You are here

Greiningarpróf

Orðaskil-málþroskapróf

Prófið byggir á orðaforðagátlista fyrir börn á aldrinum eins og hálfs til þriggja ára. Prófinu er ætlað að mæla orðaforða barnanna svo og hvort þau hafa náð valdi á beygingarkerfi og setningagerð málsins. Aldursviðmið fylgja prófinu, en með samanburði við þau er skorið úr um hvort málþroski barna mælist innan eðlilegra marka miðað við jafnaldra. Höfundur prófsins er Elín Þöll Þórðardóttir.
 
Íslenski þroskalistinn
 
Listinn er ætlaður fyrir þriggja til sex ára börn. Mæður barnanna svara listanum og meta getu þeirra á mál-og hreyfisviði. Prófþættir eru: Málþáttur (hlustun, tal og nám), hreyfiþáttur (grófhreyfingar, skynhreyfingar og sjálfsbjörg). Til samans mynda undirprófin sex eina þroskatölu, sem gefur til kynna almennan þroska barnsins að mati móður. Höfundar prófsins eru Einar Guðmundsson og Sigurður J. Grétarsson.
 
Íslenski smábarnalistinn
 
Listinn er frumsaminn og staðlaður þroskalisti til að meta málþroska, hreyfiþroska og sjálfsbjörg ungbarna á aldrinum 15 til 38 mánaða. Hann er sjálfstætt framhald af  Íslenska þroskalistanum. Höfundar prófsins eru Einar Guðmundsson og Sigurður J. Grétarsson.

 

Leið til læsis - Hljóðfærni

Hljóðfærni er staðlað greiningarpróf sem kannar hljóðkerfisvitund barna í 1. bekk grunnskóla með nákvæmum hætti. Prófið er aðallega ætlað börnum sem teljast í áhættuhópi vegna lestrarörðugleika/umskráningarörðugleika. Höfundar prófsins eru Bjartey Sigurðardóttir og Sigurgrímur Skúlason, en það er gefið út af Námsmatsstofnun 2012. Nánari upplýsingar er að finna á vef Námsmatsstofnunar undir  tenglinum Skólatengd færni á vefslóðinni http://www.namsmat.is/vefur/stodlud_prof/leid_las/hljodfarni.html

Hljóm- 2 Einstaklingspróf

Hljóm – 2 er ætlað að til að athuga hljóð og málvitund barna á leikskólaaldri, 4-6 ára. Höfundar prófsins eru Ingibjörg Símonardóttir, Jóhanna Einarsdóttir og Amalía Björnsdóttir og var það gefið út árið 2002.

Prófþættir þess eru:

 • Rím, að finna hvaða orð á mynd rímar við gefið orð
 • Samstöfur, að klappa takt orða
 • Samsett orð, að finna hvaða orð verður til úr tveimur orðum
 • Hljóðgreining, að greina hvort tiltekið hljóð er í orði
 • Margræð orð, að finna tvær myndir af sama orði
 • Orðhlutaeyðing, að finna hvaða orð verður eftir ef hluti þess er numinn á brott
 • Hljóðtenging, að finna orð sem er hljóðað hægt
 • Greiningarpróf- einstaklingspróf:

Told -2P málþroskapróf

Málþroskapróf eru oft notuð með lestrargreiningarprófum til að athuga hvort um víðtækari málþroskaerfiðleika er að ræða en þá sem snúa að hljóðkerfisúrvinnslunni.

Told – 2P málþroskaprófi er ætlað að greina málþroskahæfni barna á aldrinum 4-9 ára. Prófið er eftir Hammill og Newcomer (1982, 1988). Ingibjörg Símonardóttir og Einar Guðmundsson sáu um þýðingu og staðfærslu og kom prófið út 1996.
Prófþættir (undirþættir) þess eru:

 • Orðþekking út frá myndum
 • Orðskilningur
 • Túlkun setninga
 • Endurtekning setninga
 • Hljóðgreining
 • Framburður

Told -2I málþroskapróf

Told – 2I málþroskaprófi er ætlað að greina málþroskahæfni barna á aldrinum 8-13 ára. Prófið er eftir Hammill og Newcomer (1982, 1988). Ingibjörg Símonardóttir og Einar Guðmundsson sáu um þýðingu og staðfærslu og kom prófið út 1996.
Prófþættir (undirþættir) þess eru:

 • Setningatenging
 • Orðaforði
 • Orðaröð
 • Alhæfingar
 • Málfræðiþekking
 • Orðabrengl

LOGOS

LOGOS er tölvuforrit/próf til að greina lesblindu (dyslexíu) og aðra lestrarerfiðleika hjá börnum, unglingum og fullorðnum. Bjarnfríður Jónsdóttir, Guðbjörg Ingimundardóttir, Guðlaug Snorradóttir og Gyða M. Arnmundsdóttir keyptu einkarétt á LOGOS á Íslandi og hafa þýtt, staðlað og staðfært það í samstarfi við lestrarsérfræðinginn prófessor Torleiv Høien frá Noregi.

 • Fyrsti hluti prófsins er ætlaður nemendum í 3. – 5. bekk, en hægt er að nota ákveðna prófhluta fyrir nemendur í 2. bekk í þeim tilgangi að greina lestrarerfiðleika barna eins fljótt og unnt er. Sá hluti er í 17 prófþáttum og lögð er áhersla á snemmtæka íhlutun og kennslufræðileg úrræði hvað varðar lestrarnám barna.
 • Annar hluti prófsins er ætlaður nemendum í 6. – 10. bekk og fullorðnum. Sá hluti er í 14 prófþáttum sem greina leshraða, lesskilning, hlustunarskilning, umkóðun og aðra lestrartengda færni. Flestir prófþættir eru metnir með tilliti til áreiðanleika og viðbragðsflýtis.
  Prófin eru stöðluð út frá aldurssvarandi viðmiðun.

  Hægt er að velja eftirfarandi form á niðurstöðum:
  a. stöðluð skýrsla,
  b. sundurliðuð skýrsla
  c. nánari útfærslur á vandanum

Sjá nánar um prófið: http://www.logos-test.is/UmLogos.htm

Greinandi lestrarpróf fyrir 10 ára nemendur (GRP-10)

Prófið er samið af hópi fimmtán sérkennara (Aldís Eiríksdóttir o.fl.) veturinn 1998-99. Prófin voru unnin á námskeiði undir stjórn Rannveigar Lund í Lestrarmiðstöð KHÍ. Við forprófun og viðmiðanagerð voru prófin lögð fyrir 105 nemendur sem valdir voru af handahófi úr árgangi 10 ára barna í 15 skólum á Stór-Reykjavíkursvæðinu, Keflavík, Akranesi og í Borgarfirði.

Prófþættir þess eru:

 • Raddlestur samfellds texta
 • Lestur orðleysa
 • Athugun á hljóðkerfisvitund
 • Stafsetning eftir upplestri

Aston Index-lestrargreiningarpróf

Prófið er ætlað nemendum á aldrinum 6-12 ára. Það er enskt, eftir Margaret J. Newton og Michael E. Thomas (1976), en þýtt og staðfært úr norsku af Félagi íslenskra sérkennara (Bjarnfríður Jónsdóttir o.fl.) og gefið út á Íslandi árið 1996.

 • Prófþættir þess eru:
 • Að þekkja myndir
 • Orðskýringar
 • Að teikna manneskju (Goodenaugh –teiknipróf)
 • Að teikna eftir fyrirmynd
 • Bókstafir og hljóð
 • Lestur stakra orða
 • Stafsetning stakra orða (má nota sem hóp-próf)
 • Sjónræn aðgreining
 • Hægri/vinstri áttun
 • Að skrifa nafnið sitt
 • Frjáls stíll
 • Sjónrænt raðminni á myndir og tákn
 • Heyrnrænt raðminni á talnaraðir
 • Hljóðtenging
 • Hljóðgreining
 • Mat á ríkjandi hönd (Grenitré)

© Helga Sigurmundsdóttir

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer