You are here

Bernskulæsi

Hvað er bernskulæsi?

Bernskulæsi er skilgreint sem ákveðin færni, þekking og viðhorf og þróast sem undanfari læsis. Það vísar til lestrarhegðunar barns á leikskólaaldri áður en formleg lestrarkennsla hefst í grunnskóla. Hugmyndin felst í því að ung börn byggi upp þekkingu í gegnum uppgötvanir um ritmálið í umhverfi sínu og ekki síst í gegnum bóklestur og málhvetjandi samskipti við fullorðna og önnur börn. Á þessum tíma í lífi barns eru ekki gerðar kröfur um læsisnám, en þar sem námsaðstæður eru á forsendum barnsins afslappaðar og lausar við gagnrýni opnast heimur læsis smátt og smátt. Megin áhrifavaldar eru forvitni barns, samskipti og reynsla af ritmáli. Á þennan hátt byggja börn undir lestrarnámið allt frá fæðingu, þau afla sér bakgrunnsþekkingar um læsi án þess þó að geta beitt hefðbundinni lestrartækni og lesið (Christie, Enz og Vukelich, 2007; Gunn, Simmons og Kameenui, 1995). Á þessum tíma mótast einnig viðhorf til læsis. Þessi grunnur að lestrarfærni er lagður á heimilum og í leikskóla. Því auðugri sem reynslan er þeim mun meiri bakgrunnsþekkingu bera börnin með sér í grunnskólann og sum börn eru komin vel á veg með lestur í leikskóla og í hvetjandi heimilisaðstæðum án þess að formleg lestrarkennsla hafi átt sér stað.

Bernskulæsi inniheldur hefðbundna læsisþætti sem þróast jafnhliða og hafa víxlverkandi áhrif hver á annan (Razfar og Gutiérrez, 2003; Whitehurst og Lonigan, 1998). Samkvæmt Gunn og félögum (1995) og Whitehurst og Lonigan (1998) eru eftirfarandi þættir oft tilgreindir:

Málþroski (oral language skills): Skilningur á orðum, setningum og textum sem börn hlusta á eða lesa byggist á bakgrunnsþekkingu, orðaforða og hæfileika þeirra til að skilja samhengi texta. Á fyrstu stigum lestrarnámsins þarf barnið að tengja hljóð bókstafanna í merkingarbær orð. Það þarf að skilja orðin til að vita hvort þau eru rétt lesin og passi inn í textasamhengið. Eftir því sem lestrarfærni eykst reynir sífellt meira á orðaforða og málskilning nemenda, en rannsóknir sýna að nemendur sem hafa góðan skilning á talmáli gengur mun betur að læra að lesa.  Orðaforði hefur einnig áhrif á hljóðkerfisfærni. Eftir því sem orðaforði er ríkulegri því betri verður næmi fyrir hljóðkerfinu sem auðveldar börnum að greina  hljóðeiningar og stök hljóð orðanna.

Tilgangur og hlutverk ritmáls (awareness of print):  Reynsla af prenti í gegnum lestur og ritun veitir ungum börnum skilning á tilgangi og hlutverki ritmáls, að ritmálið inniheldur merkingu og hefur ákveðið form.  Rannsóknir hafa sýnt fram á grundvallar þýðingu þessa við tileinkun læsis. Fyrir ung börn felst tilgangurinn með lestri t.d. í því að geta lesið ævintýrin sem barnabókmenntirnar búa yfir og  til að fræðast. Svör barna um lestur og ritun við lok leikskóla geta t.d. verið með eftirfarandi hætti;   „til að maður geti lesið í bók“  „til að vita um allskonar hluti.“ Svör um tilgang ritunar beinist að því að koma upplýsingum á framfæri „til að skrifa bréf“,  „skrifa í tölvu“ (Halldóra Haraldsdóttir, 2010).

Bókstafaþekking og ritun (letter naming and writing): Börn læra bókstafi í gegnum kennslu og tilviljanakennt. Bókstafaþekking leggur grunn að tengingu milli bókstafs og hljóðs og er talin góð forspá um lestrarfærni við lok leikskóla.

Hljóðkerfisvitund (phonological awareness): Í hljóðkerfisvitund felst að hafa tilfinningu fyrir hljóðeiningum málsins (orð, atkvæði, málhljóð) og geta unnið með þær á ólíkan hátt. Börn á leikskólaaldri átta sig smám saman á  hljóðkerfinu í gegnum lestur bóka, leik með málið og notkun ritmáls á eigin forsendum með stuðningi fullorðinna. Góð hljóðkerfisvitund er grundvöllur fyrir skilningi á því að málið byggist á stafrófi og er ein besta forspá um síðari læsistileinkunn.

Tengsl lesturs og máls (relationship of speech and print): Skilningur á að talmál má yfirfæra í ritmál og vitund um að bókstafir en ekki myndir bera söguþráð er grunnur að frekari aðgreiningu á tal- og ritmáli.

Skilningur á uppbyggingu texta (text structures): Það að átta sig á sögubyggingu (persónusköpun, sögusvið, upphafsatburður, söguþráður og sögulok) styður við skilning barna á lengri texta og eflir jafnframt ályktunarfærni þeirra. Lestur barnabókmennta byggir upp næmi barna fyrir skipulagi texta.

Þessir þættir hafa samverkandi áhrif hvor á annan og lærast jafnhliða. Hér má sjá meira um byrjendalæsi

 

Athugasemdir frá höfundi varðandi notkun á hugtakinu bernskulæsi:

Ýmis hugtök eru notuð s.s. byrjendalæsi, bernskulæsi, leikskólalæsi og þróun læsis. Þessi ólíka hugtakanotkun er óheppileg. Hér er hugtakið bernskulæsi (emergent literacy) notað til aðgreiningar frá öðrum hugtökum:

Byrjendalæsi er hugtak notað fyrir ákveðna aðferð í læsiskennslu grunnskólabarna, aðferðin er notuð í yfir 70 skólum á landinu.

Hugtakið læsi í leikskóla finnst mér ekki ná yfir emergent literacy þar sem læsið eflist ekkert síður á heimilum.

Þróun læsis  finnst mér finnst mér helst til þröngt hugtak, finnst það vísa til líffræðilegrar þróunar – en fleira þarf til  þess að barn öðlist lestrarfærni ef læsi er félagsleg virkni.

© Halldóra Haraldsdóttir

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer