You are here

Kennsluaðferðir - Ritun

Það hefur gefið góða raun að kenna lestur í nánu samhengi við ritun og stafsetningu þar sem þessi ferli þróast samhliða og styðja hvert annað.

Ritun leiðir til meiri lesturs, ýtir undir lesskilning og að nemendur tjái hann með eigin orðum. Þannig skapast t.d. tengsl milli hins þekkta og óþekkta sem myndar grundvöll að nýrri þekkingu.

Gott er að hafa í huga að skipuleggja námsumhverfið þannig að það stuðli að áhuga fyrir ritun og sýni að kennari hafi trú á að börnin geti smám saman þróað skrif sín.

Gefa þarf góðan tíma fyrir ritun, finna tilefni, veita endurgjöf og gera nemendur meðvitaða og stolta af eigin sköpun (Vacca o.fl., 2006).

Eftirtaldir þættir (Graham og Harris,1993) valda nemendum oft erfiðleikum við ritun:

  1. Lítil umskráningarhæfni (stafsetning og stafsetningarreglur)
  2. Lítil þekking á helstu ritunarferlum, þar með talin vitneskja um efni, endurheimt á þekkingu úr minni, uppbyggingu texta og það að gera sér grein fyrir hvaða aðferðum þarf að beita.
  3. Erfiðleikar við skipulagningu og endurskoðun (sjá mynd 1).

 

Ritunarferlið lýsir ferlinu sem á sér stað við ritun t.d. sögu,  skýrslu eða ritgerðar og hvernig sá sem ritar þarf að fylgjast jafnóðum með framgangi verksins á meðan ritunin á sér stað.

1. Ákveða tilefni ritunar og form.

2. Skipuleggja upplýsingar sem sóttar eru í þekkingargrunn nemenda og ákveða hvernig hægt er að setja þær fram með ákveðnum hætti. Undirferlar skipulagsstigsins felast í að:

  • ákveða hvaða upplýsingar eiga við og sækja þær í langtímaminni
  • skipuleggja upplýsingarnar sem sóttar voru
  • setja markmið fyrir textann og viðmið til að meta hann
  • ákveða aðferðir/hvernig á að vinna til að geta lokið verkinu

3. Vinnsla. Við skrifin þarf að velja orð og fyrirkomulag sem hentar tilgangi verksins.

4. Endurmat. Textinn er metinn og lagaður til að gera hann betri.

Hver þáttur ritunarferlisins þarfnast meðvitaðra aðferða (metacognitive strategies):

Undirbúningur: Nemendur verða að vita tilgang með skrifunum, fyrir hvern skrifað er og hvað þarf að kunna til þess að vinna verkið.

Skipulag: Nemendur verða að búa yfir aðferðum til að skipuleggja uppbyggingu, flokka hugmyndir og efnisþætti og búa til fyrirsagnir

Framsetning: Nemendur verða að geta flokkað saman eftir efninu, raðað því rétt eftir efnisgreinum og kaflaskipan, séð hvar þarf að bæta inn hugmyndum og rökstyðja þær.

Endurmat: Nemendur verða að geta fylgst með hvort þeir fylgi áætlunum og hvort skipulag og fyrirhugaður tilgangur hafi náðst.

Nemendur þurfa að læra að nota ritunaraðferðir og geta fylgt þeim eftir með sjálfstæðum hætti. Einnig þurfa þeir að fylgjast  með framförum sínum, læra af mistökum og lagfæra þau.

Kenna þarf þeim sem eiga í erfiðleikum með ritun á markvissan hátt, m.a. með því að:

Kenna alla þætti ritunar sérstaklega, þ.e. að skipuleggja, setja upp og vinna, meta og endurskoða.

Tryggja mikla þjálfun við margs konar ritunarverkefni til að festa vinnubrögðin í sessi og til að hjálpa þeim að skipuleggja og setja fram upplýsingar.

Styðjið nemendur með því að

  • sýna dæmi um hvernig hlutir eru skipulagðir við raunverulegar aðstæður og gefa innsýn í hugsunarferlið á bak við skipulagið
  • sýna hvernig á að vinna verkið
  • taka lykilatriði upp á segulband og láta nemendur hafa til upprifjunar og stuðnings

Kennið hugtök sem þarf að nota við ritun eins og orð, setningar,  málsgreinar, hvernig  þær tengjast og geta staðið sjálfstæðar.

Kennið algeng orðtök og líkingar.

Sýnið dæmi um mismunandi vel gerð ritunarverkefni og dragið fram styrk- og veikleika þeirra til að læra af.

Gerið ráð fyrir að nemendur þurfi lengri tíma til að vinna að uppkasti á ritunarverkefnum.

Leyfið tölvunotkun þegar það á við.

Hengið stafsetningar- og ritunarreglur upp á áberandi stað  í kennslustofunni (Hatcher, 2006:267).

 

© Helga Sigurmundsdóttir og Steinunn Torfadóttir.

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer