You are here

Heildaraðferð

Heildaraðferð í lestrarkennslu (whole language), einnig þekkt undir heitinu “look and say” eða orðaaðferð byggist á því að börnin læri að þekkja ritháttarmyndir orðanna. Menn hafa lengi vitað að það er fljótlegra að ná merkingu textans með því að lesa orðin í heild, fremur en að þurfa að nefna alla stafi orðsins. Rökin fyrir þessari aðferð eru meðal annars þau að þegar börn læra að tala læri þau orðin í heild og þurfi ekki að gefa gaum að hverju einstöku hljóði þeirra. Þannig byggir heildaraðferðin á þeirri sýn að lestur sé náttúrulegt ferli sem barnið uppgötvar smátt og smátt með svipuðum hætti og það náði tökum á talmálinu.  Þetta var talin i árangursríkasta leiðin til að ná efnisinnihaldi lesefnisins. 

Kennsluaðferðin byggist á því að börnin lesa litlar, ríkulega myndskreyttar bækur með fyrirsegjanlegum myndum og textum og út frá þeim geta börnin giskað á ný orð sem koma fyrir á blaðsíðunum. Til að byrja með er textinn afar einfaldur, allt frá tveggja til fimm orða setningu þar sem einungis er skipt um eitt orð á blaðsíðu. Dæmi: Hvar er kennarinn? Hann er ekki á leikvellinum. Hann er ekki í skólastofunni. Hann er ekki á bókasafninu, o.s.frv. Ný mynd fyrir hverja staðsetningu. Smám saman eykst og þyngist textinn eftir því sem börnin læra fleiri orð og myndum fækkar að sama skapi. Talsmenn þessarar aðferðar töldu að þetta væri betri leið til að nálgast markmið lesturs, það er að ná að skilja það sem lesið er. Þeir töldu jafnframt að hljóðaaðferðin truflaði og afvegaleiddi börnin svo athygli þeirra festist við bókstafi og hljóð fremur en innihald textans.
Þetta varð upphaf að löngu stríði um það hvort betra væri að beita heildaraðferð í lestri eða hljóðaaðferð. Í dag vita menn að báðir aðilar höfðu að einhverju leyti rétt fyrir sér. Börn þurfa að læra að lesa í heilum orðum eins og heildaraðferðin lagði áherslu á, en besta leiðin til að læra orðin er ekki út frá sjónminni. Orðin festast í sjónrænu langtímaminni gegnum framburð orðanna í tengslum við merkingu þeirra og þess vegna er mikilvægt að beita hljóðaaðferðinni við lestrarkennslu byrjenda og að vinna með merkingarbær orð. Þetta er ekki hvað síst mikilvægt fyrir lesblinda nemendur, þar sem vandi þeirra felst í erfiðleikum við að byggja upp sjónrænan orðaforða vegna veikleika í hljóðkerfisþætti tungumálsins. Fyrir þessa nemendur er það algjört úrslitaatriði að vinna markvisst með tengsl stafs og hljóðs, bæði gegnum lestur og ritun.

Þeir sem leggja áherslu á  “whole language” nálgun í lestrarkennslu hafa nú bætt inn áherslum á tengsl bókstafa og hljóða. Þeir telja hugsmíðahyggjuna leggja til náttúrulega aðferð við að læra að lesa, en sú sýn lítur á nemandann sem virkan þátttakanda (Stanovich, 1994). Menn hafa meðal annars notað áherslur hugsmíðahyggjunnar til að búa til prógrömm til að kenna börnum hljóðræna umskráningu. Rökin fyrir því að kenna umskráningu út frá hugsmíðahyggju byggjast á þeirri áherslu að mikilvægt sé að börn kynnist tilgangi bókstafanna (the alphabetic principle) þar sem bókstafirnir standi fyrir hljóð orðanna í tungumálinu. Þannig hafa verkefni sem byggja á ritun, að skrifa orð og hlusta eftir hljóðum stafanna (upphugsuð stafsetning) meðal annars verið sett inn í lestrarkennsluprógrömm sem byggja á “whole language.”
"Making Words" er aðferð sem þróuð var út frá athugunum á eðlilegri þróun stafsetningar. Þetta er aðferð til að kenna umskráningu/lestur gegnum stafsetningu. Unnið er með safn bókstafa sem gefa möguleika á að búa til mismunandi orð. Börnin vinna til dæmis inn í sjö eða fleiri stafa-kassa. Þau eiga síðan að búa til tveggja, þriggja, fjögurra stafa orð, eða  allt eftir fjölda stafanna. Orðin eru skrifuð á orðkort og síðan notuð í mismunandi verkefnum (t.d. sögugerð). Nemendur geta raðað saman líkum orðum og skoðað lík stafamynstur eða parað saman orð og myndir. Einnig þjálfað nákvæmni í stafsetningu.
Fjölmargar rannsóknir bæði á lestri stakra orða (Ehri, 1997 og 1998) og stafsetningu (Bear & Barone, 1989; Bear o.fl., 2000), sýna markvissa þróun hjá börnum hvað varðar  þekkingu og beitingu á stafrófinu.
Ehri (1998, 2000) ályktar að börn fari í gegnum fjögur þróunarstig á leið sinni við að læra að þekkja orð sjónrænt og vinna með tengsl stafs og hljóðs. Eftir því sem hljóðkerfisvitund barna þróast verði þau betur og betur fær um að greina og vinna með hljóð orðanna, fyrst byrjunar hljóð og síðan önnur áberandi hljóð í orðunum  (Sjá nánar um þetta í kenningu Ehri um þróun lestrar).

 © Steinunn Torfadóttir

 

 

 

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer