You are here

Fágæti og furðuverk

 Fágæti og furðuverk

Lestrarhvetjandi samstarfsverkefni heimila og skóla

Alþjóðlegar samanburðarkannanir benda á nauðsyn þess að efla læsi meðal íslenskra drengja. Lengi hefur legið fyrir að stúlkur standa drengjum framar í læsi og í íslenska hluta PISA rannsóknanna frá 2000 til 2009 kemur kynjamunur í lesskilningi vel fram drengjum í óhag.

Niðurstöður sem þessar urðu til þess að hafist var handa við að þýða og staðfæra enska verkefnið Curiosity Kit sem fékk nafnið Fágæti og furðuverk en það er lestrarhvetjandi samstarfsverkefni heimila og skóla. Það er ætlað nemendum á aldrinum 9 til 11 ára en kemur sérstaklega til móts við áhugasvið drengja.

Markmið verkefnisins er að hvetja nemendur og fjölskyldur þeirra til aukins lestrar og sömuleiðis að styðja fjölskyldur nemenda til að lesa og leika sér með börnum sínum.

Skóli sem hyggst vinna verkefnið kemur sér upp bekkjarsetti af pokum með bókum og fylgihlutum fyrir nemendur í 4. bekk. Einn poki er fyrir hvern nemanda og er hver poki með mismunandi lestrarefni og fylgihlutum og standa öllum nemendum bekkjarins til boða. Nemendur velja og taka pokana vikulega með sér heim og vinna að verkefninu í samvinnu við fjölskyldu sína í fjórar vikur í senn, tvisvar sinnum yfir skólaárið.

Í hverjum poka má finna eftirtalið:

-  Bók eða fræðilegt efni fyrir börn um eitthvert tiltekið þema. Safnað er saman efni sem tengist þema sem líklegt er að 9–11 ára drengir hafi áhuga á, svo sem bækur sem fjalla um íþróttir, tækni, dýr, líf á norðurpólnum o.fl.

-  Tímarit eða bók um sama þema fyrir fullorðna.

Fylgihlutir sem tengjast þemanu, svo sem dýr, legókubbar, mynddiskur, galdradót og svo framvegis.

Teikniverkefni sem tengist þemanu.

Samskiptabók sem fylgir nemandanum meðan á verkefninu stendur og er til að meta verkefnið og innihald pokanna. Gert er ráð fyrir að þeir sem taka þátt í verkefninu heima skrifi einnig athugasemdir í samskiptabókina.

 

Verkefnið var fyrst tilraunakennt í þremur grunnskólum og áhrif þess svo metin í einum skóla. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom í ljós að lesefnið og verkefnin sem nemendum var boðið höfðuðu vel til áhugasviðs nemenda og athygli vakti að engum nemanda þótti efnið í pokanum sem hann fór heim með leiðinlegt. Í viðtölum við nemendur í lok verkefnisins var sérstaklega hlustað eftir athugsemdum og mati drengja sem átt höfðu í erfiðleikum með lestur. Engin neikvæð athugasemd kom frá þeim um verkefnið og sýndu drengirnir verkefninu almennt meiri áhuga en stúlkurnar. Skýrt kom í ljós að bæði nemendur og foreldrar voru ánægðir með samstarfið sem verkefnið bauð upp á. Samt sem áður kom fram í niðurstöðum að foreldrar drengjanna virðast sinna hlutverki sínu gagnvart námi barna sinna verr en foreldrar stúlknanna og minni skuldbinding var við nám þeirra. Grein hefur verið skrifuð um rannsóknina og mun hún birtast í bókinni Fagmennska í skólastarfi: Skrifað til heiðurs Trausta Þorsteinssonar sem væntanleg er í útgáfu haustið 2013.

© Ingibjörg Auðunsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer