Byrjendalæsi
Meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni. Þegar börn hefja nám í 1. bekk eru þau misjafnlega á vegi stödd. Sum þekkja stafi, önnur eru farin að lesa og svo er hópur sem þarf að læra alla stafina og hvernig á að vinna með þá. Byrjendalæsi gerir ráð fyrir því að hægt sé að kenna börnum sem hafa ólíka færni í lestri hlið við hlið og því er lögð áhersla á hópvinnu um leið og einstaklingsþörfum er mætt.
Byrjendalæsi hefur verið þróað á vegum Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri í samvinnu við sex skóla á Norðurlandi skólaárin 2004 til 2006 undir forystu Rósu Eggertsdóttur. Sé meðtalinn veturinn 2012-2013 hafa alls um 80 skólar af 170 víðs vegar um landið átt samstarf við HA um innleiðslu aðferðarinnar. Ráðgjafar frá HA, þær Jenný Gunnbjörnsdóttir, Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir, Þóra Rósa Geirsdóttir og Hólmfríður Árnadóttir.
Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð ætluð til læsiskennslu barna 1. og 2. bekk. Við mótun aðferðarinnar var einkum sótt til Frost (1983a, 1983b, 1984), Gudschinsky (1965, 1970; Lee, 1982), Solity (1999, 2003), Leimar (sjá Bryndís Gunnarsdóttir 1988), NRP (2000), Rumelhart (1985) og Zakaluk (1982/1996), auk NRP2000 rannsóknarinnar en þar sem kemur fram mikilvægi þess að kennsluaðferðir í læsi feli í sér nálgun sem ná til allra þátta móðurmálsins. Þannig er vinna með tal, hlustun, lestur og ritun felld í eina heild undir hatti læsis. Ennfremur eru sértækir þættir móðurmálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, skrift, orðaforði, setningabygging og málfræði tengd inn í ferlið.
Byrjendalæsi – aðferðin
Meðal forsendna sem lagðar voru til grundavallar við mótun Byrjendalæsis voru eftirtaldir þættir:
Byrjendalæsi er í þremur þrepum (mynd 1). Í fyrsta þrepi kynnast nemendur gæðatexta. Í öðru þrepi vinna nemendur með tæknilega þætti lestrarnáms og í þriðja þrepi semja þeir efni á grunni upphaflegs texta. Tæknileg vinna með letrið og hljóðin fer fram innan orðaforða textans á hverjum tíma. Eftir því sem færni nemenda eykst er markvisst stutt við sjálfstæði þeirra í vinnubrögðum. Gengið er út frá því að lestrarkennsla fari fram tvisvar til þrisvar á dag, fimm daga vikunnar, að lágmarki í 90 mínútur á dag. Þvert á þrepin þrjú á sér stað mikill lestur nemenda. Mikið er lagt upp úr félagastuðningi nemenda í lestrarnámi og því vinna þeir oft í hópum. Leikir og spil tryggja samskipti þar sem nemendur í senn styðja hver annan og keppa að því að ná árangri. Þar eru hlutverk og reglur sem fara þarf eftir. Nemendur verða virkir þátttakendur og námið verður skemmtilegt. Kennarar semja formlega kennsluáætlun fyrir hverja viku.
1. þrep. Inntak texta
Gæðatexti upplestur, umræður, upprifjun, þátttökulestur |
2. þrep. Tæknilegir þættir lestrarnáms
Sundurgreinandi og samtengjandi viðfangsefni hljóðvitund, skoðun á ritmáli, stafir, orðhlutar, orð lykilorð |
3. þrep. Enduruppbygging merkingar
Leiðbeinandi lestur – sjálfstæður lestur tjáning og textagerð, nýr texti saminn |
Mynd 1: Þrjú þrep Byrjendalæsis
Í fyrsta þrepi Byrjendalæsis les kennari texta fyrir nemendur. Hann nýtir þau tækifæri sem textinn gefur til að ræða um merkingu hans. Í upphafi eru textarnir yfirleitt þyngri en nemendur ráða almennt við að lesa. Kennari sér til þess að orðaforði efnisins verði nemendum tamur. Upplestur kennara er liður í að efla sameiginlega reynslu nemenda af orðum og umræðum. Kennari heldur áfram að lesa fyrir nemendur samhliða því að lestrarfærni þeirra eykst. Smátt og smátt fara nemendur að frumlesa hver fyrir annan.
Í öðru þrepi, eftir upplestur og umræður, tekur við tæknivinna. Hún snýst meðal annars um hljóðvitund, samband stafs og hljóðs, stafagerð, ritun óhljóðréttra orða, samsett orð, stóran og lítinn staf og annað sem þarf að læra. Í hverjum texta er valið lykilorð til að ræða og rannsaka. Það verður stökkpallur fyrir tæknilega vinnu tengda lestrinum en efniviður hennar kemur úr orðaforða textans. Það þýðir að hefðbundnar vinnubækur eru lagðar til hliðar. Í lykilorði er að finna dæmi um það sem á að kenna hverju sinni. Út frá lykilorði fá nemendur fjölbreytt verkefni. Nemendur, sem þegar kunna stafina, vinna þyngri verkefni sem snerta lykilorðið. Orðasafnið sem verður til út frá lykilorðinu má nota jafnt í tæknilegri vinnu og við enduruppbyggingu merkingar í síðasta þrepi Byrjendalæsis.
Í þriðja þrepi Byrjendalæsis hefst enduruppbygging. Á því stigi er teiknað, unnin hugtakakort, saminn texti, leikþættir og tónverk, allt eftir því sem hentar efninu og nemendur hafa hugmyndaflug til. Þeir styðjast við þann orðaforða sem lagður var inn í fyrsta hlutanum. Þeir endurgera ekki það sem lagt var upp með í byrjun heldur spinna framhald eða stíga út fyrir upphaflegt efni. Þannig geta nemendur t.d. samið innkaupalista fyrir afmæli bangsapabba í Dýrunum í Hálsaskógi og flutt tónverk sem lýsir því hvernig Palla leið þegar hann var einn í heiminum og hvað hann varð glaður þegar hann vaknaði og sá mömmu sína.
Hlustun, tal, ritun og lestur eru samofnar aðgerðir. Þegar ritun nemenda er skipulögð í fyrstu er mest um vert að tjáning sé í brennidepli en formið víkjandi. Ungir nemendur tjá sig í ritun með teikningum en þegar frá líður bæta þeir við orðum og orðasamböndum og skrifa loks heilar málsgreinar og efnisgreinar. Samfara aukinni færni er nemendum leiðbeint með uppbyggingu texta. Nýta má leikinn, sem er börnum í blóð borinn, til að efla með þeim tilfinningu fyrir uppbyggingu sögu. Ein leið til þess er að vinna út frá sögugrunni[2]. Kennari leggur nemendum til sögugrunn og persónur og nýtir til þess leikföng. Nemendur gefa persónunum líf og einkenni, útbúa sögusvið og semja atburði sögunnar.
Byrjendalæsi - þróunarlíkan
Byrjendalæsi er um margt frábrugðin þeim vinnubrögðum sem kennarar hafa vanist. Það er mikilvægt að fyrstu tvö árin sem þeir kenna eftir aðferðinni fái þeir öflugan stuðning. Miðstöð skólaþróunar hefur sett fram þróunarlíkan og framkvæmdaáætlun sem lýsir stuðningi og endurmenntun kennara. Ráðgjafar eru starfsmenn MSHA. Skólar eiga kost á að fá þá inn í skólana til að vinna með kennurum. Mælt er með því að skólar ráði til sín leiðtoga sem starfar í skólanum eða býr nærri. Leiðtoginn, sem verður ráðgjafi kennaranna, nýtur handleiðslu frá MSHA í tvö ár.
Þróunarstarf 1. ár - Kennarar | Þróunarstarf 2. ár - Kennarar |
· Námskeið fyrir skólabyrjun, 2 dagar · 8 vettvangsheimsóknir og samtöl við kennara · 5 smiðjur x 4 tímar. Kenn. skóla hittast · Úrvinnsla úr Læsisprófum | · Námskeið fyrir skólabyrjun, 1 dagur. · 6 vettvangsheimsóknir og samtöl við kennara · 5 smiðjur x 4 tímar · Úrvinnsla úr Læsisprófum. |
Þróunarstarf 1. ár Leiðtogar | Þróunarstarf 2. ár - Leiðtogar |
· Námskeið fyrir skólabyrjun 2 dagar, júní · Sitja námskeið fyrir kennara í ágúst 2 dagar · Námskeið yfir veturinn 4 dagar | · Námskeið fyrir skólabyrjun 1 dagur · Sitja námskeið fyrir kennara í ágúst 1 dagur · Námskeið yfir veturinn 4 dagar |
Mynd 2: Þróunarlíkan Byrjendalæsis
© Rósa Eggertsdóttir
[1] story map.
[2] Hér er átt við almennar bækur sem eru skrifaðar fyrir börn en ekki einfaldaðar kennslubækur. Sjá Meek, M., 1988 um „real books“ og „textbooks“.
Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer