You are here

Leikskólaaldur

Áhrifaþættir við eflingu læsis ungra barna

Heimili og annað umhverfi ungra barna hefur veigamikil áhrif á viðhorf þeirra til læsis og læsistileinkun. Þáttur foreldra ræðst t.d. af viðhorfi til læsis, sýnilegum lestrar- og ritunarathöfnum þeirra, bókakosti heimilis og hversu mikið er lesið fyrir börnin eða þau hvött til læsisathafna. Hugtakið fjölskyldulæsi hefur verið notaðar um  læsisathafnir á heimili. Morrow (2012) segir fjölskyldulæsi m.a. felast í því á hvern hátt foreldrar, börn og aðrir fjölskyldumeðlimir nota læsi heima og í víðu samhengi í eðlilegum athöfnum daglegs lífs. Í því felst t.d. að skrifa minnismiða, fylgja leiðbeiningum, deila sögum og hugmyndum í gegnum samræður, lestur eða ritun. Læsið er notað bæði markvisst og eftir hentugleikum eftir því sem aðstæður gefa tilefni til. Bókasafnsferðir, lestur til ánægju og ritun af ýmsum toga heyrir til fjölskyldulæsis. Læsisathafnir tengjast einnig menningu og félagslegum bakgrunni fjölskyldunnar. Börn alast upp við mismikla læsismenningu sem vitaskuld hefur áhrif á  læsisvitund þeirra. 

Leikskólinn hefur einnig áhrif á vitund, viðhorf og læsisnám ungra barna. Læsi og samskipti er eitt af námssviðum leikskólans það er skilgreint sem þekking, leikni og hæfni barna til að lesa í umhverfi og  tjá upplifun, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt. Í Aðalnámskrá  kemur fram að námssviðin skuli m.a. vera hluti af leik, vera samþætt og byggjast á reynslu og áhuga barnanna, einnig er þeim ætlað að hvetja til samvinnu, frumkvæðis og sköpunar og vekja áhuga á námi. Önnur lykilhugtök tengd læsi eru mál, tjáning, hlustun, umræða, sköpun, ritun, tákn, upplifun, menning og aðgengi að tækni og öðrum læsistengdum miðlum (Aðalnámskrá leikskóla, 2011). Þessi lýsing felur í sér að leikskólinn leggur ekki upp með formlega læsiskennslu heldur er hún samþætt leikskólastarfinu í heild og á forsendum barnsins. Tengsl læsis og samskipta styrkja jafnframt þá hugsun að læsi lærist í samskiptum við aðra samanber skilgreiningu á bernskulæsi fremst í þessum kafla. Með læsi í leikskóla er átt við vinnu með læsi í gegnum mál og samskipti á sem fjölbreytilegastan hátt.

© Halldóra Haraldsdóttir

 

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer