You are here

Um textalæsi

Textalæsi

Löngu áður en börn fara að kveða að, jafnvel áður en þau þekkja alla stafina, geta þau „lesið“ ýmislegt. Eitt af því sem mörg börn læra snemma að þekkja eru kennimerki eða „lógó“ ýmissa fyrirtækja. Þau læra að þekkja merkin og tengja þau við fyrirtækin. Þau geta kannski alls ekki lesið bókstafina en heildin, bókstafir og tákn tala til þeirra.
 
Svipað gerist þegar reyndir lesendur fá í hendur ólesinn texta. Þá líta þeir fyrst yfir hann og viðbrögð þeirra verða væntanlega þau að móta með sjálfum sér svör við þessum spurningum: Á hvaða formi er textinn? Hvar birtist hann? Þekki ég texta af sama toga? Hver skrifaði hann? Hvað vill textinn mér? Spurningarnar eru aldrei færðar í orð, þær eru aðeins óyrt og sennilega óljós hugsun í huga lesandans.  Þessi fyrstu viðbrögð eru eðlilegur aðdragandi að lestri og í raun hluti af lestrarferlinu. Þau eru æskilegur undanfari hins eiginlega lesturs. 
 
Allir textar birtast í einhverju samhengi og allflestir tilheyra þeir einhverri þekktri textategund. Stundum verður texti skiljanlegur aðeins út frá umhverfinu. Ef við hugsum okkur t.d. leiðbeiningaskilti um líkamsþvott sem sjá má á sundstöðum þá væri slíkt skilti illskiljanlegt ef það birtist við þjóðveginn; að sama skapi væri skilti með áletruninni Akstur er dauðans alvara illskiljanlegt í búningsklefa sundlauga þótt orðin væru rétt lesin og skilin. Í þessum aðstæðum myndi umhverfið vinna á móti skilningi en oftast er því auðvitað öfugt farið, textar birtast okkur í umhverfi sem auðveldar okkur að ráða í þá. 
 
Kennarar og foreldrar og aðrir þeir sem aðstoða börn við að stíga fyrstu skrefin í lestri gera rétt í því að þjálfa þau í að spyrja spurninga sem varða textann. Spurningar til ungra barna gætu t.d. verið: Hvernig texti heldurðu að þetta sé? Heldurðu að þetta sé þjóðsaga eða ævintýri? Heldurðu að þetta sé kvæði? Heldurðu að þetta sé fyndin bók? Og að fengnum svörum frá börnunum mætti spyrja áfram: Af hverju heldurðu það? Hvað bendir til þess? Hvernig geturðu þekkt það? Stundum nægir að horfa á textann og aðra texta í sömu bók eða sama riti; stundum er hægt að lesa fyrstu línurnar og spyrja svo. Stundum er hægt að skoða myndirnar og spyrja svo. Spurningarnar leiða til þess að barnið fær hugmynd um að ritmál sé af ólíkum toga og í það megi ráða á ýmsa vegu. Sú vitneskja gæti gagnast barninu síðar meir.
 
 
Textategund
 
Textar verða að uppfylla ákveðin skilyrði til að teljast eiginlegir ‘textar’, þau skilyrði lúta t.d. að innra samhengi, tilgangi og því að textategund sé þekkjanleg þeim sem lesa. Texti verður að vera skiljanlegur þeim sem les, ef ekki vegna innra samhengis eða tengsla við aðra texta, þá vegna aðstæðna. Ritaðir textar eru af ýmsum toga og á hverjum degi ber tugi textategunda fyrir augu fólks. Textategundirnar birtast á ólíkum stöðum. Á morgnana rennum við kannski yfir textana á morgunkornspakkanum og mjólkurfernunni áður en við tökum blaðið og flettum því. Þar blasa við ótal textategundir. Þar eru fréttir, auglýsingar af ýmsu tagi, minningargreinar, tilkynningar, myndasögur, leiðarar, aðsendar greinar, fastir dálkar, veðurfréttir, lesendabréf, viðtöl og slúður svo eitthvað sé nefnt. Margir líta í tölvupóstinn sinn heima áður en þeir leggja af stað í skóla eða vinnu og gægjast jafnvel inn á fésbókina. Það er sem sé hugsanlegt að við höfum lesið tugi textategunda áður en við yfirgefum heimili okkar á morgnana.  
 
Þeir sem leiðbeina börnum með lestur og ritun þyrftu að sjá til þess að þau fái þjálfun í að lesa og skrifa ólíka texta og læri að þekkja hvað á við hverju sinni. Hvenær er í lagi að nota talmálslegt málsnið eða með öðrum orðum velja talmálsleg orð og talmálslega framsetningu í ritun? Jú, það er í lagi að skrifa tölvupóst með því sniði og færslur á fésbók. Ef markmiðið er hins vegar að skrifa skýrslu eða greinargerð þarf höfundurinn líka að vita hvað er þar við hæfi. Umræða um einkenni ólíkra textategunda og æfing í lesa og skrifa fjölbreytilega texta skilar sér bæði í bættum lesskilningi og markvissari ritun.
 
 
Lesið milli línanna
 
Tungumálið er ekki allt þar sem það er séð. Flest orðin bera merkingu en ekki alveg öll. Nafnorð, sagnir og lýsingarorð bera í sér inntak þess sem sagt er – þau eru svonefnd inntaksorð. Í þeim flokkum höfum við orð eins og kóngur, veiða, voldugur og þau orð kveikja strax mynd í huga þess sem les. Því er ekki þannig farið með „litlu orðin“, orð sem við köllum t.d. samtengingar og forsetningar. Orð eins og og og með hafa ekki sömu áhrif, þau kveikja ekki skýrar myndir í huga þess sem les en þau eru nauðsynlegt „lím“ til að tengja saman einingar málsins. Þau nefnast kerfisorð. En þetta er ekki allt sem er sérstakt við málið. Tungumálið er tvíþætt, það hefur bæði form og virkni. Þegar talað er um form orðs er rætt um útlit þess og hvernig hægt er að breyta því á ólíka vegu. Við getum t.d. bætt greini við nafnorð, beygt sagnir í þátíð og látið lýsingarorð lýsa nafnorðum af öllum kynjum. Inntaksorðin taka öll slíkum breytingum. Kerfisorðin líta hins vegar alltaf eins út og taka engum breytingum.
 
Málið hefur líka virkni, þ.e. einingar málsins, orð og setningar, hafa hlutverk í því samhengi sem þær birtast. Stundum fellur þetta tvennt prýðilega saman. T.d. þegar sagt er: „Lokaðu glugganum!“  Þar er setningin í boðhætti og hlutverk hennar er að fá einhvern til að gera eitthvað – eða réttara sagt skipa honum að hafast að. Ef hins vegar högum orðum okkar á annan hátt og segjum: „Finnst þér ekkert kalt?“  þá ætlumst við áreiðanlega ekki til þess að sá hinn sami segi bara „jú“ og láti þar við sitja. Við gætum ætlast til þess að viðmælandi okkar teygi sig í gluggann og loki honum. Þetta væri dæmi um óbeina málnotkun, þar sem einföld spurning er notuð í stað boðháttar til að ná fram sömu virkni. Þetta er algengt í talmáli. Við sitjum við matarborð og segjum „geturðu rétt mér saltið?“ og „viltu rétta mér smjörið?“ en yrðum hissa og hneyksluð ef viðmælandinn svaraði báðum spurningunum játandi án minnstu tilburða til að verða við þeirri bón sem í spurningunum fólst. Óbein málnotkun skilar sér oft inn í ritaða texta, einkum skáldsögur.
 
Í rituðu máli er talsvert um að lesandinn þurfi að ráða í það sem er sagt með þessum óbeina hætti og því gagnlegt að benda stálpuðum börnum á þetta. Eins þarf oft í skáldsögum að grípa til eigin skáldgáfu og lesa milli línanna eins og sagt er, t.d. ímynda sér hvernig samtali hefur lyktað ef ekki er greint frá því í frásögninni.  Þetta má þjálfa með því að gera hlé á lestri á tilteknum stöðum og ígrunda kafla sem lokið er við og vekja t.d. athygli á ef eyður eru í sögunni, ef höfundur yfirgefur persónur sínar um hríð án þess að greina frá því hvernig samskiptum þeirra lyktaði. Slík þjálfun er mjög gagnleg og skilar sér ekki síst í betri lesskilningi.
 
 
 

© Þórunn Blöndal

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer