Gough og samstarfsfélagar hans (Gough og Tunmer, 1986; Hoover og Gough, 1990) settu fram líkan af kenningu sinni um lestur og hvaða þættir það eru sem lestur byggir á. Líkanið nefndu þeir „The Simple View of Reading“ eða „einfalda lestrarlíkanið“. The Simple View of Reading leggur áherslu á að lestur felist í grófum dráttum í tveimur meginaðgerðum; annars vegar í færni við að lesa úr bókstafstáknunum (að umskrá orð) og hins vegar í færni við að skilja þann texta sem lesinn er (málskilningi). Líkaninu er ætlað að skýra með einföldum hætti það flókna og margslungna ferli sem á sér stað við lestur.
Einfalda lestrarlíkanið „The Simple View of Reading“ (Hoover og Gough, 1990).
Kenningin leggur áherslu á að lesskilningur og hlustunarskilningur, það að hlusta á lesinn texta, byggist á sömu undistöðufærninni, það er á málskilningi lesandans. Með því að kanna hlustunarskilning lesandans er hægt að einangra skilningsþáttinn frá umskráningunni og kanna undirliggjandi styrkleika og veikleika í hvorum þætti fyrir sig. Rökin fyrir nauðsynlegri og nægjanlegri færni í umskránngu og málskilningi grundvallast á þeirri sýn að þegar færni í báðum þáttum er meiri en 0 mun kennsla sem beinist að öðrum hvorum þættinum efla færni í lestri. Meðal ólæsra mun færni í umskráningu og málskilningi tengjst í öfugu hlutfalli ef áþreifanleg færni er greinanleg í öðrum hvorum þættinum. Að efla læsi með því að ná jafnri færni í málskilningi og hlustunarskilningi bætir ekki endilega stöðu í lestri ef vandinn er aðeins skoðaður út frá hlustunarskilningi, það þarf líka að huga að umskráningu. Og nemandi sem ekki skilur textann en getur einungis lesið úr bókstafstáknunum telst heldur ekki læs þar sem skilninginn vantar (Hoover og Gough, 1990).
Megininntak kenningarinnar um einfalda lestrarlíkanið felst í því að umskráning og skilningur séu aðskildir þættir sem skýri að stærstum hluta hæfni lesenda við að ná lesskilningi. Þar af leiðandi geta börn ekki talist læs nema þau hafi náð valdi á báðum þessum þáttum. Nemandi sem ekki hefur vald á umskráningu getur ekki lesið úr bókstafstáknunum og kemst því ekki í tengsl við innihald textans, sem er hið eiginlega markmið lestrar. Styrkur kenningarinnar í viðbót við það hversu einföld hún er, felst í því að hún lætur í té mikilvæga og prófanlega spáþætti sem hafa þarf að leiðarljósi við lestrarkennslu.
Markmiðið með lestrarnáminu er því tvíþætt; annars vegar að nemendur öðlist færni við að lesa úr bókstafstáknunum og hins vegar að þeir nái að skilja þann texta sem bókstafir, orð setningar og málsgreinar miðla lesandanum. Þótt umskráningin byggi á „bottom-up líkaninu“ er markmið lestrar að skilja efnisinnihaldið og því er nauðsynlegt að vinna einnig með lesskilninginn til að tryggja að meginmarkmiði lestrarfærninnar sé náð (Hoover og Gough 1990:130). Þannig er nákvæmur, sjálfvirkur lestur úrslitaatriði fyrir góðan lesskilning, og enn frekar eftir því sem textinn verður erfiðari. Snow og Juel (2005) leggja áherslu á að kennarar vinni með lesskilning á öllum skólastigum, en ekki ætti að láta nemendur vinna lesskilningsverkefni úr texta sem þeir eiga erfitt með að lesa (umskrá), heldur leggja áherslu á að kenna þeim lesskilning út frá hlustunarskilningi. Ungir nemendur sem ekki hafa náð tökum á lestri ættu einnig að fá lesskilningsþjálfun gegnum hlustunarskilning (Catts, Adlof og Weismer, 2006). Kennarinn les þá upp texta sem hæfir málskilningi nemenda og í kjölfarið vinna þeir aldurssvarandi verkefni í lesskilningi. Stuart, Stainthorp og Snowling (2009), sem allar eru virtir lestrarsérfræðingar í Bretlandi, halda því fram að einfalda lestrarlíkanið skýri betur en önnur líkön þá þætti sem lestur byggir á og því sé það mjög hagnýtt og leiðbeinandi fyrir lestrarkennara.
© Steinunn Torfadóttir
Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer