You are here

Lestrarörðugleikar

Eins og sjá má í myndinni hér að neðan byggist lestur í grófum dráttum á tvenns konar færni, annars vegar á umskráningu og hins vegar á lesskilningi. Ekki er hægt að tala um virkan lestur nema að þessi tvö ferli vinni saman og því þarf lesandinn að ná fullkomnum tökum á báðum þáttum til að teljast læs (Gough og Tunmer, 1986). 

Lesblinda (dyslexía) tengist einkum veikleikum í hljóðkerfisþætti tungumálsins, sem veldur erfiðleikum við umskráningu. Umskráning er hin tæknilega hlið lestrar og felst hún í því að umbreyta bókstöfum (rituðum orðum) í töluð orð og setningar (Snowling og Hulme, 2005; Höien og Lundberg, 2000; Torgesen, 2001; Ehri, 2005). Vert er að leggja áherslu á að lestrarnám er samverkandi ferli allra þátta tungumálsins (Snowling, 2005), en eins og sést á myndinni hér að ofan er ákveðið flæði á milli umskráningar og lesskilnings. Þannig beitir lesandinn þekkingu sinni á tungumálinu, málfræði og setningafræði við að umskrá (lesa) orðin þó svo að hljóðkerfið sé í grunninn sá þáttur sem sér um hljóðkerfisúrvinnslu bókstafanna í hljóð og orð. Nákvæm umskráning, sem felst í því að geta lesið orðin rétt,  er aftur á móti forsenda þess að lesandinn nái hárréttum skilningi á textann. Rannsóknir benda til þess að nemendur sem hafa styrkleika í merkingarþáttum tungumálsins, til dæmis góðan málskilning og máltjáningu, ásamt góðri málfræðivitund ,vinni sig betur framhjá veikleikum í hljóðkerfisþætti tungumálsins en þau börn sem eru slök í öllum málþáttum (Carroll, Bower-Crane, Duff, Hulme og Snowling, 2011; Catts & Kamhi, 2005; Goswami, 2002). 

Lesskilningur byggir á færni lesandans í þeim þáttum tungumálsins sem tengjast málskilningi, eða málfræði, setningafræði og orðaforða. Þekking lesandans á notkun tungumálsins og hvernig því er beitt í mismunandi aðstæðum hjálpar honum við að draga ályktanir um þær aðstæður sem lýst er í texta og setja sig inn í hugarheim sögupersóna. Ályktunarhæfni gegnir afar mikilvægu hlutverki við að ná lesskilningi og í þeim þætti liggur stærsti vandi þeirra sem eiga við sértæka lesskilningserfiðleika að etja.  Af framangreindu má sjá að lesblinda og erfiðleikar með lesskilning eru af ólíkum toga þar sem vandinn á  rætur að rekja til ólíkra þátta tungumálsins. Sá málþáttur sem talið er að hafi hvað mest áhrif á lesskilning er orðaforðinn, enda er orðaforði einn besti forspárþátturinn fyrir síðari árangur í lesskilningi (Nation 2005; 2006; Cain og Oakhill, 2007).

 © Steinunn Torfadóttir

 

 

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer