You are here

Hvað er læsi

Elsta dæmi um nafnorðið læsi í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er frá árinu 1982 en dæmi um lýsingarorðið læs eru frá 17. öld og á það sér því miklu lengri sögu í málinu. Merking hugtaksins læsi byggist á því að vera læs á ritað mál en getur haft nokkuð víðari og margþættari merkingu. Orðið er notað annars vegar í almennri merkingu og hins vegar sem íðorð í skilgreindri sérfræðilegri merkingu.

 

Læsi í almennri merkingu

 

Læsi í almennri merkingu

Hin almenna merking orðsins er breytileg eftir málnotanda og samhengi hverju sinni. Í hinni almennu merkingu orðsins læsi er átt við þá færni að geta lesið ritað mál og skilið það, það er að vera læs eins og almenningur skilur það hugtak. Orðið getur einnig átt við þá færni að geta skrifað texta samkvæmt viðurkenndri stafsetningu, að vera læs og skrifandi. Það að geta notað tölur í einföldum útreikningum hefur stundum verið talið hluti af því að vera læs, en um þá færni er einnig notað hugtakið talnalæsi (e. numeracy).

Orðið literacy í ensku er talið merkja hið sama og læsi í íslensku. Lýsingarorðið literate í ensku getur haft sömu merkingu orðið læs í íslensku, að vera læs og skrifandi, en getur merkt að vera vel að sér á sviði bókmennta og skáldskapar, sem á íslensku gæti samsvarað því að vera víðlesinn. Í þriðja lagi getur literate merkt að vera menntaður eða fær á ákveðnu sviði.

Vegna þessa merkingarmunar á orðunum læsi/literacy og læs/literate er umræða um þessi hugtök á ensku ekki að öllu leyti sambærileg við umræðu um íslensk hugtök.

 

Yfirfærð merking

Manninum hefur verið tamt að hugsa sér að til væru í náttúrunni önnur mál en hið hefðbundna tungumál mannsins. Frá fornu fari hefur maðurinn leitast við að skilja umhverfi sitt á himni og jörðu, og í sögum eru dýrum og öðrum náttúrufyrirbærum gefið mál í yfirfærðri merkingu, dýr mæla og lækir hjala. Menn hafa notað sögnina lesa um það að ráða í merkingu þeirra fyrirbæra sem skynjuð verða með augum eða eyrum, menn ráða örlög manna af gangi himintungla, lesa í skýin veðrið framundan, ráða af hljóðum dýra og flugi fugla óorðna hluti og af litbrigðum náttúrunnar frjósemi hennar og fengsæld. Sú færni að vera læs, og þar með hugtakið læsi, hefur því verið notað um það að geta ráðið í og skilið ýmis konar tákn eða merki í umhverfinu. Dæmi um þessa notkun má finna í skáldskap og fræðum frá öllum tímum. Upphaf Grasaferðarinnar eftir Jónas Hallgrímsson er sígilt dæmi um þetta, drengurinn Jónas les af litbrigðum í fjallshlíðinni hvar fjallagrösin er að finna.

Í þessum yfirfærða skilningi hefur allt umhverfi mannsins mál, og getur talað til mannsins, mál hennar má heyra eða sjá, eða eins og sumir fræðimenn hafa viljað segja: Allt umhverfi okkar er texti sem við getum lesið og reynt að skilja.

Læsi í sérfræðilegri merkingu

 

Hugtakið læsi í ýmsum skilningi

Íðorðið læsi, eins og það er notað í sérfræðilegri merkingu í tengslum við menntun hefur verið skilgreint á nokkra mismunandi vegu (Ehren, Lenz og Deshler, 2004, bls. 690). Hefðbundin skilgreining á læsi byggist á skilgreiningum á lestri (e. reading). Þrengsta skilgreining tekur einungis til þeirrar tæknilegu færni að geta lesið og skrifað tiltekið tungumál eða táknmál, en viðtekin fræðileg skilgreining á læsi felur í sér tvo meginþætti (Hoover og Gough, 1990 ):

  1. Færni í umskráningu (e. decoding) og orðakennslum (e. word recognition)
  2. Málskilning (e. linguistic comprehension)

Færni í umskráningu og kennslum orða vísar fyrst og fremst til þeirrar tæknilegu færni að geta tengt ritmál og talmál, lesið úr skrifuðum texta og tengt hann munnlegri málfærni og málskilningi.

Málskilningur byggist á almennri málfærni og málþroska, munnlegum og skriflegum, og tekur bæði til skilnings og tjáningar. Skilningsþáttur lestrarhugtaksins byggist á nánum tengslum þess við almennan málþroska og málskilning, bakgrunn og þekkingu einstaklings, og færni til að hugsa og draga ályktanir. Lesfærni í hefðbundnum skilningi hvílir því á allmörgum færniþáttum, orðaforða, samskiptahæfni, reynslu af lestri, þekkingu og áhuga á lestri og lesmáli, ályktunarhæfni og hvers kyns þekkingu á umhverfi og viðfangsefnum sem þarf til að geta lesið sér til skilnings og tekið þátt í umræðu.

Hugtakið læsi er notað um þá færni að geta lesið en við bætast tveir þættir:

  1. Nánari viðmið um hvaða marki þarf að ná til að teljast læs.
  2. Önnur færni í að geta skilið umhverfi sitt og nýtt sér fjölbreytta möguleika í samskiptum.

Í fyrsta lagi getur læsishugtakið falið í sér nokkurs konar hæfniviðmið eins og þau eru skilgreind í námskrám. Með læsi er þá átt við hæfni til að geta náð ákveðnum árangri eða færni í þeim þáttum sem læsishugtakið nær til. Í þrengstu merkingu hugtaksins er miðað við að barn geti lesið tiltekinn lágmarksfjölda orða eða atkvæða á mínútu af tiltekinni nákvæmni til að teljast læst, en við þá merkingu má bæta viðmiðum um lesskilning, allt frá einföldum orðskilningi til þess að geta dregið ályktanir eða rökrætt á grundvelli þess texta sem lesinn er. Enn víðari merking læsishugtaksins gerir ráð fyrir að læsi feli í sér hæfni til að taka virkan þátt í lýðræðislegu samfélagi sjálfum sér og samfélginu til hagsbóta og framdráttar – en nokkuð flókið er að setja nánari mælikvarða á slíka hæfni.

Í öðru lagi vilja margir bæta við læsishugtakið mjög fjölbreyttri færni af ýmsu tagi sem mönnum er nauðsynleg í samfélaginu. Þessi útvíkkun hugtaksins er sama eðlis og hin yfirfærða merking læsishugtaksins í almennri merkingu sem tíðkast hefur öldum saman, og byggist á því að allt umhverfi mannsins sé eins og „opin bók“ sem bíði þess að verða „lesin“ ef maðurinn er „læs“ á umhverfi sitt. Þessi viðbót við læsishugtakið snýst aðallega um tvennt:

  1. Hún felur í sér víðari skilgreiningu á því hvað er miðill upplýsinga eða tjáskipta. Gert er ráð fyrir að miðlun sé ekki bundin við tungumálið, heldur allar tegundir miðlunar. Sjónum er sérstaklega beint að nýmiðlum, það er hvers kyns rafrænni miðlun á skjá og með hljóði, en innan hugtaksins er einnig gert ráð fyrir hefðbundnari tegundum miðlunar, á pappír, í útvarpi, á sviði, á tjaldi eða með öðrum miðlum listarinnar.
  2. Hún felur í sér víðari skilgreiningu á færni til að ráða í og meðhöndla hvers kyns fyrirbæri, tákn, myndir, atferli og atburði eða merkingu sem ekki er sögð berum orðum, skilja merkingu þeirra og samhengi, geta ályktað og brugðist við eða tekið þátt í því ferli tjáningar eða samskipta sem við á hverju sinni. Læsishugtakið er þar með farið að ná til hvers konar menntunar eða þekkingar sem gerir okkur færari um að skilja umhverfi okkar og taka þátt í daglegu lífi og samfélaginu í heild sem virkir einstaklingar með hæfni til að hafa áhrif.

Skilgreiningar á læsi eiga það sameiginlegt að miðað er við færni í að skilja einhvers konar merkingu sem miðlað er með einhvers konar táknmáli eða miðli, vera fær um að nýta sér þá merkingu og nota viðkomandi táknmál eða miðil til samskipta, sjálfum sér og öðrum (umhverfi sínu) til hagsbóta.

Í hinum víðasta skilningi er læsishugtakið orðið mjög líkt hugtakinu menntun og erfitt að greina þar á milli.

 

Læsi í hefbundnum skilningi (grundvallarmerking hugtaksins)

Hér verða taldar þrjár skilgreiningar sem fella má undir hefðbundna merkingu hugtaksins læsi.

1. Orðabókarskilgreining (literacy, 2013 ).

Læsi er færni til að eiga samskipti með því að nota skrifuð, prentuð eða rafræn merki eða tákn til að miðla merkingu

Læsi er í þessum skilningi bundið því táknkerfi sem tengist tungumálinu sjálfu og er skynjað með augum, andstætt talmálsfærni (e. oracy) sem bundin er táknkerfi sem skynjað er með eyrum.

2. Skilgreining í bandarískum lögum, National Literacy Act frá 1991, tilvitun eftir Ehren o.fl. (2004, bls. 690):

Læsi er færni einstaklings til að lesa, skrifa og tala tungumál sitt, fást við tölur og geta leyst vandamál sem verða á vegi í vinnu og samfélagi sjálfum sér og umhverfi sínu til gagns, og geta aflað sér upplýsinga og færni

Læsi í þessum skilningi er bundið þekkingu og færni í tungumálinu en felur jafnframt í sér þekkingu á tölum, er tengt félagslegri færni og um leið er sett ákveðið viðmið um árangur til að unnt sé að tala um að manneskja sé læs.

3. UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur unnið að því að bæta menntun um heim allan frá stofnun, árið 1945. Stofnunin leggur megináherslu á að berjast gegn ólæsi í heiminum, eða bæta læsi og hækka hlutfall þeirra sem teljast læsir. Unesco skilgreinir læsi svo (Unesco, 2012 ):

Læsi er undirstöðuþáttur mannréttinda og grunnur að ævilöngu námi. Það er alger lykilþáttur í þróun manneskjunnar og hæfni hennar til að takast á við lífið. Læsi er öflugt tæki til að bæta heilsufar, tekjur og tengsl við umheiminn, jafnt fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélög.

Notkun læsis til þekkingarmiðlunar þróast stöðugt, samhliða tækniþróun. Samskipti á neti, skilaboð í síma og stöðugt fjölbreyttari möguleikar á samskiptum veita tækifæri til að taka þátt í samfélaginu og mótun þess á nýjan hátt. Læst samfélag er kraftmikið samfélag, þar sem skipst er á skoðunum og hvatt til umræðna. Ólæsi er á hinn bóginn hindrun á leið til betra lífs og getur jafnvel verið undirrót misréttis og ofbeldis.

Læsi í skilningi Unesco er bundið tungumálinu en tengt félagslegri færni í samfélaginu. Af þessari skilgreiningu er reyndar ekki að fullu ljóst hvað nákvæmlega felst í því að vera læs en af umfjöllun í hinni svokölluðu Dakar-áætlun samtakanna (Unesco, 2000 ) er ljóst að læsishugtakið felur hvorki í sér talnalæsi (e. numeracy) né lífsleikni (e. life skills) en læsi er hins vegar grundvöllur þess að einstaklingar geti náð árangri á þessum tveimur sviðum. Í umræddri áætlun er bent á að margs konar óformleg menntun í ýmsum leikniþáttum komi ekki í stað læsis, sem er eini varanlegi grundvöllur framfara í samfélögum (Unesco, 2000, bls. 13).

Læsi í nýjum skilningi (yfirfærð merking hugtaksins)

Hugtakið læsi var ekki mikið notað fyrir 1970 af þeim fræðimönnum sem fengust við rannsóknir á lestri og ritun. Um það leyti taka félagsfræðingar að nota hugtakið í tengslum við umræður um fátækt og misrétti í heiminum, sérstaklega í þróunarlöndunum, í þeim skilningi að ólæsi sé meginorsök fátæktar og misréttis, og því meginviðfangsefni stjórnvalda að stuðla að bættu læsi til að auka velmegun og jafnrétti í heiminum (Lankshear og Knobel, 2006, bls. 9-10). Læsi í þessu samhengi var notað í nokkuð víðum skilningi um þá færni sem gerði fólk hæfara til að bjarga sér, afla sér þekkingar og auka hagsæld sína (Lankshear og Knobel, 2006, bls. 12). Merking hugtaksins var þar með töluvert önnur, það var orðið hugtak um félagslega færni og að mestu laust við umræðu lestrarfræðinga um þau vandamál sem fylgja því að gera fólk fært um að nota ritmál. Athygli fræðimanna beindist jafnframt að læsi í þróuðum löndum sem félagsfræðilegu fyrirbæri og áhrifum af útbreiddu torlæsi eða jafnvel ólæsi meðal fullorðinna.

Talað er um nýlæsi (í fleirtölu, þau læsin, e. new literacies), til aðgreinigngar frá læsi í hefðbundinni merkingu. Fyrsta dæmi um notkun hugtaksins new literacies er frá 1993 (New literacies, 2013, 11. mars ) en hugmyndir um yfirfærða merkingu læsishugtaksins eru eldri. Merking nýlæsa er alls ekki skýrt skilgreind en kjarni merkingarinnar miðast við færni eða leikni sem nútímamönnum er nauðsynleg, með áherslu á notkun upplýsingatækni og miðlunar.

Nýlæsi eru fjölmörg og hvert læsi hefur sitt heiti. Til að gefa nokkra hugmynd um hvað átt er við með læsishugtakinu í þessari merkingu eru hér gefin dæmi úr Wikipediu (New literacies, 2013, 11. mars ): netlæsi (e. internet literacies), stafrænt læsi (e. digital literacies), nýmiðlalæsi (e. new media literacies), fjöllæsi (e. multiliteracies), upplýsingalæsi (e. information literacies), upplýsinga- og samskiptatæknilæsi (e. ICT-literacies) og tölvulæsi (e. computer literacy).

Í þessum skilningi fela nýlæsi í sér hæfni á borð við að geta sent smáskilaboð (e. instant messaging), bloggað, séð um vefsíðu, tekið þátt í samskiptavefjum, tekið upp hljóð eða myndir og búið til tónlistarmyndbönd og deilt þeim á netinu, unnið með myndir í myndvinnsluforritum, notað tölvupóst, verslað á netinu og tekið þátt í umræðum eða tölvuleikjum í mismunandi samhengi og í misstórum hópum á netinu (New literacies, 2013, 11. mars ). Við þetta má bæta tegundum læsis sem ekki tengjast stafrænni tækni, til dæmis umhverfislæsi og sjálfbærnilæsi. Upptalningin er ekki tæmandi enda geta tegundir nýlæsa verið óendanlega margar.

Eins og sjá má af þessari umfjöllun eru nýlæsi mjög bundin við nýtingu stafrænnar tækni og nets til miðlunar.

Ágreiningur um hugtakið læsi í menntun

Hugtakið læsi er í umræðum um menntun notað í tvennum skilningi. Annars vegar er það notað sem eintöluorð (það læsið) um þá færni að geta lesið og skrifað sjálfum sér og öðrum til gagns að því marki að geta verið virkur þátttakandi í samfélaginu. Þessi færni er undirstaða þekkingaröflunar og miðlunar með notkun ritmálsins og tengdum táknkerfum. Í sumum tilvikum felur hugtakið einnig í sér færni í að skilja og nota tölur (e. numeracy). Unesco notar hugtakið í þessari merkingu í umfjöllun sinni um læsi og ólæsi í heiminum og í skýrslum þar sem lögð er áhersla mikilvægi læsis sem undirstöðu annars náms og almennrar lífsleikni (e. life-skills). Kjarninn í þessum skilningi læsis er glíman við tungumálið sjálft, einkum ritmálið, málið er sá miðill sem allt annað byggist á. Sú leikni að lesa og skrifa verður meginviðfangsefni menntunar.

Hins vegar er hugtakið notað sem fleirtöluorð (þau læsin), þá gjarnan hugtakið nýlæsi, til aðgreiningar frá hinum hefðbundna skilningi, um hvers konar þekkingu og færni í að taka þátt í samfélaginu. Í þeim skilningi felur hugtakið í rauninni í sér það sem í öðru samhengi er kallað lífsleikni í víðum skilningi, sbr. Unesco (2000, bls. 16) og er nánast samheiti við orðið menntun: Það að vera læs er sambærilegt við að vera menntaður eða fær um að takast á við lífið. Í þessum skilningi læsis verður tungumálið ekki mikilvægara en aðrir miðlar, það að geta notað merkjamál, handverk, myndir, leiklist, tónlist eða dans til tjáningar verður jafn mikilvægt og að geta talað eða skrifað.

Menntastefna sem leggur áherslu á læsi í hefðbundnum skilningi gerir ráð fyrir að tungumálið sé lykill að hugrænni úrvinnslu þekkingar og þar með grundvöllur að ályktunarhæfni og öllum dýpri skilningi á veruleikanum. Lykilatriði verður að veita börnum þjálfun í að glíma við fjölbreytt lesefni og rækta hæfni til að sökkva sér niður í það. Megináhersla er lögð á að gera alla læsa og skrifandi í hefðbundnum skilningi en gert ráð fyrir öðrum úrræðum fyrir þá sem ekki ráða við að lesa og skrifa. Þessi skilningur er í samræmi við stefnu Unesco og Dakar-áætlun samtakanna um eflingu menntunar í heiminum.

Menntastefna sem leggur nýja merkingu í læsishugtakið gerir í rauninni ekki upp á milli þeirra leiða til skilnings og tjáningar sem börn vilja nota, svo fremi þau fylgi viðtekinni sátt samfélagsins um merkingu. Í þeirri merkingu hugtaksins eru allir möguleikar til skilnings, tjáningar og miðlunar jafngildir og mestu skiptir að allir fái að nota þær leiðir sem þeim best henta. Það að ná tökum á lestri og ritun í hefðbundnum skilningi verður þá jafngilt því að geta tjáð sig með talmáli, myndmáli, í leiklist, tónlist, kvikmynd eða dansi. Þetta er mjög róttæk breyting frá hefðbundnum skilningi læsishugtaksins. Notkun tungumáls og ritmáls er ekki lengur undirstaða annarrar menntunar og færni, heldur sambærileg við aðra menntun og færni, eða aðrar tegundir læsis.

Stóraukin notkun hugtaksins læsi er komin frá félagsfræðingum en lestrarfræðingar hafa fylgt á eftir. Nokkur alþjóðleg tímarit sem áður fjölluðu um lestur eða ritun (e. reading og writing) breyttu um nafn og tóku upp orðið læsi (e. literacy) í titli sínum (Lankshear og Knobel, 2006, bls. 12). Félagsfræðingar brugðust við þessu með því að benda á að lestrarfræðingar hefðu alls ekki notað hugtakið læsi um að lesa og skrifa, heldur væri hugtakið félagsfræðilegt, og sökuðu lestrarfræðinga um að hafa „rænt“ hugtakinu af sér. Lestrarfræðingar hafa svarað fullum hálsi á móti að hugtakið læsi hafi alltaf snúist um lestur og ritun, og að félagsfræðingar hafi „rænt“ því og notað það í allt annarri merkingu en hefð var fyrir.

Líklegt er að með tímanum náist sátt um læsishugtakið. Ljóst má vera að læsi í þrengstu merkingu, að geta umskráð stafi í hljóð og verið tæknilega læs, er langt í frá fullnægjandi til að lýsa þeirri margþættu færni í talmáli og ritmáli sem hver maður þarf að búa yfir til að geta tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu. Að sama skapi er ljóst að hugtak sem getur merkt nánast hvað sem er verður gagnslaust í allri umræðu og dregur athyglina frá því sem hlýtur að vera kjarni hugtaksins, að geta notað tungumálið á virkan hátt til skilnings og sköpunar.

 

© Baldur Sigurðsson

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer