You are here

Árangurs- og stöðupróf

Orðarún - Lesskilningspróf

Orðarún er staðlað lesskilningspróf ætlað nemendum í 3. - 8. bekk grunnskólans. Höfunar þess eru Dagný Elfa Birnisdóttir, Rósa Eggertsdóttir og Amalía Björnsdóttir. Það er gefið út af Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri árið 2011. Tvö próf eru fyrir hvern árgang. Hvert próf samanstendur af tveimur textum og fylgja tíu fjölvalsspurningar eða fullyrðingar hvorum texta. Prófspurningar reyna í stórum dráttum á ferns konar færni:

 • að greina staðreyndir sem koma fram í texta, orðréttar eða umorðaðar
 • að draga ályktanir af því sem ekki er sagt berum orðum í texta
 • að átta sig á meginefni texta
 • að útskýra orð og orðasambönd

Prófinu er ætlað að vera leiðbeinandi um næstu skref fyrir nemendur í námi. Sjá nánar í handbók prófsins.

Leið til læsis - Eftirfyglnipróf

Eftirfylgnipróf Leiðar til læsis samanstanda af

 • orðalistum (tveir fyrir hvern árgang) til að prófa sjónrænan orðaforða
 • samfelldum texta til að prófa lesfimi (tveir fyrir hvern árgang) nemenda

Prófunum er ætlað að meta framfarir nemenda og skoða stöðu þeirra miðað við meðaltal jafnaldra á landsvísu. Höfundar prófanna eru Helga Sigurmundsdóttir, Steinunn Torfadóttir og Sigurgrímur Skúlason, en þau eru gefin út af Námsmatsstofnun 2010, sjá nánar á vef Námsmatsstofnunar undir tenglinum Skólatengd færni.

Lesmál - mat á lestri og réttritun (biðja um nánari lýsingu og bera undir höfunda)

Lesmál er staðlað próf fyrir 2. bekk grunnskóla. Það metur umskráningu, hraðlestur, lesskilning og réttritun. Prófið er unnið í samvinnu við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Nánari upplýsingar má fá hjá Rósu Eggertsdóttur sem gefur út prófið.

Læsi - lestrarskimun

Læsi - lestrarskimun er ætlað að athuga lestrarhæfni nemenda í 1. og 2. bekk. Annars vegar til að finna nemendur sem kunna að vera í áhættuhópi vegna lestrarerfiðleika, hins vegar að veita kennurum upplýsingar til að skipuleggja kennslu nemenda. Prófið er þýtt og staðfært af Guðmundi B. Kristmundssyni og Þóru Kristinsdóttur úr norsku og kom út árið 2000. Prófið samanstendur af fimm heftum. Þrjú eru fyrir 1. bekk og tvö fyrir 2. bekk.
Sjá einnig undir skimun.

LH- 60 og LH-40 (Leshæfnipróf )

Prófin eru hóp-próf og prófa lesskilning og leshraða. Nemendur lesa mislangar setningar og velja viðeigandi mynd af 5 mögulegum. Nemendur fá 15 mínútur til að ljúka við prófið. Prófið er danskt, en þýtt og staðfært af Rannveigu G. Lund og Matthildi Guðmundsdóttur.

 • LH – 60 er ætlað nemendum í 3. og 4. bekk
 • LH - 40 er ætlað nemendum í 5. og 6. bekk.

Yfirlitspróf í lestri og skrift fyrir 1. bekk

Prófið er eftir Carl Thomas Carlsten, þýtt og staðfært af Kristínu Aðalsteinsdóttur, útgefið 1988. Prófið er hóp-próf og hægt er að leggja það fyrir heila bekki.

Haustpróf

 • stafakönnun
 • greining forhljóða
 • greining hljóða í orðum

Vorpróf

 • stafakönnun
 • að skrifa orð og stuttar setningar
 • lestur og velja rétt orð af tveimur sem passa við setninguna.

Yfirlitspróf í lestri og skrift fyrir 4. bekk

Prófið er eftir Carl Thomas Carlsten, þýtt og staðfært af Kristínu Aðalsteinsdóttur, útgefið 1988. Prófið er hóp-próf og hægt er að leggja það fyrir heila bekki. Það skiptist í

 • lesskilningspróf
 • stafsetningarpróf

Réttritunar- og lestrarpróf fyrir 7. bekk

Prófið er eftir G.L. Dale og C. T. Carlsten, þýtt og staðfært af Kristínu Aðalsteinsdóttur og Hildu Torfadóttur, útgefið 1984. Það skiptist í

 • lesskilningspróf
 • stafsetningarpróf
 • spurningalista

Lesskilningspróf fyrir eldri og yngri nemendur

Lesskilningspróf fyrir eldri og yngri nemendur má finna í lestrarmöppu um heildstæða móðurmálskennslu sem samstarfshópur í Njarðvíkurskóla vann veturinn 1995-1996.

Raddlestrarpróf

Algengt er að nota ýmis raddlestrarpróf til að meta lestur og fylgjast með framförum nemenda. Með raddlestrarprófum er verið að mæla lestrarleikni/lesfimi sem er undirstaða þess að nemendur nái góðum lesskilningi. Einfaldasta leiðin til að meta lestrarleiknina er að mæla leshraða. Hraðinn er ýmist metinn með því að telja atkvæði eða orðafjölda sem nemandi les að meðaltali á mínútu. Hægt er að bera niðurstöður saman við aldurstengd viðmið. Einnig má miða við meðaltal á leshraða nemenda í sama bekk eða árgangi. Hægt er að kanna lesskilning með því að spyrja nemendur um efnið eða fá þá til að endursegja það.

© Helga Sigurmundsdóttir

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer