You are here

Kynjamunur og læsi

Kynjamunur á færni í lestri

Niðurstöður fjölþjóðlegs samanburðar á lesskilningi grunnskólabarna benda til þess að stúlkur standi drengjum nokkuð framar á því sviði og eru íslensk grunnskólabörn þar engin undantekning. Samkvæmt niðurstöðum PISA könnunarinnar á lesskilningi nemenda í 10. bekk hefur til dæmis verið stöðugur kynjamunur á lesskilningi síðasliðinn áratug og árið 2009 kom fram að 70% þeirra íslensku nemenda sem teljast slakir í lestri, samkvæmt niðurstöðum PISA, voru drengir (OECD, 2010).  Þess ber þó að geta að námslegir yfirburðir stúlkna virðast ekki aðeins bundnir við lesskilning. Í samræmdum prófum á tímabilinu 1996-2006 til dæmis, stóðu stúlkur sig ekki aðeins betur en drengir í íslensku, heldur einnig í dönsku og stærðfræði.

Viðvarandi spurningar eru um hvenær kynjamunur í lestri kemur fram en í flestum þeim rannsóknum sem sýnt hafa fram mun á lestrarfærni drengja og stúlkna hafa þátttakendur verið komnir nokkuð vel á veg í lestri (sjá til dæmis Ming Chui, McBride-Chang, 2006; Mullis, Martin, Kennedy og Foy, 2007; OECD, 2010). Árleg lesskimun á meðal nemenda í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur bendir til þess að kynjamunur á færni í lestri komi nokkuð snemma fram hér á landi en samkvæmt niðurstöðum hennar árið 2011 geta 75% stúlkna í 10. bekk lesið sér til gagns en aðeins 66% drengja (Menntasvið Reykjavíkurborgar, 2011).

Ástæður

Margvíslegar ástæður fyrir góðu gengi stúlkna í lestri hafa verið nefndar. Rannsóknir á frammistöðu nemenda í PISA prófunum gefa til dæmis til kynna að stúlkur hafi jákvæðara viðhorf til lestrar en drengir, þær lesi mun frekar sér til skemmtunar og virðast einnig hafa betri þekkingu en drengir á ýmsum aðferðum sem styðja við lesskilning. Þær eru einnig líklegri til þess að nota slíkar aðferðir við lestur. Þessi munur virðist að stórum hluta skýra þann kynjamun sem ítrekað kemur fram á lesskilningshluta PISA prófsins (OECD, 2010). Munur á viðhorfum drengja og stúlkna til lesturs kemur snemma fram á Íslandi ef marka má árlega lestrarkönnun Reykjavíkurborgar (2011) en mun fleiri stúlkur en drengir í 2. bekk sögðust hafa ánægju af lestri. Ein möguleg ástæða fyrir því er sú að val á lesefni í skólum endurspegli frekar áhugasvið stúlkna en drengja. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að kennarar leggja oftast meiri áherslu á textategundir sem súlkur kjósa, eins og til dæmis frásagnir og skáldsögur þar sem áhersla er á ákveðna atburðarás, persónusköpun og tengsl á milli einstaklinga. Mun minni áhersla virðist aftur á móti lögð á þær gerðir texta sem drengir hafa áhuga á, eins og til dæmis myndasögur, íþróttasíður í dagblöðum, vísindaskáldsögur, furðusögður og fræðandi texta um tiltekið sérsvið (Worthy, Moorman og Turner, 1999).

Einnig hefur því verið haldið fram að ástæður fyrir kynjamun í lestri megi rekja til leikskólaárannaen einhverjar vísbendingar eru um það að drengir á leikskólaaldri standi veikari fótum í ýmsum þáttum sem flokkast undir byrjendalæsi, eins og til dæmis stafaþekkingu, hljóðkerfisvitund og orðaforða (sjá til dæmis Lundberg, Larsman og Strid, 2012). Slíkur kynjamunur kemur þó ekki alltaf fram (sjá t.d. yfirlit í Chatterji, 2006). Í íslenskri rannsókn á þroska, máli og læsi íslenskra leik- og grunnskólabarna var til dæmis enginn munur á stöðu drengja og stúlkna á ofangreindum þáttum í fyrsta bekk (Freyja Birgisdóttir, 2011).

Enn ein ástæðan sem nefnd hefur verið til þess að skýra misgott gengi drengja og stúlkna í lestri er sú að kynjunum tveimur henti ekki sömu lestrarkennsluaðferðir. Þess ber þó að geta að slíkar fullyrðingar eru afar umdeildar og benda flestar rannsóknir til þess að sömu kennsluhættir ýti undir góðan árangur beggja kynja. Athugun Younger og fl. (2004) á lestrarkennslu í breskum grunnskólum bendir engu að síður til þess að kennarar sem ná hvað bestum árangri í að efla færni drengja í lestri leggja mikla áherslu á að setja fram skýr markmið í upphafi hverrar kennslustundar og að nemendur sjái tilgang í að ná þeim markmiðum. Fjölbreytt lesefni og textagerðir, auk reglubundins og leiðbeinandi námsmats höfðu einnig mikið að segja fyrir framfarir þessa nemendahóps.

© Freyja Birgisdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer