You are here

Félagalestur

 Félaga-lestur

Peer assistand learning strategies (PALS)  sem hlotið hefur nafnið Pör að læra saman á íslensku er afar vel rannsökuð og áragnursrík kennsluaðferð til að þjálfa lesfimi og lesskilningsaðferðir í blönduðum bekkjardeildum (McMaster,Fuchs og Fuchs, 2006; Maheady og Harper, 2003).

Til eru 4 flokkar PALS aðferðarinnar sem ætlaðir eru nemendum á mismunandi aldri:

K-PALS (Kindergarten-PALS) ætlað 4-5 ára börnum,

First grade PALS, ætlað nemendum 1. bekkjar

PALS fyrir 2.- 6. bekk

PALS fyrir unglinga (highschool-PALS) sjá nánar á http://kc.vanderbilt.edu/pals/reading.html

Vinnuferlið

Umsjónarkennari styðst við niðurstöður úr lesfimiprófum til að para nemendur, tvo og tvo saman. Hann byrjar á að skipta nemendahópnum í tvo hópa þá sem lesa hratt og þá sem lesa ekki eins hratt. Eftir það parar hann þá sem lesa hraðast  innan hvors hóps saman, síðan þá sem lesa næst hraðast og síðan koll af kolli þar til búið er að para saman alla nemendur. Með þessu fyrirkomulagi er talið að tryggt sé að ekki verði of mikið misvægi á getu þeirra sem vinna saman.

Kennari velur síðan lesefni af hæfilegri þyngd og miðar þyngdarstigið ætíð við slakari lesandann og kennir þeim að lesa samkvæmt eftirfarandi leikreglum:

Lesandinn sem stendur betur að vígi les fyrst í 5 mínútur, félagi hans (í hlutverki leiðbeinanda) fylgist með að rétt sé lesið.

Ef lesandi les rangt biður leiðbeinandinn hann um að stoppa, leiðrétta sig og lesa alla setninguna eða málsgreinina aftur. Leiðbeinandi aðstoðar við að lesa rétt ef með þarf.

Þegar lesandinn hefur lesið í 5 mínútur færir leiðbeinandi inn fjölda lesinna orða og félagarnir skipta síðan um hlutverk.

Eftir að báðir nemendur hafa lesið sama texta í 5 mínútur hvor æfa þeir sig í að beita lesskilningsaðferðum með markvissum hætti, þ.e. að veita aðalatriðum athygli, draga þau saman og spá fyrir um það sem kemur næst í sögunni. Til þess að vel takist til þurfa kennarar að kenna nemendum aðferðirnar með beinum hætti og taka tíma í að þjálfa þá í að beita þeim (Bergljót V. Jónsdóttir, 2010; Brownell, Smith, Crockett og Griffin, 2012, sjá einnig á http://kc.vanderbilt.edu/pals/).

PALS á Íslandi

Haustið 2009 var hafist handa við að þýða og innleiða PALS aðferðina  á íslandi  að frumkvæði Huldu Karenar Daníelsdóttur, kennsluráðgjafa. Vorið áður samþykktu Skólaskrifstofa Mosfellsbæjar, ásamt skólastjórum leik- og grunnskóla bæjarins að fara í samstarf við Huldu Karenu og SÍSL hópinn (Samfélag í skóla sem lærir) um innleiðingu á PALS læsisaðferðinni í skólum sveitarfélagsins.

Hulda Karen hafði í kjölfarið milligöngu um að fá Kristen L. McMaster frá University of Minnesota til að kenna á þriggja daga námskeiði sem haldið var í Mosfellsbæ. Nú er búið að þýða og staðfæra talsvert af efninu og haldin hafa verið námskeið fyrir þá sem áhuga hafa á að kynnast þessari aðferð, sjá nánar í skýrslu sem gefin var út í júní 2012 http://www.rha.is/static/files/skolaskrifstofa_mosfellsb_nr36_pals_lokaskyrsla.pdf og á vefsíðu SÍSL-hópsins http://tungumalatorg.is/sisl/pals/

Classwide peer tutoring (CWPT) er annað dæmi um lestrarkennsku aðferð sem byggir á félagastuðningi. Hún byggir í meginatriðu á sömu aðferðum og lesfimihluti PALS aðferðarinna og  hefur verið notuð með góðum árangri til að þjálfa lesfimi í Bandaríkjunum undanfarin 30 ár (Maheady og Harper og Mallette 2003)

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer