You are here

Hljóðaaðferð

Hljóðaaðferð í lestrarkennslu

Finna má ýmsar útfærslur á hljóðaaðferðinni í hinum ýmsu kennsluprógrömmum, jafnvel einnig prógrömmum sem byggja á  heildaraðferð (whole languge).      Grundvallaratriði hljóðaaðferðarinnar er að nemendur skilji að bókstafirnir tákna hljóð orðanna í talmálinu. Helsti kostur aðferðarinnar er að nemendur læra skilvirka tækni til að lesa stöðugt ný og ný orð sem koma fyrir í texta. Durkin (1978-1979) skilgreinir hljóðaaðferðina sem: ,,hverja þá aðgerð sem kennari beitir til að kenna nemendum að umskrá orð.  Þetta getur falist í eftirfarandi aðferðum:

  • Samtengjandi og sundurgreinandi aðferð. Nemendur læra heiti bókstafina, hvaða hljóð þeir eiga og hvernig á að tengja hljóð þeirra saman í orð. Nemendur geta fljótlega farið að lesa stutt orð og einfalda texta sem innihalda þá stafi sem þeir eru búnir að læra. Nemandinn segir hljóð stafanna í orðunum með því að ,,hljóða sig gegnum orðin". Þetta kallast að umskrá orðið, en það felst í því að nemandinn verður að geta aðgreint (sundurgreint) öll hljóðin í orðinu til þess að greina hljóm orðsins, og heyrt hvaða orð hann er að lesa. (Dæmi: sólin  s-ó-l-i-n (sundurgreining) = sólin (samtenging). Lögð er áhersla á að lesa stutta, einfalda, merkingarbæra texta sem stigþyngjast eftir því sem nemendur þjálfast í lestrinum. Þannig verða orðin smám saman erfiðari í umskráningu og innihald textans stöðugt flóknara, þannig að meira reynir á lesskilning. 
  • Sundurgreinandi og samtengjandi aðferð. Unnið með tengsl bókstafa og hljóða gegnum ritun. Nemandinn lærir að skrá orð með bókstöfum og skynjar um leið að orðin hafa hljóð sem hægt er að tákna með bókstöfum (sundurgreining).  Nemandinn les orðin sem hann skrifar (samtenging). Oft er byrjað á að vinna með orð sem nemandinn þekkir og unnið með orðalista sem hafa svipað stafamynstur eða skrifuð saga með aðstoð orðkorta og kennara.
  • Greining orðhluta. Þetta felst í því að finna orð sem hafa sama stafamynstur (innihalda sömu bókstafi) og læra utan að hvernig þetta stafamynstur hljómar og geta sagt það án þess að hika þegar það birtist í texta, sbr. hús, hús (-ið), hús (-in), hús (-bíll), hús (-þak.  Ehri  (2005) telur að þessi aðferð gagnist ekki til lengdar, nema að nemandinn hafi þekkingu á tengslum bókstafa og hljóða.

© Steinunn Torfadóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer