You are here

Mikilvægi leikskólaáranna

Mikilvægi leikskólaáranna í þróun læsis

Rannsóknir benda til þess að mikill einstaklingsmunur sé á flestum þáttum læsis strax í upphafi lestrarnáms og sé ekkert að gert aukist sá munur frekar en minnki þegar líða tekur á skólagönguna (Sideridis, 2011; Stanovich, 1986). Lestrarnám íslenskra grunnskólabarna virðist engin undantekning þar á. Nýleg rannsókn á framförum íslenskra nemenda í lestri sýndi til dæmis mikinn mun á milli einstaklinga þegar í fyrsta bekk og hélst sá munur þau þrjú ár sem rannsóknin náði yfir. Slakasti fjórðunur nemendanna tók takmörkuðum framförum á tímabilinu og í lok þriðja bekkjar munaði um það bil tveimur árum á lestrarfærni þess hóps og þeirra 25% barna sem stóðu sig best (Freyja Birgisdóttir, 2011).

Það er því til mikils að vinna að reyna öðlast skilning á hvað hefur áhrif á gengi barna í lestri og finna í framhaldi af því leiðir til þess að efla færni þeirra á því sviði. Þannig má draga úr líkum á því að upp komi vandi seinna meir. Í þeim tilgangi hafa vísindamenn í auknum mæli horft til leikskólaáranna. Séu rannsóknir á læsi síðastliðna tvo áratugi eða svo skoðaðar má sjá að stór hluti þeirra fjallar um börn á leikskólaaldri. Þessar rannsóknir hafa leitt í ljós að á þeim tíma er í smíðum mjög mikilvægur grunnur sem getur skipt sköpum fyrir hvernig börnum gengur að tileinka sér lestur og ritun þegar í skólann er komið. Ýmsar hliðar málþroska eru hér oftast nefndar, eins og t.d. orðaforði og næmi barna fyrir hljóðkerfi tungumálsins, en einnig hefur komið í ljós að þættir eins og lestrarvenjur fjölskyldunnar, viðhorf barna til lesturs og þekking þeirra á ritmáli almennt skiptir miklu máli fyrir gengi þeirra í læsi þegar í grunnskólann er komið. Þessi hluti læsisþróunarinnar er oft kallaður bernskulæsi (emergent literacy).

 

© Freyja Birgisdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer