You are here

Tengsl stafa og hljóða

Þróun stafaþekkingar

Þekking barna á heitum og hljóðum bókstafanna er ein sterkasta forspárbreytan fyrir gengi þeirra á fyrstu árum lestrarnámsins (sjá t.d. Schatschneider, Fletcher, Francis, Carlson og Forman, 2004). Mikilvægi þessa sambands byggist fyrst og fremst á því að í ritmálum sem byggja á latneska stafrófinu standa bókstafirnir eða hin rituðu tákn fyrir einstökum hljóðum tungumálsins. Til þess að geta lært að lesa slíkt ritmál er skilningur á tengslunum þarna á milli því nauðsynleg forsenda. Mörg börn læra sína fyrstu bókstafi á leikskólaaldri. Til að byrja með takmarkast kunnátta þeirra gjarnan við stafi í þeirra eigin nafni eða annarra sem þau þekkja, en smátt og smátt bætast fleiri stafir við – einkum þeir sem birtast reglulega í þeirra nánasta umhverfi (Levin, Shatil-Carmon og Asif-Rave, 2006). Skilningurinn á samsvörun stafs og hljóðs er þó yfirleitt nokkuð brotakenndur á þessum aldri og oft erfitt að koma börnum í skilning um að þeir sem til dæmis heita Sólveig eða Snorri eiga stafinn S af ákveðinni ástæðu. Flest börn uppgötva þetta þó að lokum og sýna rannsóknir að flest börn þekkja heiti nær allra stafa stafrófsins í lok fyrsta bekkjar, en heldur lengri tíma virðist þó taka að öðlast þekkingu á hljóðum stafanna (Levin o.fl., 2006).

Þrátt fyrir að stafaþekking þróist á tiltölulega skömmum tíma, er mikilvægt að benda á að börn eru mjög mis fljót að læra heiti og hljóð stafanna og jafnvel í öðrum bekk má finna nemendur sem enn eru óöruggir á þessu sviði. Til skýringar á þessum einstaklingsmun hefur verið bent á að mikill munur er á hversu mikla leiðsögn börn hljóta bæði heima fyrir og í leikskólanum og þekking þeirra á stöfum við upphaf skólagöngunnar því mjög mis mikil. Þau börn sem kunna marga stafi í byrjun fyrsta bekkjar hafa því forskot sem önnnur börn sem minna kunna geta átt erfitt með að vinna upp. Nýlegar rannsóknir á þróun stafaþekkingar benda þó til þess að skýringin sé ekki alveg svo einföld. Til dæmis sýndi langtímarannsókn á stafaþekkingu finnskra barna (Torppa, Poikkeus, Laakso, Eklund og Lyytinen, 2006) að þeir þættir sem veittu sterkustu forspána um erfiðleika við að tileinka sér bókstafi í fyrsta bekk tengdust næmi þeirra fyrir hljóðum tungumálsins (t.d. hljóðkerfisvitund og hljóðminni).  Þessir þættir héldu forspárgildi sínu jafnvel eftir að tekið hafði verið tillit til greindar, áhuga barns á lestri og umhverfislegra breyta, eins og t.d. menntunar móður og stafakennslu heima fyrir. Þessar niðurstöður benda til þess að þekking á heitum og hljóðum stafanna byggist ekki aðeins á umhverfislegum þáttum, heldur einnig á færni við að vinna með hljóðkerfi tungumálsins.

Stafaþekking íslenskra barna

Þróun stafaþekkingar á meðal íslenskra nemenda virðist með svipuðu sniði og gerist að jafnaði í öðrum Evrópulöndum. Í fjölþjóðlegri samanburðarrannsókn þar sem hópur íslenskra nemenda var á meðal þátttakenda (Anna Sigríður Þráinsdóttir, Baldur Sigurðsson og Rannveig Lund, 2006; Rannveig Lund, Baldur Sigurðsson og Anna Sigríður Þráinsdóttir, 2005) kom til dæmis í ljós að við upphaf skólagöngu þekktu íslensku nemendurnir 61% stafaheitanna, en í lok skólaársins var það hlutfall komið upp í 97%. Svipaðar niðurstöður fengust úr nýlegri langtímarannsókn á mál- og læsisþróun fjögra til átta ára barna (Freyja Birgisdóttir, 2010, 2011; Hrafnhildur Ragnarsdóttir, Steinunn Gestsdóttir og Freyja Birgisdóttir, 2009) en yngri hópurinn (4-6 ára) sem tók þátt í þeirri rannsókn þekkti heiti 12 stafa að meðaltali við fjögra ára aldur og ári síðar var sú tala komin upp í 20. Í lok fyrsta bekkjar þekktu börnin heiti nánast allra stafanna, eða 26 þeirra sem spurt var um. Þróun stafaþekkingar virðist því almennt komin vel á veg áður en formleg lestrarkennsla hefst (Freyja Birgisdóttir, 2011).

 

© Freyja Birgisdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer