You are here

Upplýsingalæsi á 21. öld – Samhengi og síubólur

Upplýsingalæsi á 21. öld – Samhengi og síubólur
 
Í upphafi upplýsingtatæknibyltingarinnar var ég í hópi bjartsýnismanna sem dásamaði mjög nettæknina sem var að ryðja sér til rúms og allar framfarirnar sem myndu fylgja í kjölfarið. Mörg okkar sáu fram á að upplýsingatæknin ætti eftir að leiða af sér best upplýstu alþýðu sem sést hafði í mannsögunni. Nú um tveimur áratugum síðar hefur tæknin vissulega umbylt samfélaginu en deila má um hversu upplýstur almenningur er vegna hennar. Í bjartsýnismóki okkar gleymdum við að taka með í reikninginn að þegar upplýsingaflæði eykst flæða allar upplýsingar, jafnt góðar sem slæmar. Upplýsingamagnið á netinu hefur aukist gríðarlega hratt og eru núna um 4,65 milljarðar vefsíðna skráðar á Google leitarvélinni. Þegar upplýsingamagnið er orðið þetta mikið reynir mjög á getu okkar til að finna og meta upplýsingar svo þær komi okkur að gagni.
 
Nýju námskrárnar byggja á fimm grunnstoðum og er  "læsi í víðum skilningi" þar á meðal. Læsi, í þessu samhengi, nær til hefðbundina þátta, s.s. leshæfni og lesskilnings, en einnig til upplýsinga- og miðlalæsis. Þetta er að vissu leyti viðurkenning á áhrifum tækniþróunnar á umhverfi okkar og mikilvægi þess að nemendur öðlist hæfni til að vinna úr öllu því upplýsingamagni sem þeir hafa aðgang að. Þá þarf sérstaklega að hafa í huga áhrif tækniþróunnar á framleiðslu, dreifingu og notkun upplýsinga. Með tækninni sem við höfum í dag eru það ekki bara netnotendur sem hafa upp á upplýsingum, heldur hafa upplýsingar líka upp á þeim.
 
Síubólur
Fyrir tveimur árum kom út áhugaverð bók Eli Pariser, Filter Bubble: What the Internet is Hiding From You. Þar fjallar Pariser um leitartækni sem Google tók í notkun 2009 sem gerir leitarvélinni kleift að sérsníða niðurstöður fyrir notendur út frá gögnum um þeirra fyrri leitarhegðun. Afleiðingin er að leitarniðurstöður geta verið mismunandi eftir því hver leitar þótt notuð séu nákvæmlega sömu leitarskilyrði. Að mati Pariser er þetta varhugaverð þróun og hann hefur nokkuð til síns máls. Tækni sem þessi getur leitt til þess að upplýsingum sem samræmast ekki skoðunum viðkomandi sé haldið frá honum. Notandinn er þá kominn í það sem Pariser kallar "síubólu" (e. filter bubble) þar sem hann metur stöðuna svo, á grundvelli þeirra upplýsinga sem leitarvélin skilar honum, að staða þekkingar rennur stoðum undir það sem hann hefur fyrir satt. Þannig einangrast notandinn í upplýsingaheimi sem styður og styrkir hans skoðanir þótt þær kunni að vera rangar.
 
Margir hafa lýst efasemdum um að hættan á upplýsingalegri einangrun í netheimum sé jafnmikil og Pariser heldur fram. Ýmsir aðilar hafa gert óformlegar prófanir með leitarvél Google og komist að því að ekki er markverður munur á leitarniðurstöðum aðila með ólíkar skoðanir (sjá t.d. greinar í Slate, Wall Street Journal og könnun rannsóknarfólks við Háskólans í Pennsylvania). En það er e.t.v. full fljótfærnislegt að afgreiða "síubólu" hugtak Pariser á þeim forsendum einum. Fjöldi rannsókna hafa sýnt að leitarhegðun netnotenda, og þá sérstaklega ungs fólks, mótast mjög af skoðunum þeirra (sjá t.d. Garrett & Resnick og Bartlett & Miller). Margir netnotendur treysta frekar á mat skoðanabræðra á gildi upplýsinga en t.d. flokkunaralgrím algengra leitarvéla. Þetta leiðir til þess að til verða netvædd samfélög aðila sem eru sama sinnis um tiltekin mál og hafa það að markmiði að viðhalda sínum skoðunum. Samfélagið sem heild virkar sem sía sem hleypir bara í gegn upplýsingum sem styrkja ríkjandi viðhorf. Aðilar sem tilheyra þessum samfélögum fá gjarnan á tilfinninguna að allir, jafnt innan sem utan hópsins, deili sömu skoðunum og þeir. Þannig að það má segja að síubólur eru vissulega til staðar á netinu en þær eru ekki bara afleiðing tækninnar heldur eru þær líka sjálfskapaðar.
 
Leifur Eiríksson og Stórifótur

Leifur Eiríksson bendir samferðamönnum sínum á Stórafót?

Fyrr á þessu ári var ég staddur í Bandaríkjunum að horfa á sjónvarpsþáttinn "Ancient Aliens" sem snýst um að sýna fram á að allar helstu goðsagnir heims eru í raun frásagnir af heimsóknum geimvera til jarðar. Það þarf líklega ekki að hafa mörg orð um þessa þætti til að lesendur dragi mjög í efa upplýsingagildi þeirra. En þrátt fyrir það vakti ein fullyrðing sem ég heyrði í þættinum þetta kvöld sérstaklega athygli mína. Viðmælandi þáttastjórnanda hélt því fram eins og um heilagann sannleika væri að ræða að fyrsta skráða heimild um kynni manna af s.k. "Stórafót" (e. Bigfoot) væri að finna í frásögnum um ferðir Leifs Eiríkssonar til Vínlands. Ég er s.s. enginn sérfræðingur um Íslendingasögur, hvað þá Eiríks sögu rauða, en aldrei hafði ég áður heyrt minnst á það að Leifur heppni hafi rekist á skrímslið goðsagnakennda Stórafót. Þetta fannst mér mjög forvitnilegt og verðugt rannsóknarefni. Ég gerði því eins og við gerum flest í dag þegar okkur vantar upplýsingar - ég "gúgglaði" það. Þá blasti við mér ótal vefsíður og greinar með hárnákvæmum ártölum og akademískt útlítandi tilvitnunum sem "staðfesta" það að sagt er frá Stórafót í samtímaheimildum rituðum af Leifi Eiríkssyni sjálfum! Þegar ég fór svo að vafra um þessa netsvæði varð mér fljótt ljóst að ég var kominn inn í veruleika þar sem sannfæringin um að Leifur Eiríksson skráði reynslu sína af því að hafa séð Stórafót er svo sterk að engin andmæli komast að. Ég var augljóslega kominn inn í síubólu þar sem bæði eðlislægt hópefli manna og tækni nýtast til að viðhalda skoðunum sem engin fótur er fyrir.
 

Húsið hennar Bjarkar?

Þetta er aðeins eitt af ótal dæmum þar sem netverjar sameinast um að viðhalda því sem þeir vilja hafa fyrir satt sama hvað aðrir hafa um það að segja. Það eru meira að segja nokkur dæmi sem snerta okkur Íslendinga beint. Það er til dæmis stór hópur manna á netinu sem trúir því, og endurtekur við hvert tækifæri sem finnst, að fangelsi hér á landi eru nánast uppfull af bankastjórnendum sem voru látnir svara til saka í kjölfar bankahrunsins og komið bak við lás og slá. Þessir aðilar eru gjarnan heillaðir af því hvernig Íslendingar tóku á sínum málum og hvetja gjarnan eigin landa til að gera það sama (þó svo að Íslendingar hafi í raun aldrei gert það sem fram kemur á netinu). Einnig er útbreidd sú "alkunna" vitneskja að veiðikofinn í Elliðaey í Vestmannaeyjum er hús Bjarkar sem Íslendingar færðu henni að gjöf fyrir að koma Íslandi á heimskortið. Hér er t.d. grein um þessi herlegheit sem Íslendingar færðu Björk. Takið sérstaklega eftir leiðréttingu "Logan Thomas Millsap" í athugasemdunum þar sem haldið er fram að sagan er í stórum dráttum rétt nema að eyjan í myndunum er ekki rétta Elliðaey. Gott að fá þetta á hreint.
 
Tækniþróun og upplýsingalæsi
Tækniþróun á undanförnum árum hefur miðað að miklu leyti að persónuvæðingu upplýsinga og upplýsingatækni. Upplýsingar eru í síauknu mæli sérsniðnar að einstökum notanda. Á vinsælum samfélagsvefjum eins og Twitter, Facebook eða Reddit ræður notandinn mjög miklu um það hvers konar upplýsingar birtast honum. Ennfremur er tæknin sjálf að persónuvæðast. Snjallsímar, lófatölvur og spjaldtölvur eru hannaðar með það í huga að þeim verður ekki deilt með öðrum notendum. Það verður sífellt sjaldgæfara að margir á heimili, vinnustað eða í skóla samnýti tæki til að nálgast upplýsingar á netinu. Hver og einn hefur sitt eigið tæki sem er sérstaklega uppsett til þess að miðla þeim upplýsingum sem eigandanum finnst skipta máli. Þetta verður e.t.v. til þess að netnotendur týnast síður í því gífurlega magni upplýsinga sem flæðir um netið í dag en það eykur líka hættuna á að einstaklingar einangrist inn í sjálfskapaðri síubólu sem tæknin sér um að viðhalda. Í þeirri stöðu geta misvísandi eða rangar upplýsingar virðst fullkomlega gildar svo lengi sem þær samræmast öðru sem stuðst er við innan þess samhengis sem viðkomandi hefur einangrast í. Ég get t.d. vel skilið að einhver myndi komast að rökstuddri niðurstöðu um að fyrsta skráða heimildin um Stórafót sé að finna í sögum Leifs Eiríkssonar um ferðir hans um Vínland. Ef stigið er út á þessa braut á netinu í dag er einfaldlega fátt sem bendir til annars en að það sé satt.
 
Hvort vonir okkar um vel upplýsta alþýðu hafa ræst er umdeilanlegt. Vissulega hefur fólk aðgang að töluvert meiri upplýsingum nú en áður og mætti að því leyti segja að það sé betur upplýst. En það sem við sem vorum svo bjartsýn í upphafi upplýsingatæknibyltingarinnar sáum fyrir okkur var eitthvað annað og meira en bara aukið aðgengi að upplýsingum. Við vonuðumst eftir auknu jafnræði, meiri þekkingu og betur ígrunduðum skoðunum. Sumir kynnu að segja að við höfum hreinlega vanmetið möguleika tækninnar. En ég held að svo sé ekki. Það er frekar að við áttuðum okkur ekki nægilega vel á mætti upplýsinga og tækni til að skapa ný samhengi fyrir mótun og miðlun þekkingar án tillits til þess hvort þekkingin er sönn eða ekki. Á netinu mótast upplýsingalegt gildi ekki af því hvort upplýsingar eru sannar eða ekki heldur mótast það af því umhverfi sem upplýsingar verða til í, sem þær flæða í gegnum og tækninni sem er notuð til að miðla þeim. Þannig getum við hæglega lent í síubólu þar sem innra samhengið er svo vel mótað að allar upplýsingar virðast traustar þótt þær séu það ekki.
 
Það sem ofantalið sýnir okkur er mikilvægi þess að þjálfun í upplýsingalæsi taki mið af sífellt örari tækniþróun og breytilegum félagslegum veruleika ungs fólks. Í nýlegri skýrslu frá Georgia Institute of Technology um netöryggi er lagt til að nemendum verði kennt sérstaklega um síubólur og áhrifin sem persónuvæðing upplýsinga og tækni hefur á upplýsingamiðlun. Þetta eru ekki slæm ráð. En þótt síubólur kunni að vera verðugt viðfangsefni í dag þarf líka að hugsa um hvað kemur næst? Hvaða tækninýjungar eru líklegar til að hafa áhrif á leitarhegðun og upplýsingalæsi ungs fólks á næstu árum og hvernig verður brugðist við þeim?
 

 Tryggvi Thayer

Höfundarréttur á myndum:
Leifur Eiríksson og félagar: CC BY-NC 2.0 - Douglas Sprott
Elliðaey: CC BY-NC-SA 2.0 - Zanthia.
 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer