesfimiþjálfun þegar börn hafa náð tökum á undirstöðufærni lestrar

Mikilvægt er að fylgjast vel með framförum nemenda og meta stöðuna með jöfnu millibili. Þannig er hægt að aðlaga kennsluhætti jafnt og þétt að vaxandi getu nemenda og bregðast við ef illa gengur. Bent er á að nota stöðluð próf, orðalista og samfelldan texta, sem gefin voru út af Námsmatsstofnun (Helga Sigurmundsdóttir, Steinunn Torfadóttir og Sigurgrímur Skúlason, 2010) til að skoða stöðu nemenda miðað við jafnaldra.

Algengast er að meta raddlestur út frá leshraða, sem felst í að mæla hversu mörg orð eða atkvæði nemendur lesa að meðaltali  á mínútu. Slík próf geta gefið ágætar upplýsingar um stöðu nemenda varðandi sjálfvirkni (sjónrænan orðaforða), öryggi og nákvæmni.  En þau hafa verið gagnrýnd á þann veg að ekki sé tekið nægilegt tillit til framsagnar og lesskilnings (Khun o.fl., 2010).

Samkvæmt McKenna og Stahl (2003, 2009) og Allington (2009) þá er algengt að nota viðmið sem þróuð voru fyrir National Assessment of Educational Progress (NAEP) til að meta lesfimi nemenda í 4. bekk. Þar er lögð áhersla á  hrynræna þætti, þ.e. áferð lestrarins sbr. nýleg skilgreining á lesfimi.

                                                                                              

Viðmið NAEP sem sjá má hér að ofan gefa heildarmynd af lesfimi og sýna hvernig hún er talin þróast frá stigi 1 til 4 og gefa þannig leiðbeiningar um hvert stefna beri með kennslunni. Þau er hægt að nota við allar gerðir texta, mismunandni þunga, en það er afar mikilvægt að velja lesefni af réttu þyngdarstigi bæði til að meta og þjálfa lesfimi. Algengt er að miða  lestexta til lesfimiþjálfunar við að nemendur geti lesið hann af 93-95% öryggi. Það þýðir að nemendur lesi ekki fleiri en 5-7 orð rangt í 100 orða texta.

Þegar búið er að velja lesefni á réttu þyngdarstigi er ráðlegt að beita  kennsluaðferð sem felur í sér góða fyrirmynd að lestri og endurtekinn lestur. Halda þarf þjálfuninni áfram þangað til lesturinn er orðinn í takt við lýsingu á stigi 3-4. Eftir að þeim árangri er náð má þyngja lesefnið. Ekki er ætlast til að mjög ungir nemendur nái þessum viðmiðum. Fyrst þurfa þeir eru að tileinka sér umskráningarfærni, efla sjónrænan orðaforða og lesskilning sem eru forsendur góðrar lesfimi.

Víðtækar rannsóknir á lestrarkennsluaðferðum (Chard, Vaughn og Tyler, 2002; Kuhn og Stahl, 2003; National Reading Panel, 2000; Shanahan, 2005, 2006) gefa til kynna að árangursríkustu aðferðir til að kenna lesfimi  feli í sér þrjá þætti. Þeir eru:

·         endurtekinn lestur (repeded reading)

·         góð fyrirmynd að lestri (modeling)

·         markviss leiðbeining jafnóðum og lesið er (guided reading)

Til eru margar aðferðir til að þjálfa hvern ofantalinn þátt, sjá t.d. í kennslubókum Walpole og McKenna (2007, 2009), í Íslensku í 3. og 4. bekk. Handbók kennara (Hlín Helga Pálsdóttir, Ragnheiður Hermannsdóttir og Helga Sigurmundsdóttir, 2011) og í Handbók Leiðar til læsis (Helga  Sigurmundsdóttir, 2012). Einnig  hafa verið þróaðar aðferðir þar sem allir ofantaldir þættir eru sameinaðir. Dæmi um slíka aðferð er svokölluð Samþætt lesfimikennsla (e. Fluency Oriented Reading Instruction, skammstafað FORI), en rannsóknir gefa til kynna að hún sé afar árangursrík (Stahl og Heubach, 2005) .

FORI : Kennslan er skipulögð fyrir eina viku í senn, en hægt er að nota hana í litlum hópum og einnig fyrir heilan bekk. Nemendur fá mikinn stuðning og aðstoð í upphafi en ætlast er til að þeir geti lesið sama lesefni með sjálfstæðum hætti í lok vikunnar. Lögð er mikil áhersla á að glæða lesskilning, sérstaklega við upphaf kennslunnar þegar sagan er kynnt. Vinnuferlið er eftirfarandi:

• Kynning á lesefni (dagur 1): Kennari kynnir bakgrunn sögunnar og útskýrir erfið orð. Síðan les hann efni dagsins upphátt fyrir nemendur og leiðir umræður um efnið.

• Bergmálslestur (dagur 2): Kennari les tvær til þrjár setningar í einu og nemendur endurtaka lesturinn á sama hátt. Nemendur fá verkefni sem tengjast lesskilningi. Nemendur æfa sama kafla heima með foreldrum/forráðamönnum.

• Kórlestur (dagur 3): Nemendur lesa allan textann saman upphátt. Kennari fylgist með að allir taki þátt í lestrinum. Nemendur sem ekki hafa náð góðum tökum á lestrinum fara aftur heim með leskaflann til að æfa þar. Þeir sem þegar hafa náð góðu valdi á textanum lesa að eigin vali.

• Félagalestur (dagur 4): Nemendur lesa sama tveir og tveir og skiptast á að lesa og fylgjast hvor með öðrum. Sá sem fylgist með lestrinum er ábyrgur fyrir því að félagi hans lesi rétt og með áheyrilegum hætti. Ef tími vinnst til fara nemendur aðra umferð yfir lesefnið. Nemandi og félagi hans lesa sögu saman. Nemendur fá nú síðasta tækifæri til að æfa sig heima.

• Viðbótarverkefni (dagur 5): Nemendur ljúka verkefnum í tengslum við lesefni vikunnar eða vinna önnur verkefni sem ekki tengjast því. Kennari getur einnig notað tímann til að meta framfarir þeirra (Kuhn og Woo, 2008).

READ 180: Önnur samtengd aðferð sem lofar góðu samkvæmt rannsóknum er nefnd READ 180 (Scholastic, 1999). Hún var þróuð til að kenna framhaldsskólanemum umskráningu, lesfimi og lesskilning og er þar stuðst við margmiðlunartækni (Goin, Hasselbring og McAfee, 2004).

Nemendur byrja á að horfa á stutt myndband eða myndbandsbút sem gefur þeim  bakgrunnsupplýsingar um efni sem þeir eiga að lesa.

Eftir að hafa horft á myndbandið hlusta þeir á textann upplesinn og fylgjast með á eigin afriti. Síðan lesa þeir textann með sjálfstæðum hætti.

Kennt er í litlum hópum þar sem kennari getur fylgst með vibrögðum nemenda og aðstoðað þá við að vinna lesskilningsverkefni, skilja orðaforða og aðlaga efnið að þeim.

Stafsetning er einnig unnin út frá myndbandi.

Kennarar velja aðra texta til frekari lestrarþjálfunar í samræmi við frammistöðu nemenda (O‘Connor og Goodwin, 2011).

Lesendur nýta sér allar alla lærða færni til þess að geta lesið texta af mikilli lesfimi, en það eru sömu færniþættir sem stuðla að góðum lesskilningi. Að hafa þekkingu á bakgrunni lestexta auðveldar lestur hans og orðskilning. Reynsla af sambærilegurm textum, bæði varðandi efni og uppbyggingu, hjálpar til við lesturinn. Góð umskráningarfærni gerir lesturinn liðlegri þar sem lesandi getur lesið langa kafla hans nákvæmlega rétt og einbeitt sér að merkingu hans.  Því betur sem lesendur geta skilið textann og tengt efni hans við eigin reynslu  og/eða upplifun af fyrri lestri því betur gengur þeim að lesa í takt við hrynræna þætti tungumálsins, þ.e.  að lesa  í samræmi við talað mál með réttum áherslum, hljómfalli og hrynjandi (Fountas og Pinnell, 2006).

© Helga Sigurmundsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer