Orðaforði er sá fjöldi orða sem hver og einn skilur og getur notað við að hlusta, tala, lesa og skrifa (Snow, Burns & Griffin, 1998).
Öflun orðaforða fer fram með beinum hætti í kennslu og markvissri leit að merkingu, en einnig með óbeinum hætti við daglega reynslu, hlustun, samræður og lestur. Orðaforði er ein helsta forsenda lesskilnings. Börn þurfa að þróa með sér meðvitund um orð, sem felur í sér áhuga, forvitni og löngun til að skilja merkingu þeirra (Tankersley, 2003).
Talið er að börn á skólaaldri læri aðallega orð með eftirfarandi hætti:
Með beinni kennslu
Merking orða er útskýrð fyrir nemendum (t.d. af foreldrum eða kennurum) eða að þeir leiti skýringa í orðabókum eða orðasöfnum.
Út frá samhengi lesefnis
Nemendur nota vísbendingar bæði út frá málþekkingu sinni og lesefni til að finna merkingu orða sem þau þekkja ekki. Vísbendingar í lesefni geta t.d. falist í
- auka- eða innskotssetningum,
- útskýringum,
- endurtekningum,
- myndum,
- dæmum,
- líkingum,
- samheitum eða orðum með svipaða merkingu.
Bakgrunnur og fyrri þekking nemenda hjálpa þeim einnig við að skilja og draga ályktanir út frá upplýsingum sem koma fram í lesefninu.
Út frá orðhlutagreiningu
Nemendur geta ráðið í merkingu orða með því að greina orðhluta þeirra svo sem stofn, forskeyti og beygingarendingar (Nippold, 1988 sbr. Pence & Justice, 2008).
Atriði sem skipta máli þegar ný orð eru kennd.
1. Val á orðum til að kenna með beinum hætti. Ekki er hægt að kenna merkingu allra orða sem lesin eru með nemendum, en gott er að hafa eftirfarandi atriði í huga við val á orðum til að kenna:
- Lykilorð. Orð sem skipta máli svo nemendur skilji lesefni sem unnið er með hverju sinni.
- Gagnleg orð. Orð sem koma oft fyrir í mismunandi lesefni og allir þurfa að kunna.
- Áhugaverð orð. Orð sem ýta við ímyndunaraflinu, vekja áhuga og löngun til að glíma við þau. Til dæmis orð sem eiga áhugaverða sögu, hafa óvenjulegan uppruna, eru dularfull eða vekja forvitni nemenda.
- Orð sem auðvelt er að greina í orðhluta. Orð sem sýna hvernig hægt er að ráða í merkingu út frá byggingu þeirra.
2. Að kenna orð í tenglsum við önnur orð.
Með því móti verða nemendur að nota fyrri þekkingu og reynslu til að sjá það sem er líkt og ólíkt með orðunum. Nemendur læra að tengja saman, útiloka, flokka, velja og draga ályktanir.
3. Að kenna nemendum að tengja orð við fyrri þekkingu.
Hvaða vitneskju búa nemendur nú þegar yfir sem getur hjálpað þeim að skilja og festa í minni merkingu orða.
4. Að kenna orð sem koma fyrir í texta áður en nemendur lesa hann.
Tilgangur þess er að virkja fyrri þekkingu nemenda t.d. til að geta sér til um efni sögunnar og auðvelda notkun orðanna við úrvinnslu efnisins eftir að búið er að lesa hana t.d. í umræðum, svörum og endursögnum.
5. Að kenna orðin kerfisbundið og af dýpt.
Nemendum eru kennd 10-12 náskyld orð sem unnið er með í ákveðinn tíma í mismunandi samhengi. Til þess að ná dýpri skilningi á orðum þurfa nemendur meðal annars að geta endurorðað skilgreiningu þeirra með eigin orðum eða búið til setningu sem sýnir skilning á orðinu.
6. Að vekja áhuga á orðum og vinnu með þau.
Til að koma í veg fyrir að vinna með orðin verði einhæf og leiðigjörn er hægt að bregða á leik, láta nemendur leika orðin, segja sögur um þau, taka myndir af þeim eða hlutum sem lýsa þeim (Vacca o.fl., 2006).Pence, K. L., Justice, L. M. (2008). Language development from theory to practice. New Jersey: Pearson.