You are here

Kennsluaðferðir - Umskráning

Grunnaðferðin til að læra að umskrá er samtengjandi hljóðaaðferð þar sem börn læra að tengja saman stök hljóð orðanna og hlusta eftir orðunum sem hljóðin mynda (NRP, 2000; Shanahan, 2005, 2006). Í gegnum þessi hljóðrænu tengsl og merkingu orðanna festast orð og orðhlutar í minni barnanna og verða þannig smám sama tiltæk um leið og þau ber fyrir sjónir við lestur. Þannig verður aukin þjálfun og æfing til þess að börn  þurfa ekki lengur að tengja hljóð orðanna saman, staf fyrir staf þar sem þau þekkja nú yfirleitt  orðin,   geta lesið þau án fyrirhafnar og beint athyglinni að skilningi. Þekki þau ekki orðin sem heild er líklegt að þau þekki a.m.k. einhverja orðhluta og þurfi ekki að umskrá nema lítinn hluta orðanna sem skýrir hversu fljót þau eru að komast í gegnum torskilin löng orð (t.d. orðið sp-erg-ill, flestir þekkja samhljóðasambandið sp og orðið ill og þurfa því aðeins að umskrá erg – hluta orðsins) Ehri, 1992; Ehri og Robbins, 1992).

Börn sem glíma við hljóðræna veikleika (lesblindu/dyslexíu) eiga hins vegar í erfiðleikum með að festa orðin og orðbútana í minninu, þ.e. að byggja upp sjálfvirkan sjónrænan orðaforða og þurfa því oftar en ekki að beita hljóðaaðferð til að lesa hvert einasta orð. Lesturinn verður því oft fyrirhafnarsamur og hægur, sjá nánar undir lestrarerfiðleikar (Ehri, 1997; Ehri og Snowling, 2004).

Kennsla umskráningar fer aðallega fram í fyrstu bekkjum grunnskólans. Í dag er lögð mikil áhersla á að sem flest börn hafi náð valdi á umskráningu við lok 3. bekkjar (Walpole og McKenna, 2007, Shanahan, T., 2005, 2006).

Það þýðir að nemendur geti þá lesið aldurssvarandi texta hratt og rétt. Í töflunni hér fyrir neðan er lýst ferli umskráningarkennslu. Það er mjög misjafnt hversu hratt nemendur fara í gegnum þetta ferli. Sumir fara mjög hratt en aðrir stöðvast á ákveðnum stöðum og þurfa þá nákvæmari kennslu og mikla endurtekningu. Þess vegna er mikilvægt að kennarar fylgist vel með framförum nemenda, sjá um stuðningskerfi Leiðar til læsis 

Á myndbandinu hér fyrir neðan sést dæmi um hvernig hægt er að kenna staf og hljóð hans með fjölbreyttum hætti.

 

Á myndbandinu hér að neðan má sjá sýnishorn úr kennslustund þar sem verið er að þjálfa ritun bókstafa og tengingu hljóða

 

                                                                 

Umskráningarþættir

Kennsla

Hljóðsaga

Hljóðgreining

 

Að kenna bókstafi

Að kenna tengsl bókstafa og hljóða

 

Handskrift  

Að draga til stafs

 

 

 

Upprifjun bókstafa og hljóða

 

Einstaklingsmiðuð kennsla

Börn þurfa að læra að hver bókstafur stendur fyrir ákveðin hljóð tugumálsins og hvernig sú þekking er nýtt til að lesa ritmálið (Otaiba, Kosanovich, Torgesen, 2012).

Sögð er hljóðsaga sem er stutt saga þar sem mikil áhersla er lögð á orð sem byrja á hljóði bókstafsins sem verið er að kenna hverju sinni. Kennari ýkir gjarnan viðkomandi bókstafshljóð við lesturinn til að vekja athygli barnanna á hljóðinu/orðinu.  Að lestri loknum eru orð sem byrja á bókstafnum rifjuð upp og börnin finna jafnframt fleiri orð sem byrja á honum. Kennari getur líka sagt ákveðin orð (sýnt myndir) og spurt nemendur hvort þau heyri hljóð bókstafsins í þeim og nemendur læra að greina hljóðið með því að segja hvort það er til staðar í orðinu eða ekki.

Kennari skrifar bókstafinn á töfluna, segir hvað hann heitir og hvað hann segir, þ.e. hljóð hans og börnin endurtaka nokkrum sinnum (gott er að hafa einnig mynd sem minnir á stafinn, t.d. mynd af ás þegar bókstafurinn á er kenndur og af slöngu eða sól þegar stafurinn s er kenndur).

Kennari sýnir hvernig á að draga til stafs, nemendur æfa sig með því að skrifa hann í loftið með vísifingri  nokkrum sinnum og skrifa hann síðan á blað eða í vinnubók. Með þessu móti festist bæði hljóð og útlit bókstafsins betur í minni barnanna.

Aðrir bókstafir eru kenndir hver fyrir sig með svipuðum hætti en við lok innlagnar eru bókstafir sem þegar er búið að kenna rifjaðir upp og nemendum er kennt að hljóða, þ.e. að tengja þá saman í orð eða samstöfur, sjá næsta lið (Helga Magnúsdóttir, 1987; Björgvin Jósteinsson, Helga Magnúsdóttir og Þóra Kristinsdóttir, án ártals).

Þegar búið er að kenna nokkra bókstafi er rétt að stoppa við og hvetja nemendur til að segja heiti þeirra (og síðan hljóð þeirra) hratt með endurteknum hætti til að stuðla að hraðri endurheimt þeirra við umskráninguna

Nemendur sem eiga í erfiðleikum með að læra stafi og hljóð og eru lengi að kalla þá fram úr minni geta e.t.v. verið með veikleika í hljóðkerfisúrvinnslu og þurfa meiri þjálfun og endurtekningu til að festa þá í sessi. Innlögn bókstafa og hljóða þarf því að vera einstaklingsmiðuð (Walpole og MacKenna, 2007).

 

 

Að umskrá eins atkvæða orð

 

 

 

 

 

 

 

Sérhljóð-samhljóð eða

samhljóð-sérhljóð

 

 

Markviss vinnubrögð og mikil æfing

 

Það virkar hvetjandi að byrja strax að tengja hljóð bókstafanna  í merkingarbær orð

Stafsetning 

(að skrá hljóð orða með bókstöfum)

 

                                                     

Þegar nemendur hafa lært tvo bókstafi og hljóð þeirra (t.d. á og s, eitt sérhljóð og eitt samhljóð) er þeim kennt að tengja þá saman í orð (hljóðtenging). Kennari skrifar fyrst bókstafinn á á töfluna og spyr börnin hvað hann segi og börnin svara. Hann skrifar síðan bókstafinn s fyrir aftan bókstafinn á (ýkir bilið á milli bókstafanna) og spyr um hljóðið og börnin svara.  Hann biður börnin síðan að hljóða stafina saman, hlusta á orðið sem myndast og setur um leið tengiboga á milli bókstafanna 

(Á   s). Þetta ferli er endurtekið nokkrum sinnum.  Síðan er orðinu snúið við og byrjað á bókstafnum s og orðið sá tengt saman með sama hætti ( S   á).

Þegar búið  er að kenna fleiri bókstafi, t.d. í og r aukast strax möguleikarnir á að búa til fleiri eins-atkvæða orð (ár, ís, ás, sár, rás, rís) og er hljóðtenging þeirra kennd með sama hætti og lýst var hér að ofan(Helga Magnúsdótir, 1987; NRP, 2000; Otaiba, Kosanovich, Torgesen, 2012; Ehri, 2004, 2005; Adams, 2003; Shanahan, 2005,      2006).

Sambærileg vinnubrögð eru viðhöfð á hverjum degi þannnig að nemendur fá mikla æfingu í að umskrá. Orðin eru síðan sett á lista og nemendur æfa sig í að lesa þau hratt og með góðri lesfimi. Nemendur eru einnig látnir stafsetja orðin sem hjálpar þeim að sundurgreina hljóð orða og festa tengsl stafa og hljóða í minninu (sjá hvernig hér fyrir neðan)

Takið eftir að þó hver stafur sé kenndur einn og sér þá er hann strax tengdur við aðra stafi sem nemendur eru búnir að læra og þannig settur í merkingarbært samhengi um leið og hægt er. Þessi nákvæmu vinnubrögð sem sýnd eru í töflunni hér fyrir ofan gera nemendum kleift að byrja að lesa merkingarbær orð og stuttar einfaldar setningar mjög fljótlega eftir að lestrarnám hefst sem hvetur þá áfram.

Kennari biður börn um að stafsetja orð með því að skrifa stafi orðsins í þeirri röð sem hljóð þeirra heyrast þegar þau segja orðið mjög hægt. Hann sýnir þeim síðan hvernig á að gera. Eftir það biður hann nemendur um að reyna sjálfa að stafsetja orð um leið og þau segja það hægt í hálfum hljóðum þannig að þau heyri betur hvert einasta hljóð orðsins (þ.e. nemendur reyna að sundurgreina öll hljóð orðsins ).

Eftir að nemendur hafa reynt að stafsetja orðið sýnir kennari hvernig á að stafsetja það með því að skrifa það hægt á töfluna og segja hljóðin um leið.

Nemendur athuga stafsetningu sína og laga ef með þarf, gera tilraun með annað orð o.s.frv. (Otaiba, Kosanovich, Torgesen, 2012). Sjá einnig um upphugsaða stafsetningu  hér fyrir neðan.

Að kenna  algeng orð

Nemendum er kennt að þekkja nokkur algeng smáorð svo auðveldara sé að búa til merkingarbærar setningar til að æfa lestur. Helstu orðin eru:  og, ekki, að, ég

Markmið hljóðaðferðar

Ritháttarmyndir orða og orðhluta í sjónrænu orðasafni hugans

Nákvæm kennsla í umskráningu er undirstaða sjónræns orðaforða og góðrar sjálfvirkni

Upphugsuð stafsetning

 

 

Að umskrá tveggja- atkvæða orð, samsett orð og lengri orð

 

 

Lesbútar

 

 

 

 

Börn með lesblindu þurfa þjálfun í að beita lesbútaaðferð

Markmið hljóðaaðferðar er að nemendur nái að festa ritháttarmyndir allra orða og orðhluta  í sjónrænu orðasafni hugans (sjá nánar um þróun lestrarfærni).

Þegar nemendur umskrá sama orð (og orðhluta) með endurteknum hætti festast ritháttarmyndir þess í sjónrænu orðasafni hugans út frá nákvæmum tengslum stafs og hljóðs við merkingu orðanna.  Orð sem eru til staðar í sjónræna orðasafninu eru alltaf tiltæk sem heildir um leið og nemendur sjá þau á prenti. Nemendur þurfa því ekki lengur að hljóða sig gegnum orðin staf fyrir staf en geta lesið þau beint með sjálfvirkum hætti og lestur þeirra verður bæði hraðari og nákvæmari. Þess vegna er svo mikilvægt að kenna nemendum nákvæma umskráningu (að umskrá hvern bókstaf orðsins í hljóð og tengja saman með nákvæmum hætti til að finna merkingu þess) við upphaf lestrarnámsins. Fari nemendur ekki í gegnum nákvæma umskráningu festast ritháttarmyndir orðanna ekki með nægilega nákvæmum hætti í minninu og lesturinn verður hægur og ónákvæmur. Nemendur með veikleika í hljóðkerfisúrvinnslu  (lesblindu/dyslexíu) þurfa sérstaklega nákvæma kennslu og að eiga kost á mikilli endurtekningu við lestrarnámið þar sem þeir þurfa að umskrá orð mun oftar en aðrir nemendur til að þau festist í sjónrænu minni þeirra. Það tekur þá oft langan tíma að ná góðri umskráningarfærni og lesturinn getur orðið hægur og hikandi þangað til settu marki er náð. 

Til að styrkja hljóðkerfisúrvinnslu nemenda er árangursríkt að vinna með upphugsaða stafsetningu, þ.e. að stafsetja/skrifa út frá heyrnrænni sundurgreiningu á hljóðum orðanna. Þá velja nemendur sjálfir orðin sem þeir stafsetja, oft út frá myndum eða atburðum sem eru þeim ofarlega í huga (Ehri, 1997,1998, 2002, 2004; Moats, 2006; Morris, 2005).

Íslenska er tiltölulega hljóðrétt tungumál (Anna Sigríður Þráinsdóttir, Baldur Sigurðsson og Rannveig G. Lund, 2006) og því er mögulegt að umskrá öll orð með hljóðaaðferðinni. En eftir því sem orðin verða lengri fer að reyna meira á hljóðrænt skammtímaminni nemenda við að muna og tengja saman stök hljóð orðanna (t.d. orðið n-e-m-a-n-d-i) og álagið getur valdið ónákvæmni og bitnað á lesskilningi. Þess vegna er nemendum m.a. kennt að lesa í lesbútum/orðbútum, t.d. ne-man-di, (athugið að þetta er ekki atkvæðaskipting  samkvæmt hefðbundnum málfræðireglum íslenskunnar og þess vegna er orðið lesbútar notað).

Börn sem hafa góðar forsendur til lestrar og eru fljót að tileinka sér tengsl stafa og hljóða virðast finna af sjálfsdáðum hvernig best er að skipta orðum í viðeigandi hljóðeiningar (lesbúta) til að auðvelda umskráningu orða.  Í upphafi lestrarnámsins lesa þau hvert hljóð orðsins en fljótlega, oft næstum ómeðvitað, fara þau að lesa í orðbútum, fyrst stutt orð og samsett orð, t.d. s-í-l-i sem sí-li  og húsbíll sem hús- bíll. Þau festa ógrynni orða og orðhluta í minninu og ná að yfirfæra þá þekkingu á lestur enn lengri orða sem þau hafa ekki séð áður. Þau eru einnig fær um að nýta sér þekkingu á tengslum stafa og hljóða hvenær sem þörf er á til að umskrá orð og athuga hvort þau eru rétt lesin (Hall og Moats, 1999).

Börn sem standa ekki eins vel að vígi gagnvart lestrarnáminu, t.d. þeir sem glíma við hljóðræna veikleika (eru með lesblindu/dyslexíu) geta verið lengi að ná tengslum stafa og hljóða og að festa orð og orðhluta í sjónrænu orðasafni hugans. Þessir nemendur  þurfa nákvæma kennslu til að geta beitt lesbúta-aðferð (Ehri og Wilce, 1983). Eftir að þeir verða færir um að umskrá tveggja til þriggja atkvæða orð er þeim kennt að skipta þeim í lesbúta, lesa hvern lesbút  sem orð og tengja þá síðan saman í orð og athuga hvort þeir skilji orðið. Til að þjálfa þennan þátt má t.d. ljósrita blaðsíður úr lesefni nemenda, setja strik á milli lesbúta og aðstoða þá við að lesa bút fyrir bút. Einnig má skrifa orð á spjöld, klippa í lesbúta og láta nemendur raða saman og  umskrá (Notari-Syverson, O´Connor, Vadasy, 2005, Rannveig G. Lund, 1988, 2009).

Tvíhljóð og samhljóðasamböndd

Í íslenskum lestrarkennslubókum er yfirleitt endað á að kenna tvíhljóðin ei og au. Í framhaldi þess er farið að leggja áherslu á að kenna samhljóðasambönd eins og sv, sj, st og hv (til að vera fær um að lesa spurnarorð).

Ekki þarf að kenna öllum nemendum hvert og eitt samhljóðasamband þar sem þeir hafa nú þegar náð góðri umskráningartækni og lesa orð með samhljóðasamböndum nokkuð fyrirhafnarlaust. Öðrum þarf að kenna samhljóðasambönd með markvissum hætti og þurfa kennarar að fylgjast vel með upplestri nemenda til að koma auga á hvaða nemendur þurfa þess með.

Stutt sérhljóð á undan tvöföldum samhljóðum

Nemendur þurfa að læra að greina mun á stuttu og löngu sérhljóði. Venjulega er byrjað á að kenna nemendum að lesa og skrifa orð með löngu sérhljóði sem er mun algengara í íslensku talmáli. Margir nemendur eiga í erfiðleikum með að greina stutt sérhljóð á undan tvöföldu samhljóði, bæði í lestri og stafsetningu, með þeim afleiðingum að þeir lesa og stafsetja orðin rangt.

Hopparinn er aðferð til að kenna nemendum að greina stutt sérhljóð á undan tveimur samhljóðum í orðum.

                                                                                        

Kennarinn skrifar, t.d. orðið hoppa, á stórt karton (stafirnir þurfa að vera jafnstórir og fætur nemenda) og leggur það á gólfið. Hann útskýrir síðan tilgang verkefnisins og sýnir nemendum hvað þeir eiga að gera:

Nemendur þurfa að taka stökk frá fyrsta samhljóði orðsins (h), yfir stutta sérhljóðið (o) og lenda jafnfætis á samhljóðin tvö sem á eftir koma (pp) og stíga svo með öðrum fæti yfir á síðasta hljóðið (a)  sem er langt hljóð á eftir tvöfalda samhljóðinu.

Nemendur segja orðið í takt við hreyfinguna um leið og þeir hoppa. Líkaminn er þannig látinn fylgja eftir hraða og áherslum við lestur orðsins.  Með þessu móti skynja nemendur betur samspil stuttra sérhljóða á undan tvöföldu samhljóði sem hjálpar þeim að festa framburð og stafsetningu betur í minni (Helga Sigurmundsdóttir og Steinunn Torfadóttir, 2011).

Þróaðri umskráning

 

 

 

 

 

 

Meira um lesbúta

og

marg-atkvæða orð

 

Hliðstæður

 

Ekki er mælt með að kenna byrjendum að lesa út frá hliðstæðum

 

 

 

Benchmark lestrarprógrammið

Með auknum lestri á stigþyngjandi lesefni sjá nemendur að mörg orð hafa sameiginlegar orðeiningar eins og forskeyti (t.d. á-, ó-, and-, mis-) og endingar (-ur, -ir, -un, -um, -ar) orða.

Sem dæmi má nefna endinguna –ing  en hún kemur t.d. fyrir í orðunum kerl-ing, spreng-ing, rign-ing og teikn-ing. Þegar nemendur umskrá -ing með endurteknum hætti í mismunandi orðum festist endingin sem heild í sjónrænu orðasafni hugans. Nemendur þurfa því ekki lengur að umskrá hvern staf í hljóð og tengja saman en geta  lesið hana sem heild um leið og hún ber fyrir sjónir. Þekking á stærri og fleiri hljóðeiningum og orðum eflir sjónrænan orðaforða og gerir lesendur færa um að mynda fleiri tengingar við lestur á marg-atkvæða og óþekktum orðum (orð sem nemendur hafa ekki lesið fyrr). Lestur í stærri orðeiningum minnkar auk þess álag á minnið þannig að nemendur geta lesið hraðar og beint athyglinni í meira mæli að lesskilningi (Ehri, 2005; Ehri og Wilce, 1983; LaBerge og Samuels, 1974).

Oftast ná íslenskir nemendur að  lesa löng orð með hljóðaaferð í grunninn og síðan með hjálp orðbútaðferðar (sjá hér að ofan).

Kennarar geta kennt nemendum að skipta orðum niður í lesbúta (orðhluta) og nýta sér morfemuppbyggingu orða bæði til að auðvelda lestur á marg-atkvæða orðum og  til að auka meðvitund þeirra á merkingarbærum einingum innan þeirra (O´Connor, 2007)

Einnig er hægt að kenna þeim að nýta sér hliðstæður samhliða umskráningu sem felst  t.d. í því að nýta sér orðið fáni til að lesa orðið máni. Skilyrði fyrir því að nota hliðstæður til að lesa er að viðmiðunarorðið sé hluti af sjónorðaforða barnsins (þ.e. að barnið hafi séð og lesið það nægilega oft til að festa það í orðaforðasafni hugans þannig að það sé tiltækt um leið og það ber fyrir sjónir) (Brownell o.fl., 2012).

Ekki er mælt með að kenna byrjendum að þekkja orðhluta og lesa út frá hliðstæðum. Ástæðuna má rekja til þeirrar staðreyndar að nemendur sem byggja á lestri út frá hliðstæðum hafa minni lestrarfærni en byrjendur sem greina hvert hljóð orðsins frá hljóði til hljóðs. Aðferð sem byggja á að nemendur lesi út frá orðhlutum eða stafaklösum er ekki eins áhrifarík og hefur ekki jafnmikið yfirfærslugildi og hljóðræn umskráning. Þess vegna er mikilvægt að byrja lestrarkennslu á því að kenna nemendum að umskrá stafi í hljóð og tengja saman í orð eins og lýst er fremst í töflunni (Otaiba, Kosanovich, Torgesen, 2012).

 

Eitt þekktasta lestrarkennsluprógramm sem byggir á lestri út frá hliðstæðum er kennt við Benchmarckskólann. Upphaflega fólst það í að kenna nemendum að lesa ný orð út frá 120 lykilorðum sem nemendur þurftu að byrja á að læra. Það var síðan endurbætt og tók ný útfærsla mið af kenningu Ehri um þróun sjónræns orðaforða. Í kjölfarið var nemendum kennt að umskrá út frá tengslum bókstafa og hljóða með það að markmiði að festa lykilorðin 120 í sjónrænum orðaforða nemenda fremur en uppi á veggjum skólstofa (classroom wordwall). Samanburðarrannsóknir leiddu í ljós að endurbæturnar skiluðu umtalsverðum árangri ekki síst í tveimur yngstu bekkjadeildunum (Gaskins, Ehri, Cress, O´Hara og Donelly, 1996; Ehri, 2005).

Sjónorð- Lesfimi

Hér á eftir fara tvær aðferðir ætlaðar til að efla sjónrænan orðaforða nemenda sem síðan stuðlar að aukinni lesfimi. Því fleiri orð sem nemendur ná að festa í sjónrænu minni hugans þeim mun betri verður lesfimi þeirra (Rasinski og Samuels, 2011).

Að lesa stök orð

Kennari velur orð sem hann telur að nemendur þurfi að æfa, setur þau á spjöld svo nemendur geti flett og lesið eitt orð í einu. Oft verða fyrir valinu orð sem nemendur eru nýbúnir að æfa sig í að lesa, t.d. algeng orð sem koma fyrir í lestrarbókum þeirra. Kennarar geta einnig kosið að kenna nemendum orð sem koma bráðlega fyrir í lesefni þeirra til að auðvelda þeim lestur í nánustu framtíð. 

Fjöldi orðaspjalda hverju sinni ræðst af getu nemenda.

Vinnuferli:

  1. Nemendur hljóða sig í gegnum orðin þegar þeir lesa í fyrsta sinn.
  2. Þeir lesa orðin aftur og aftur þangað til þeir geta lesið flest orðin á innan við sékúndu.
  3. Að lesa upp úr boxinu. Nemendur skrifa sjálfir orð (sem þeir hafa, t.d. hnotið um í lestrinum eða þykir á einhvern hátt áhugaverð) á spjöld sem þeir safna saman í box. Þegar ákveðnum fjölda er náð tína þeir spjöldin, eitt og eitt upp úr kassanum og æfa sig að lesa orðin. Nemandi getur lesið spjöldin tvisvar til þrisvar sinnum eða þangað til lesturinn er orðinn þjáll. Hægt er að mæla tímann til að sjá framfarir við endurtekningarnar. Nemendur geta einnig unnið saman í pörum.

Lestur stuttra setninga og málsgreinar

Kennari velur eða býr til stuttar setningar eða málsgreinar með orðum sem nemendur þurfa að festa í sjónrænum orðaforðasafni sínu. Varast skal að hafa orðin of mörg í hverri setningu eða málsgrein. Hægt er að hafa setningar á spjöldum eða að raða þeim saman í stuttar efnisgreinar sem nemendur lesa af blaði. Þyngd lesefnisins þarf að vera hæfilegt, þ.e. að nemandi geti lesið það með allt að 95 % nákvæmni.

Vinnuferli:

  1. Nemendur lesa setningarnar a.m.k. þrisvar sinnum.
  2. Stundum er tíminn mældur og skráður eftir hvern lestur.

                                                                          (Otaiba, Kosanovich, Torgesen, 2012)

Helga Sigurmundsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer