You are here

Hljóðkerfisvitund

Þjálfun hljóðkerfisvitundar

Skýrsla NERP (National Early Litaracy Panel, 2004, 2008) sýnir með óyggjandi hætti að hljóðavitund er mikilvæg forsenda lestrar og að  þjálfun hennar skilar góðum árangri fyrir lestrarnámið. Niðurstöður rannsóknanna sýna sterkust tengsl við umskráningarfærni, en gefa jafnframt til  kynna jákvæð áhrif á lesskilning.

Hljóðkerfisvitund (phonological awareness) er vitundin um að hægt er að greina talmálið í smærri einingar eins og:

 • orð (word),
 • atkvæði (syllable),
 • upphafshljóð/stuðul og rím/rímhluta (onset-rime) (Stuðull atkvæðis  er samhljóð eða samhljóðasamband á undan sérhljóði atkvæðisins,  t.d. d í orðinu dót. Einkvæð orð/atkvæði sem byrja á sérhljóðum hafa ekki stuðul, t.d. orðin ól og ár. Rímhluti er sérhljóð atkvæðisins ásamt samhljóðunum sem á eftir koma, t.d. ót í orðinu dót (Adams, 1990;  Kristján Árnason, 1984)
 • stök hljóð (phonemes)

Hljóðkerfisvitund felur einnig í sér hæfni til að:

 • ríma (rhyming): að greina hvað er líkt í enda orða
 • greina stuðla (alliteration): að greina líkindi í upphafi orða, t.d. Stebbi stóð á ströndu
 • tengja (blending): að tengja saman hljóðeiningar,  t.d. atkvæði eða stök hljóð
 • sundurgreina (segmenting): að greina orð í smærri hljóðeiningar, t.d.  atkvæði og stök hljóð.
 • vinna með misstórar hljóðeiningar og stök hljóð með meðvituðum hætti (manipulating):  að geta eytt/tekið burt, bætt við og sett í staðinn  (Phillips og Torgesen, 2006; Vaughn o. fl., 2011 ).

Talið er að hljóðkerfisfærni þróist með stigbundnum hætti frá stærri hljóðeiningum til hinna smærri (Ziegler og Goswami, 2005). Samkvæmt því læra börn fyrst að greina rím og atkvæði. Síðan verða þau fær um  greina atkvæði í tvo hluta sem nefnast stuðull (onset) og rímhluti (rime). Að lokum verða börnin fær um að greina stök hljóð orða (hljóðavitund) sem er undirstaða lestrarnámsins.

Hljóðavitund (phonemic awareness) er mikilvægasti og jafnframt flóknasti þáttur hljóðkerfisvitundar og sá sem tengist mest þróun lestrar og ritunar (Snow, Burns & Griffin, 1998). Hér fyrir neðan má sjá dæmigerð verkefni sem notuð eru til að prófa hljóðavitund.  Þau eru sett upp með stigþyngjandi hætti þannig að auðvelt er að sjá hvar barn stöðvast og í framhaldi þess hvaða þætti þarf að leggja áherslu á í kennslu. Við prófun er mikilvægt að tryggja að barn skilji öll hugtök sem notuð eru eins og fremst, aftast, í miðju og byrjunarhljóð.

1. Að einangra hljóð/fónem, sem felst í að barn þekki og geti greint stök hljóð orða, t.d. hvað er fyrsta hljóð (endahljóð, miðjuhljóð) orðsins mús? (/m/ /ú/ /s/).

2. Að greina sama hljóð í orðum, t.d. hvaða hljóð (bókstafur) heyrist í öllum eftirfarandi orðunum? Dæmi: bíll, bolti, Bára (/b/) ).

3. Að flokka hljóð, t.d. hvaða orð byrjar ekki á sama hljóði og hin orðin sem talin eru upp? Dæmi:  Sól, sími, tunna (tunna).

4. Að tengja saman hljóð (hljóðtenging). Barn hlustar á röð aðskilinna málhljóða og tengir þau saman í merkingarbært orð. Dæmi: Hvaða orð mynda hljóðin /s/ /ó/ /l/? (sól).

5. Að sundurgreina hljóð, t.d. þegar barn greinir stök hljóð orða með því að leggja kubb fyrir hvert hljóð sem það greinir og segir það upphátt um leið. Dæmi: Hvaða hljóð eru í orðinu rúm? ( /r/ /ú/ /m/).

6. Að taka burtu hljóð úr orðum (hljóðeyðing). Barn finnur hvernig orð breytist þegar eitt hljóð tiltekins orðs er tekið í burtu. Dæmi: Hvað verður eftir af orðinu mamma þegar búið er að taka hljóðið /m/ í burtu?(amma).                                                                                                                                                 (NICHD, 2000:2-10).

Hvernig er best að þjálfa hljóðkerfis- og hljóðavitund?

Við skipulag kennslunnar er mikilvægt að hafa í huga stigbundna þróun hljóðkerfisvitundarinnar og miða þyngd verkefna við getu barnanna. Yfirleitt reynist börnum auðveldara að vinna með stærri einingar en smærri, t.d. er auðveldara að vinna með atkvæði, stuðla (upphafshljóð) og rím en með stök hljóð. Þess vegna eru verkefni sem felast í að vinna með stærri hljóðeiningar gjarnan notuð til að undirbúa og þjálfa nemendur áður en þeir eru færir um að vinna með stök hljóð orðanna. Markviss þjálfun hljóðkerfisvitundar byggist því á þekkingu á því hvernig dæmigert barn öðlast þessa mikilvægu færni (Gillon, 2007; Tolman, 2005; Walpole og McKenna, 2007).

Við upphaf grunnskólans eru nemendur misjafnlega á vegi staddir.  Sumir nemendur þurfa að byrja á að greina orð í atkvæði en aðrir geta byrjað strax á sundurgreiningu hljóða. Niðurstöður skimunarprófa (Hljóm 2 og Leiðar til læsis) gefa m.a. vísbendingar um hvar hver nemandi er staddur í hljóðkerfisfærni og hvar byrja þarf þjálfunina. Barn sem kann að sundurgreina hljóð getur örugglega greint forhljóð, enda- og miðjuhljóð og því þarf ekki að eyða tíma í að þjálfa þá þætti sérstaklega og hægt er að byrja strax á þyngri verkefnum (Walpole og McKenna, 2007; Scanlon o.fl., 2010).

Mikilvægt er að þjálfa hljóðavitundina í beinum tengslum við lestrarkennsluna. Slík vinnubrögð stuðla að yfirfærslu og skila mun betri árangri en þegar hún er þjálfuð ein og sér úr tengslum við lestrarnámið (Shanahan, 2005, 2006). Einnig ber að varast að þjálfa prófatriði beint og hafa í huga möguleg þjálfunaráhrif við endurmat á stöðu barna í hljóðavitund. Í niðurstöðu-skýrslu NRP (2000) kom fram að þjálfun hljóðavitundar hefur jákvæð langtímaáhrif og leiðir til framfara í umskráningu, stafsetningu og lesskilningi. Tenging (blending) og sundurgreining (segmenting) reyndust áhrifaríkastar af mörgum leiðum til að þjálfa hljóðavitund. Kennsla þar sem bókstafir, ýmist úr plasti, tré eða pappa, voru notaðir við þjálfunina var tvöfalt áhrifameiri en þegar engir stafir voru notaðir (Ehri, 2004; NRP, 2000; Scanlon o.fl., 2010; Notari-Syverson, O´Connor og Vadasy). Ástæða þess er m.a. að bókstafirnir eru áþreifanleg stöðug tákn fyrir hljóð sem standa stutt við í einu og erfitt er að greina.

Dæmi um aðferðir til að þjálfa hljóðavitund.

   

Að flokka/greina forhljóð

 • Notaðar eru myndir og lausir bókstafir.
 • Nemandinn á að greina forhljóðin og flokka myndir eftir upphafshljóðum.

Mikilvægt er að byrja á ólíkum hljóðum og láta nemendur aðeins greina á milli tveggja hljóða til að byrja með síðan má fjölga þeim. Hægt er að þyngja verkefnin smám saman og láta nemendur flokka myndir eftir endahljóði, öðrum eða þriðja hljóði/staf í orði.

Að greina forhljóð, upphafshljóð og rím

 • Nemendur fá spjöld þar sem gefin eru upp ólíkir rímhlutar atkvæða eða orða. Þeir fá einnig laus orð sem ríma við rímhlutann.
 • Nemendur eiga síðan að finna rímorðunum réttan stað og fylla spjöldin.

Nemendur byrja yfirleitt með tvö spjöld, en þegar þeir eru orðnir þjálfaðir í verkefninu fá þeir að hafa mun fleiri spjöld undir. Nemendur geta einnig unnið verkefnið tveir og tveir saman.

Að segja og færa (Say-it-and-Move-it)

 • Aðferðin felur í sér að nemendur sundurgreina hljóðin fyrst og tengja þau síðan saman.
 • Nemendur nota hluti t.d. kubba, plastdýr, broskarla og setja í þar til gerða reiti eða box, einn hlut fyrir hvert hljóð sem þeir greina í orði.
 • Síðan er auðvelt að yfirfæra þekkinguna og vinnubrögðin yfir á bókstafina þannig að nemendur setja bókstafi inn í rétta reiti.

Hlutverk kennarans er að velja orð, segja þau upphátt og fylgja nemandanum eftir (Walpole og Mckenna, 2007; Vaughn o.fl., 2011; Helga Sigurmundsdóttir, 2012).

© Helga Sigurmundsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer